09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

62. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki þreyta hér umr., en af því að ég hef fengizt við þetta mál áður, kann ég ekki við að láta það ómótmælt standa, sem fram kom í ræðu hv. 7. landsk., að ríkisstj. hafi ekki heimild til þeirrar niðurgreiðslu, sem hún hefur innt af hendi. Ég vil í þessu sambandi fyrst og fremst benda á ákvæði dýrtíðarl., og auk þess man ég ekki betur en samþ. væri á síðasta þ. að veita ríkisstj. sérstaka heimild í þessu efni, þar til Alþ. hefði gert aðrar ráðstafanir þar um. Mér er því ómögulegt að skilja, hvað hv. 7. landsk. talar um, þegar hann segir, að engin heimild sé til þeirra aðgerða, sem fyrri liður brtt. hans fjallar um. — Nú ætla ég ekki að fara lengra út í þessar heimildaumr. Það var rætt á síðasta þ., og þá gerði ég grein fyrir, í hverju heimild ríkisstj. væri fólgin skv. dýrtíðarlögunum.

Ég vil einnig, að það komi fram hér, að ég get ekki heldur skilið 2. lið brtt. á þskj. 189, um ráðstafanir til, að það samkomulag, sem náðist á s.l. ári í sex manna n., megi haldast. Í dýrtíðarl. er svo ákveðið, að ef samkomulag verði í sex manna n., þá skuli sá vísitölugrundvöllur, sem þannig er fenginn, gilda til stríðsloka. Þetta varð þá að samkomulagi á Alþ. En nú er gert ráð fyrir í brtt. hv. 7. landsk., að sex manna n. reyni að finna annan grundvöll. Það má því segja, að þessi till. sé tilraun til að upphefja það samkomulag, sem náðist í sex manna n. og gilda átti til stríðsloka. Hitt, að það þurfi n. — og það þannig skipaða n. — til þess að reikna út þær breyt., sem verða á kaupgjaldi og þar með verðlagi, það fæ ég ekki skilið. Auðvitað þarf að reikna það út, en það finnst mér vera starf, sem óþarfi sé að láta sérstaklega kosna n. gera.

Ég get tekið undir þá ósk hv. 7. landsk., að hæstv. ríkisstj. gefi upplýsingar um, hvað hún hugsar sér, að gert verði í málinu. En hvað útreikninginn snertir, finnst mér það hljóta að vera auðvelt verk fyrir Hagstofuna. Grundvöllurinn er gefinn samkv. l., og út frá honum á ekki að víkja að l. óbreyttum.

Ég skal ekki ræða þetta frekar. Þetta er allt saman margsagt hér í d. og þá einnig það, sem hv. 7. landsk. sagði. Þó fannst mér ekki rétt, að umr. yrði slitið svo, að ummælum hans um heimild ríkisstj. til niðurgreiðslu væri ómótmælt. Ég vil bæta því við út af því, sem hv. þm. sagði um skilning Alþ. á fyrri lið brtt., að ekki er hægt að sjá annað en Alþ. hafi horfið frá því að breyta því ákvæði, þótt svo hafi litið út um tíma sem sú breyt. hefði meirihlutafylgi. Ég býst við, að meiri hl. hafi nú sama skilning á þessu og ég hef látið hér í ljós. Það er á valdi Alþ. að afturkalla þá heimild til ríkisstj., sem það gaf á síðasta þingi, og eftir því, sem fram kom þá, má telja víst, að stj. telji sig af því bundna.