12.02.1945
Efri deild: 125. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

166. mál, bygging nokkurra raforkuveita

Eiríkur Einarsson:

Ég á brtt. á þskj. 1076. Það er nokkúrrar athygli vert, að þegar áhuginn vex um alla landsbyggðina á því að nota sér vatnsorku okkar til rafmagnsframleiðslu, þá skuli stærstu orkulindirnar, sem hagnýttar eru, ekki hafa komið að notum í þeim þorpum, sem næst liggja virkjununum. Þegar Sogsfossar voru virkjaðir, hygg ég það hafi verið mistök, að þorpin í Árnessýslu fengu ekki þegar rafmagn þaðan. Nú er komið sem komið er, og úr því að ráða, sem er.

Raflínan til Keflavíkur er nauðsynjamál, sem allir styðja. Ekkert er nema gott um það að segja, að hún verði síðan framlengd um Suðurnes. En þá er einkennilegt, að því nær sem dregur orkustöðinni við Sog, því örðugra verði fyrir jafnstórar þorpabyggðir að fá rafmagn. Til að jafna þann halla, sem svo er óeðlilegur að öllu leyti, hef ég borið fram brtt. um, að í þál. verði bætt raflínu frá Sogsvirkjuninni til þorpanna þar innan héraðs og til Þykkvabæjar í Rangárvallasýslu. Ég skal ekki fara langt út í samanburð. Keflavík er að vísu allstórt kauptún, auk þess má þar með telja Njarðvíkur. En þorpin í Árnessýslu eru ekki mannfærri alls, 2 þús. manns eða fleiri mundu þar njóta raflínunnar.

Viðvíkjandi þátttöku þorpanna í kostnaði og um lagningu heimtauga verður að taka fram, að sum þeirra eru ekki sjálfstæð hreppsfélög. En úr þeim vandkvæðum ætti að mega leysa. Hveragerði og Selfoss hafa hvort um sig nær 300 íbúa, svo að ekki er mannfæð því til fyrirstöðu, að þau geti orðið sérstök hreppsfélög.

Ég tók Þykkvabæ með af því, að ekki er mjög löng leið þangað frá Stokkseyri og í Þykkvabæ eru yfir 40 búendur, en aðrir 20–30 á næstu grösum, alls 60–70 bændur, sem gætu notið þessa á tiltölulega litlu svæði, og er það óvenjulegt í sveitum.

Ég tók Þykkvabæ með af því, að ekki er mjög sjálfsagt að leiða orku frá Soginu til Þykkvabæjar, þar sem öll skilyrði eru þó fyrir hendi, þá þykir mér verr horfa með þá stórhuga fyrirætlun að leiða rafmagn um landsbyggðina yfirleitt. Það á ekki heldur neitt að vera að óttast, þó að þessi brtt. verði samþ. og skeytt við Keflavíkurfrv. Það er nú sífellt verið að reyna að fá útflutningsleyfi fyrir efni til raflýsingar þorpanna í Árnessýslu, jöfnum höndum og til Suðurnesja. Málið stendur fyrst og fremst og fellur með því, hvort hægt verður að fá það, sem til þess þarf. Mjög ákveðinn vilji er fyrir hendi, og þörfin er einnig mjög brýn, og eðli málsins segir fyrir um, að þarna er frumburðarrétturinn til þess að njóta þessara gæða, og ég held, að það sé fyrir að þakka, þó að í samræmi við frv. og brtt. sé hætt á, að íbúarnir sjálfir kosti heimtaugarnar, að þá sé hinn góði vilji, sem ég hef þegar lýst, samfara efnalegum möguleikum, það afl, sem geri það kleift, þó að hluttaka og framkvæmd ríkisins nái ekki nema heim að túngarði, að þessu leyti. Svo að hér er ekkert að óttast um vegalengdina, eins og ég hef áður tekið fram, þ.e.a.s. frá höfuðvirkjuninni til kauptúnsins, sem lengst er, þá er fjarlægðin í mesta lagi 35 km. Aftur á móti mun vegalengdin, ef ég man rétt, frá Hafnarfirði til Keflavíkur vera nálægt 37 km eða dálítið lengri en þar, sem lengst er austan fjalls. Svo að mér þætti það koma dálítið „spánskt“ fyrir, ef sá reyndist vilji hv. þm., að það þætti sanngjarnt að heimila lögfestingu á rafmagnsveitu til Suðurnesja umfram það, sem fyrir liggur til Keflavíkur, svo sem komið er á leið, en sjá ekki ástæðu til sams konar heimildar til þorpanna austan fjalls. Ég vil ekki segja meira í þeim efnum heldur en ég veit eða get fullyrt, en ég veit, að Rafmagnseftirlit ríkisins annars vegar og svo hins vegar sá hæstv. ráðh., sem um þessi mál fjallar, vita af þessari till., og mér finnst, að þeim hvorugum komi hún neitt undarlega fyrir sjónir, að ég ekki segi meir.

