21.09.1944
Efri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

97. mál, tilraunastöð

Bjarni Benediktsson:

Það er nokkuð óvanaleg aths., en mér sýnist óþarflega rakin í 2. og 3. gr. smáatriði, sem naumast eiga heima í lagafrv. Í 2. gr. eru töluvert ýtarlega tilgreint, hver landamerki þessi tilraunastöð eigi að hafa, og vitnað í uppdrátt af landeigninni, án þess að hann sé að öðru leyti einkenndur. Og síðan eru ýmsir staðhættir svo rækilega tilteknir. Í 3. gr. er verið að mæla fyrir, hvernig eigi að ákveða þjóðvegarstæðið á þessari tilteknu jörð. Ég efast um, að um nokkurt annað vegarstæði sé í nokkrum venjulegum l. tiltekið eins nákvæmlega um þetta. Ég vildi skjóta því til hv. flm. og n., hvort ekki væri rétt að taka málið af dagskrá og athuga 2. og 3. gr., hvort ekki er hægt að stytta þær og setja meir í samræmi við það, sem venja er í l., tiltaka ekki annað en það, sem á heima í l. Mér finnst ætti að vera nóg að segja: Þessi skal stærð landsins vera, eftir því sem nánar verður kveðið á. Og þar sem samkomulag mun vera um þetta fyrir fram, ætti það því fremur að vera óhætt.