14.02.1945
Neðri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Ég ætla að leiða hjá mér hinar almennu hugleiðingar hv. 2. þm. S.-M. um skattalöggjöf og skattaálögur eins og þær hafa verið undanfarin ár, það verður sjálfsagt tækifæri til að ræða þau mál nánar í öðru sambandi, í sambandi við mál, sem koma þeim málum meira við en þetta frv. Ég vil því víkja örfáum orðum að því, sem hv. þm. hefur sagt um þetta mál, sem liggur hér fyrir, um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands, og sýna fram á, að hann er þar á villigötum að mínu áliti. Hv. þm. lagði á það áherzlu, að gróði Eimskipafélagsins hefði verið svo mikill undanfarin ár og eignir þess svo miklar nú, að með öllu sé ástæðulaust að hlífa því við sköttum, enda þótt ástæða hafi verið til þess undanfarin ár, og hann hefur margendurtekið, að gróði Eimskipafélagsins 1943 hafi verið 20–30 millj. kr. En það er ekki rétt, eftir reikningum hefur gróðinn verið rúmar 18 millj. kr., og þm. vildi rökstyðja þessa staðhæfingu með því, að ekki sé talið með það fé, sem lagt er til hliðar fyrir viðgerðarkostnaði nokkurra skipa, og ef því sé bætt við gróðann, þá kæmist hann undir 22 millj. Ég man ekki betur en það hafi verið upplýst, að það fé, sem lagt hefur verið til hliðar fyrir viðgerðum, hafi ekki hrokkið fyrir kostnaði. Þess vegna er villandi að telja það með gróða félagsins á árinu, því að vitanlega er það ekkert annað en rekstrarkostnaður. En hvað, sem því líður, verður því ekki neitað, að hagnaður félagsins á þessu eina ári er mikill. Um eignir félagsins er það að segja, eins og við höfum báðir tekið fram, að þær eru taldar á efnahagsreikningi 1943 32 millj. Þarna er þó þess að gæta, að síðan hefur félagið misst eitt af skipum sínum, varasjóðir hafa því skerzt um það, sem mismun vátryggingar og verðmætis þess nemur, því að félagið hefur haft skip sín í sjálfstryggingu, eins og hv. þm. mun kunnugt. Eignirnar verða því sennilega fremur minni, ef ekki er tekið tillit til afskrifta af skipinu heldur en ef reiknað hefði verið til kostnaðar. Hv. þm. vex þessi mikla fjárhæð svo í augum, að hann telur, að félagið sé, að því er mér skilst, miklu meira en fært um að fullnægja hlutverki sínu í þjóðfélaginu. Nú geta verið skiptar skoðanir um það, hvert sé hlutverk Eimskipafélagsins í þjóðfélaginu, og hefur hver og einn leyfi til þess að halda sinni skoðun fram um það efni. Ég álit, að Eimskipafélagið sé ekki búið að fullnægja sínu hlutverki í þjóðfélaginu fyrr en svo er komið, að það geti annazt alla flutninga milli Íslands og annarra landa, því að það er a.m.k. praktíst talið þannig, að við höfum ekki nema eitt skip til flutninga á milli landa nú. svo að þar er ekki um að ræða skipsrúm, sem gætir nokkuð verulega í þessu sambandi. Hitt veit hv. þm., að það er langt frá því, að Eimskipafélagið sé enn þá komið á þann veg, að það sé stóratvinnurekstur. En við skulum ganga út frá því, að öllum þessum fjárhæðum. sem Eimskipafélagið hefur yfir að ráða nú, segjum 32 millj., væri varið til þess að kaupa skip. Með því verði, sem hefur verið á skipum, eftir því, sem við þekkjum, þá væri það ekki ákaflega há smálestatala, sem Eimskipafélagið gæti fengið fyrir þessa sjóði sína. Við þekkjum ekki lægra verð á skipum heldur en 5 þús. kr. smálestina, og ef ætti að reikna með þeim byggingarkostnaði, þá