01.03.1944
Neðri deild: 23. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

22. mál, Menntaskóla á Akureyri

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um Menntaskólann á Akureyri hefur verið athugað af menntamn., og leggur hún einróma til, að það verði samþ. óbreytt.

Við 1. umr. beindi hv. þm. Ak. (SEH) þeirri ósk til n., að hún gerði við það brtt. þess efnis, að fastir kennarar Akureyrarskólans yrðu ákveðnir 5 í stað 4 til samræmis við fjölda fastra menntaskólakennara í Reykjavík. Hann hefur ekki veitt því eftirtekt, að föstu kennaraembættin við Menntaskólann í Reykjavík eru ekki 5, heldur 12. Þó að n. hefði fallizt á, að 5 yrðu fastir nyrðra, hefði engin samræming með því fengizt. Nú er starfandi mþn. í skólamálum og mun að öllum líkum skila áliti á þessu ári. Einn nm. á sæti í menntmn. þessarar d. og lýsti yfir því á nefndarfundi, að skipun menntaskólakennara og fjöldi þeirra yrðu að sjálfsögðu íhuguð af n. Þess vegna þótti menntmn. réttara að fresta því máli, þar til fyrir lægju umsögn og till. mþn.