08.02.1945
Neðri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Þegar þetta frv. var hér til umr. fyrr í dag, lágu fyrir tvær brtt. við það, í fyrsta lagi frá minni hl. hv. allshn. og í öðru lagi frá fjórum hv. þm. Þessar brtt. voru báðar felldar af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., svo að frv. er nú við 3. umr. eins og það var í fyrstu lagt fyrir.

1. gr. frv. kveður svo á um, að reglulegt Alþ. 1945 skuli koma saman 1. dag októbermánaðar, hafi forseti Íslands eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu. Mér finnst ekki vera hægt að skilja þetta öðruvísi en þannig, að hæstv. ríkisstj. ætli sér ekki að kveðja hv. Alþ. saman til fundar fyrr en 1. október n.k., nema eitthvað óvænt komi fyrir, m.ö.o., að Alþ. verði ekki kvatt saman fyrr, nema eitthvað það komi fyrir, sem nú er ófyrirsjáanlegt, sem geri, að dómi hæstv. ríkisstj., nauðsynlegt að kveðja það saman fyrr. Ég get ekki skilið efni gr. öðruvísi en á þennan veg. Nú vil ég benda á í þessu sambandi, að fyrir hv. Ed. liggur frv. til l. um breyt. á l. um dýrtíðarráðstafanir, sem hefur legið alllengi fyrir Alþ., og eftir því, sem fram hefur komið frá hæstv. ríkisstj., mun mega gera ráð fyrir, að þetta frv. verði samþ. nú, áður en þ. lýkur.

Þetta frv. er um bráðabirgðaákvæði, sem eiga að falla úr gildi 15. sept. n.k. eða hálfum mánuði fyrr en hæstv. ríkisstj. ætlar að kalla þ. saman til fundar. Nú er það ljóst, að ef engar sérstakar ráðstafanir verða gerðar í stað þessara bráðabirgðaákvæða, þegar þau falla úr gildi um miðjan sept. n.k., þá hlýtur það að hafa þær afleiðingar, að dýrtíðin eykst verulega, en hins vegar virðist svo, eftir þessu frv. um samkomudag reglulegs Alþ., sem hæstv. ríkisstj. ætli sér upp á eigin spýtur að ráða fram úr þessum dýrtíðarmálum,. án þess að hafa Alþ. þar með í ráðum. Það, að þetta bráðabirgðaákvæði fellur niður um miðjan sept. n.k., er fyrirsjáanlegt nú í dag og er því. ekki eitt af því óvænta, sem fyrir kynni að koma, sem gerði það að verkum, að hæstv. ríkisstj. teldi ástæðu til að kalla hv. Alþ. fyrr saman. Ég get því ekki dregið aðra ályktun af þessu en hæstv. ríkisstj. ætli sér að gera þær ráðstafanir, sem henni kunna að þykja nauðsynlegar í þessum dýrtíðarmálum upp á eigin spýtur, án þess að hafa á þ. starfandi til þess að afgreiða þau mál. Út af þessu vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort hún hafi nú þegar tekið nokkrar ákvarðanir um það, hvernig hún muni snúast við þessu máli, þegar þar að kemur, eða hverjar ráðagerðir hún kunni að hafa á prjónunum um þessi mál. Þetta er síðasta umr. um þetta frv. hér í hv. d., og þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram þessa spurningu fyrir hæstv. ríkisstj. og óska svars.