22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

52. mál, hafnarlög fyrir Akureyrarkaupstað

Bjarni Benediktsson:

Út af fyrir sig hef ég ekkert að athuga við frv. þetta, en það sýnist vera ástæða fyrir Alþ. að gera sér gleggri grein en gert hefur verið fyrir hafnarmálum og lendingarbóta. í dag eru til umr. tvö mál varðandi hafnarbætur, og við athugun á stjórnartíðindum síðustu ára sést, að fjöldi þeirra l., sem snerta hafnarmál, er afar mikill.

Það væri mjög eðlilegt að setja samfellda löggjöf um þetta efni, eins og t.d. um brúa- og vegamál. Það verður ekki komizt hjá því að gera heildarlöggjöf fyrir landið allt í þessu efni. Með því yrði betur séð fyrir um hlutföll milli einstakra staða, meira samræmi um fjárveitingar til einstakra staða á landinu. Það verður alltaf óglöggt að gefa út sérstakan lagabálk fyrir hvern einstakan stað. Með heildarlöggjöf fyrir landið allt mundi vænlegra fyrir löggjafann að átta sig á þessum málum.

Ég vil ekki á nokkurn hátt vera meinsmaður þessa frv., en ég vil beina því til hv. n., hvort ekki væri hægt að snúa þessari löggjöf til samræmis nú eða síðar, gera hafnarl. fyrir landið í heild.