gæti Eimskipafélagið eignazt eitt 6 þús. smálesta flutningaskip. Við skulum segja, að félagið vildi eignast 3 þús. smálesta skip, þá gæti það keypt tvö af þeirri stærð. En hv. þm. veit vel, að það er langt frá því, að flutningaþörfinni væri fullnægt, þó að félagið eignaðist tvö þetta stór skip. Það skiptir ekki miklu máli, hvort hér er miðað við rétta skipastærð eða ekki, því að ef skipin eru fleiri og smærri, þá mun kostnaðurinn verða hlutfallslega hærri. Enn fremur veit hv. þm. það, að sum af skipum Eimskipafélagsins eru orðin svo gömul, að á venjulegum tímum væri ekkert við þau gert annað en höggva þau upp, a.m.k. tvö elztu skipin, og sum hin skipin eru farin að eldast og verða viðhaldsfrek og gefa lakari rekstrarafkomu en ný skip. Ef þess er gætt, þá held ég, að það sé of lítill stórhugur hjá hv. þm. að vilja nema staðar hér, ég held, að það eigi að hugsa hærra. Ég held, að við eigum að hugsa okkur, að Eimskipafélagið geti komizt á þann rekspöl í framtíðinni að geta annazt alla flutningaþörf landsmanna. Það hefði getað farið svo síðustu árin, þó að svo lánsamlega hafi tekizt til, að við vegna vinsemdar erlendrar þjóðar höfum ekki lent í stórvandræðum með vöruflutningana, að við hefðum getað fengið dýrkeypta reynslu af að eiga ekki stærri skip en raun varð á, þegar styrjöldin skall á. Hv. þm. vildi halda því fram í þessu sambandi, að féð hefði átt að renna í ríkissjóð, til þess að hann gæti aukið sjóði sína. Er hv. þm. svo bjartsýnn, að hann trúi því, að þó að Eimskipafélagið hefði greitt skatta eins og hver annar, þá hefðu sjóðir ríkisins aukizt svo mikið, að það hefði verið fært um að taka að sér það hlutverk, sem Eimskipafélaginu er nú ætlað að hafa. Ef svo er, þá hefur hann óeðlilega bjartsýni til að bera. Ég er hræddur um, að þetta hefði farið þá leið, að þetta fé hefði, eins og aðrar stórtekjur ríkissjóðs, orðið að eyðslueyri, það hefði sjálfsagt verið hægt að finna nægar holur til þess að fela slíka fjárhæð, eins og raun hefur á orðið um annað. Hv. þm. talaði um það, og er ég sammála um það, að það sé frá skattteknísku sjónarmiði talsvert varhugavert að veita einstökum fyrirtækjum skattfrelsi. Þetta er alveg rétt,. og það væri æskilegt, að við gætum breytt skattalöggjöf okkar þannig, að á þessu þyrfti ekki að halda. Hitt veit hv. þm., að til þessa hefur oft orðið að grípa; það eru fleiri fyrirtæki en Eimskipafélagið, sem hafa notið skattfrelsis, það hefur orðið að grípa til þess, af því að skattalöggjöf okkar er þannig, að ætíð, ef nauðsyn þykir á, að fyrirtæki geti safnað fé, þá hefur orðið að veita því skattfrelsi að verulegu leyti. Hv. þm. minntist á veltuskattinn, og munum við fá tækifæri til að ræða hann, áður en langt um líður, en ég skildi hann þannig, að Eimskipafélagið ætti einnig að vera laust undan veltuskattinum. En þetta er misskilningur. Það er berum orðum tekið fram í veltuskattsfrv., að hann lendi á flutningum. Eimskipafélagið er með þessu frv. aðeins undanþegið tekjuskatti, eignarskatti og stríðsgróðaskatti, en ekki veltuskatti. Hv. þm. var að tala um það, að veltuskatturinn gæti orðið eignarskattur. Ég vil minna hv. þm. á það, að það situr illa á honum að ráðast á núv. stj. fyrir það, þó að hún beri fram frv., sem í einstaka tilfellum gæti orðið eignarskattur, þar sem hann og hans flokkur hafa beitt sér fyrir