Í sambandi við þessi málefni, sem miða að því að auka raforkunotin frá Ljósafossi, má varpa fram þeirri spurningu, hvort Reykjavík, sem á fyrirtækið fyrst og fremst sér til hagnýtingar, sé aflögufær. Svarið kynni að verða á ýmsan veg, eftir því hversu langt er litið fram um þarfir höfuðborgarinnar: En það er a.m.k. hægt að segja sem svo, að þegar langt er litið fram í tímann og miðað er við framþróun í þessum efnum, að meira vatnsafl sé í Soginu, og hvað er líklegra og eðlilegra en að það verði hafin aukin virkjun umfram það, sem þegar hefur átt sér stað? Og þó að sú hagnýting, sem hér er um að ræða, sé bæði mikil og góð, þá er það ekki nema sandkorn á sjávarströnd, miðað við það, sem í vændum er, þegar að heildarvirkjuninni kemur, svo hlutfallslega lítil er sú orka, sem hér um ræðir.

Ef hinir fjarlægari og kannske minni staðir koma til greina, þá því fremur þeir nálægari, sem hafa sambærilega eða betri aðstöðu. Ég veit, að í sambandi við þann leiða drátt, sem orðið hefur á því, að þorpin austanfjalls fengju raforku, þá er Reykjavíkurbæ ekki um að kenna. Það eru leiðinleg og slysaleg mistök frá upphafi vega, sem valda þar um. Saga, sem hér er hvorki tími né tækifæri til þess að rekja, þó að hún væri kannske að sumu leyti lærdómsrík.

Ég vil að síðustu aðeins taka það fram, að þar sem hér er í brtt. lagt til, að þessir staðir austanfjalls fái sams konar lögfestingu og þeir staðir, sem nefndir eru í frv., þá verður breyting á fjárhæðinni, sem er stungið upp á eftir áætlun Rafmagnseftirlits ríkisins, að úr 3 millj. kr. miðað við Keflavík og Suðurnes verði hér settar 6 millj. kr. Það hef ég gert í samráði við rafmagnseftirlitsmann ríkisins, þar sem hann áætlar, að til háspennulínu til kauptúnanna þriggja í Árnessýslu muni fara nærri sanni að þurfi að áætla 2 millj. kr., og þá miðað við framlengingu til Þykkvabæjar þurfi að áætla lauslega 3 millj. kr. samtals.

Ég vona nú, að þær skýringar, sem ég hef veitt á þessu máli, geti verið þeim til hugsvölunar, sem hafa verið hikandi um réttmæti þessarar samþykktar, og að enginn sé nú um það á báðum áttum, að samþykkt þessarar brtt. á fullan og sjálfsagðan rétt á sér.

Það er þó að segja, að framkvæmdirnar eru fyrst og fremst komnar undir því, að efni fáist til landsins, og er það fastur ásetningur hæstv. ríkisstj. og Rafmagnseftirlits ríkisins að vinna að því að leita eftir útflutningsleyfum og kaupum á efni. Það er verið að vinna að því fast og ákveðið, og úr því að þannig stendur á, er ekki nema sjálfsagt að lögfesta þetta og nauðsynlegur liður til þess, að ljós geti úr því orðið.

Það hefur komið fram nokkur ótti um það, að þegar þessi till. sé borin fram, muni fleiri koma á eftir.

Ég tel, að það þurfi ekki að óttast slíkt svo mjög. Fyrst og fremst er þess að geta, að nokkur ágreiningur er kominn fram á Alþ. um meginaðferðir við rafveitu fyrir landið. Sú deila kemur þessu ekkert við að því leyti, að þessi rafveita, sem ég ber fyrir brjósti, til nokkurra þorpa austanfjalls hefur alveg sérstaka aðstöðu, og breytir engu, hvaða aðferð verður ofan á í þeirri deilu.

Ég vil nú án frekari ummæla fela sanngirni og réttdæmi hv. þm. þessa brtt. mína, sem ég hef orðið til að standa hér einn að, vegna þess að sæti mitt er í þessari hv. d., en vitanlega er þetta sameiginlegt málefni okkar beggja fulltrúa Árn.