09.02.1945
Efri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

278. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1945

Jónas Jónsson:

Það er þessi hálfi mánuður, sem hæstv. forsrh. vill ekki svipta hulunni af. Ríkisstj. hefur nefnt 1. okt. sem mögulegan samkomudag Alþ., en hálfum mánuði áður verður að taka ákvarðanir í dýrtíðarmálunum. Ég gat ekki sannfærzt af rökum hæstv. forsrh. um, að ástandið hafi verið verra í tíð fráfarandi stj. Ef ég vildi, gæti ég bent á ýmislegt, sem hefur farið stórum versnandi síðan hin nýja stj. tók við. Má þar t.d. nefna vöruflutningana. Og ummæli hans skýra ekkert viðvíkjandi þessum hálfa mánuði. Annars vil ég leiða athygli hæstv. ráðh. að því, að það, sem gerði honum mögulegt að setjast í þessa hlýju og góðu stóla, var fórn sú, er bændurnir færðu á s.l. hausti á búnaðarþingi, og það er alltaf fallegt að vera velgerðamönnum sínum þakklátur. Mætti hæstv. ráðh. vera þess minnugri hér eftir en hingað til.