01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Við 1. umr. þessa máls benti ég á, hve óheppilegt það væri, að þetta frv. yrði samþ. eins og það kom frá hv. Nd. á þskj. 1202.

Ég vil nú leyfa mér að flytja meiri hl. hv. fjhn. þessarar hv. d. þakklæti fyrir þær till., sem hún hefur flutt í málinu, sem sýna, að þeir hafa einnig skilið þá hættu, sem í því er fólgin, ef frv. væri samþ. á þann hátt, sem kemur fram á þessu þskj. Ég verð að segja það, að ég álít, að ef frv. yrði samþ. eins og það kom frá hv. Nd., þá yrði það nokkru lakara en þótt samþ. yrði till. hv. 1. þm. Eyf., vegna þess að ég er sammála hv. frsm. um það, að það er ekki hægt fyrir félagið að njóta skattfrelsis undir þeim ákvæðum, sem eru í frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 1202. Það væri t.d. ekki hægt fyrir félagið að taka eftirlaunasjóð og byggja fyrir hann skip, af því að þessi sjóður er bundinn til allt annars starfs. Þar að auki er ekki gott fyrir félagið að hafa sífellt yfir sér ákvæði eins og í 4. lið, að þurfa að ná saman við viðkomandi ráðh. á hverjum tíma um kostnað af ekki minni rekstri en strandsiglingarnar eru, sem á s.l. árum hafa kostað eitthvað um 3–6 millj. kr., eftir því hvernig þær hafa verið reknar. Væri ekki gott að eiga slíkt yfir höfði sér, og mundi engin ríkisstj. taka þar neina áhættu um, heldur gera sérstakar ráðstafanir til að umskapa reksturinn.

Af þessum ástæðum er ég þeirrar skoðunar, að það væri jafnvel betra að samþ. till. hv. 1. þm. Eyf. á þskj. 1244, því að það er rétt, að hún fyrirbyggir ekki, að félagið geti alveg notað að fullu það fé, sem það hefur nú yfir að ráða, til þess að halda áfram að byggja upp skipastólinn.

En þessi till. mundi gera allt annað að verkum, — það, að þegar búið væri að samþ. hana, getur hæstv. fjmrh. gengið til félagsins og sagt: Nú er það ég, sem ræð einn, — eins og hann hefur gert alla tíð við Útvegsbankann. Það var sama, hve margir hluthafar voru við bankann. Meðan ríkissjóður átti meiri hl., var beitt valdi við bankann og atkvæðamagn hans takmarkað við 20%. Fjmrh. kom á sínum tíma og sagði: Þið eruð raunar hluthafar og í stjórn, en það er ég einn, sem ræð.

Þetta finnst mér vaka fyrir framsóknarmönnum, þegar þeir koma með þessa till., að breyta Eimskipafélaginu í það horf, að viðkomandi ráðh. fái allt vald yfir stjórn félagsins og öllum eignum þess og geti ráðið einn, án þess að spyrja aðra menn. Þetta gæti nú verið gott og blessað, meðan góður maður er í þessari stöðu, t.d. núv. hæstv. fjmrh. En það er með þetta eins og hvað annað, að þegar kemur verri maður, þá sjást afleiðingarnar fljótt, og ég held, að Eimskipafélagið fengi ekki þá samúð, sem það á skilið, ef því yrði breytt í það horf.

Hv. 1. þm. Eyf. talaði um það, að hann gæti ekki fallizt á, að Eimskipafélagið væri sameign allra landsmanna. Ég held, að ef þetta er athugað, þá sé það í dag eins mikil sameign landsmanna og á sínum fyrstu árum. Ég held, að það sé orðið fast í meðvitund fólks, að hver, sem kann að eiga hlutabréf í þessu félagi, sé þessi eign sameign allrar þjóðarinnar. Að því er mér skilst, þá er það tvennt, sem veldur því, að okkar þjóð vill ekki láta rífast um Eimskipafélagið. Annars vegar það, að félagið hefur virkilega bjargað þjóðinni frá mjög mikilli glötun á þeim tíma, sem hún hefur þurft á því að halda, og svo hins vegar, að það hefur auk þess verið langsterkasti þátturinn í félagsbaráttu Íslendinga. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að menn vilja ekki láta deila á félagið, þó að ég viðurkenni, að um margt mætti deila. Og þó að ekki eigi allir hlut í félaginu, er ekki hægt að neita því, að það hefur verið rekið þannig, að það hefur hvers manns bón viljað leysa, sem hefur sent erindi sín til þess í því fulla trausti, að þau erindi væru leyst, þó að þeir væru ekki hluthafar.

Það er því misskilningur hjá hv. 1. þm. Eyf., að félagið sé ekki alþjóðareign.

Þá vil ég einnig mótmæla því, sem hv. þm. hélt fram, að hlutabréf félagsins væru í margföldu verði, því að það, hvað þau eru í háu verði, fer eingöngu eftir því, hvað leyft er að greiða í arð. Ég skal viðurkenna, að þetta er rétt hjá hv. þm., ef gera á Eimskipafélagið upp í dag og selja eignirnar. En þá held ég heyrðist söngur á hæstv. Alþ., ef Eimskipafélagið tæki sig til á næsta aðalfundi, skipti öllum eignunum upp og hætti rekstri. Þá gerði hæstv. Alþ. bezt í því að taka sjóði félagsins og setja í ríkissjóð, því að þá væri það réttlátt. En við vitum, að þetta vakir ekki fyrir Eimskipafélaginu. Fyrir því vakir það eitt að halda áfram að leysa sömu vandamálin og það tók að sér 1915. Og þótt sjóðir félagsins séu meiri nú en þá, þá eru líka erfiðleikarnir, sem fram undan eru, meiri en nokkru sinni áður.

Ég vil svo að endingu vænta þess, að hv. þdm. samþ. tili. meiri hl. hv. n., eins og hún liggur fyrir hér.