því þing eftir þing að leggja á stórkostlegri eignarskatt en þarna er um að ræða. Því að það eru algerðar undantekningar, ef veltuskatturinn getur orðið tilfinnanlegur eignarskattur. Þá talaði hv. þm. um skattpíningu, að það færi illa saman að pína skattborgarana með sköttum og veita svo einstökum fyrirtækjum skattfrelsi. Það er ekki skemmtilegt að skattpína borgarana, en heldur hv. þm., að skattborgurunum sé þyngra að borga skatta nú heldur en á þeim tíma, þegar hann stjórnaði skattamálum landsins? Það getur verið, að hann haldi það, en ég held, að þrátt fyrir allt of háa skatta eigi menn hægara með að komast frá þeim nú heldur en þeir áttu þá. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort það hefur mikla praktíska þýðingu, hvort Eimskipafélagið fær skattfrelsi á árunum 1945 og 1946. Það er að vísu ljóst, að félagið mun verða að borga, eignarskatt af eignum sínum eins og önnur hlutafélög, ef það væri svipt skattfrelsi. Hins vegar er útlitið þannig nú, að tekjuskattur sem aðalskattur mundi ekki verða tilfinnanlegur á félaginu á árinu 1945 og sennilega ekki á árinu 1946 heldur. En það eru fleiri viðhorf, sem koma til greina þarna heldur en það eitt, hverja praktíska þýðingu þetta hefði, bæði fyrir ríkið og Eimskipafélágið. Hv. þm. lagði sérstaklega í síðari ræðu sinni áherzlu á það, að ríkið þyrfti að hafa íhlutun um fyrirtæki slík sem Eimskipafélagið. En ég held, að hann hljóti að geta séð það, að ef Eimskipafélagið nýtur ekki skattfrelsis, þá er aðstaða ríkisins til þess að hafa íhlutun um rekstur þess orðin miklu erfiðari en ef félagið nýtur sérréttinda. Mér finnst þess vegna hv. þm. vera í mótsögn við sjálfan sig, þegar hann í öðru orðinu talar um nauðsyn þess, að ríkið hafi áhrif á rekstur félagsins og íhlutun um rekstur þess, en segir í hinu orðinu, að félagið eigi að vera sett eins og hver annar skattborgari. Ég get ekki séð, hvaða sanngirni mælir með því, að ríkið fari að teygja fingurna inn á svið Eimskipafélagsins, ef það á að vera að öllu leyti sett eins og hver annar skattborgari ríkisins. Ég er fullkomlega sammála hv. þm. Borgf. um það, að það sé langt f,rá því, að Eimskipafélagið sé enn þá búið að safna þeim varasjóðum, að það geti fullnægt hlutverki sínu. Ég get þess vegna svarað honum því, að ég álít, að það mundi stríða algerlega á móti þeirri nýsköpun, sem nú er talað um, að láta Eimskipafélagið nú eta upp sjóði sína, og að svo miklu leyti, sem ég get áhrif á það haft, mun ég beita áhrifum mínum gegn því, að svo verði gert. Hvort Eimskipafélagið á þessu ári komi með lítils háttar rekstrartap eða lítils háttar rekstrarafgang, skiptir engu aðalmáli í þessu sambandi. Hitt álít ég fjarri lagi, ef nú ætti að láta félagið fara að ganga verulega á sjóði sína. Ég tel, að ég hafi þá svarað þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. Borgf. beindi til mín. — Að þessu öllu athuguðu sýnist mér, að það sé í rauninni í fullu samræmi við það, sem hv. 2. þm. S.-M. hefur haldið hér fram um nauðsyn þess, að ríkið sleppi ekki öllum tökum af fyrirtækjum eins og Eimskipafélaginu, að félagið njóti þeirra sérréttinda, sem það hefur verið látið njóta í 7 ár, en ríkið hins vegar leggi á það þær kvaðir, sem tryggja það, að þeim hagnaði, sem safnast vegna þessara sérréttinda, verði ekki varið öðruvísi en í alþjóðar þarfir.