19.09.1944
Neðri deild: 52. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Saga Háskóla Íslands er í raun og veru jafngömul hinu endurreista Alþingi Íslendinga. Á næsta ári eru liðin 100 ár, síðan Alþingi var endurreist, og um leið 100 ár, síðan Jón Sigurðsson gerði á Alþingi uppástungu um stofnun þjóðskóla á Íslandi, sem, eins og hann orðaði það: „veitt geti svo mikla menntun sérhverri stétt, sem nægi þörf þjóðarinnar.“ Þessum mikla og framsýna stjórnmálamanni var ljóst, að einn meginþáttur í viðreisn þjóðarinnar og eflingu allrar þjóðlegrar menningar væri að flytja æðstu fræðslu inn í landið sjálft. Uppástunga hans var á þá leið, að tekin væri upp fræðsla í heimspeki, lögfræði, læknisfræði, guðfræði og gagnfræði í íslenzkum þjóðskóla. Þessi till. náði ekki fram að ganga, en hún snerist upp í baráttu fyrir einstökum skólum til að mennta menn til ýmissa embætta í landinu. Á því þingi var gerð áskorun um stofnun prestaskóla, og var hann stofnaður 1847. Læknakennsla hófst svo 1862, en læknaskóli var stofnaður 1876. Baráttan fyrir lagaskóla tók enn lengri tíma. Áratug eftir áratug komu bænaskrár fram um stofnun lagaskóla. Málið var ýmist óútrætt eða fellt, en alloft kom fyrir, að það var samþykkt á Alþ., en synjað staðfestingar af konungi. Loks voru sett lög 1904 um, að lagaskóli skyldi stofnaður, og tók hann til starfa 1908.

En þótt baráttan snerist um áratugi um stofnun einstakra skóla í einstökum fræðum, þá leið ekki á löngu, áður en nýir menn tóku upp baráttu Jóns Sigurðssonar um háskóla eða þjóðskóla á Íslandi. Forgöngu í baráttunni um skólamálið, að Jóni Sigurðssyni liðnum, hafði Benedikt Sveinsson, sýslumaður. Hann flutti á Alþingi 1881 frv. um stofnun háskóla á Íslandi, og hélt hann ýtarlega framsöguræðu fyrir því máli og lauk henni með hinum þekktu orðum sínum: „Þetta mál verður ekki skorið niður, án þess að blóðdropar ættjarðarinnar fylgist með.“ Ár eftir ár og þing eftir þing var þetta annaðhvort fellt eða óútrætt eða samþykkt af Alþ., en synjað staðfestingar af konungi. Loks 1909, nokkrum árum eftir að við höfðum fengið innlenda ráðherrastjórn, kom fram á Alþ. frv. um stofnun háskóla, sem náði samþykki og staðfestingu konungs.

Háskóli var settur á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911. Hann var stofnaður með 4 deildum, þar sem sameinaðir voru hinir 3 embættisskólar, sem áður voru taldir upp, og bætt við 4. deildinni, heimspekideild. Síðan hefur háskólinn á ýmsa lund verið efldur og smábætt við fleiri og fleiri kennurum og kennslugreinum. 1935 voru sett lög um atvinnudeild eða rannsóknarstofnun í þágu atvinnuveganna. Sú stofnun hefur starfað nærri áratug, en kennsla hefur enn ekki verið tekin upp í þeirri grein. Um haustið 1940 var tekin upp kennsla í verkfræði, eftir að lokazt höfðu leiðir íslenzkra námsmanna til að stunda verkfræðinám í nágrannalöndum okkar, Norðurlöndum og Þýzkalandi, en þangað höfðu þeir einkum sótt áður. Ári síðar, 1941, var tekin upp kennsla í viðskiptafræði og tengd við lagadeild, sem nú var nefnd laga- og hagfræðideild. Síðustu árin hefur verið stóraukin kennsla í tungumálum, og fer fram allmikil fræðsla bæði í ensku, frönsku og þýzku og fleiri slíkum greinum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og er flutt af menntmn., er einn þáttur í þessari þróun og eflingu háskólans. Sum þau atriði, sem frv. fjallar um, eru staðfesting á því ástandi, sem þegar er orðið, en önnur nýmæli. Eitt atriði er að lögfesta 2 dósentsembætti í viðskiptafræði. Sama ár og lögin voru sett um sameiningu viðskiptaháskólans við lagadeild, 1941, var 1 dósent skipaður til að hafa kennslu á hendi og ári síðar settur annar dósent til viðbótar. Þessir menn hafa því gegnt þessum embættum, annar 3 ár og hinn 2 ár. Hins vegar eru hvergi til lagaákvæði fyrir þessum störfum, og þykir sjálfsagt að lögfesta þau. Hins vegar hefur samþykkt þessa atriðis í frv. engin útgjöld í för með sér frá því, sem nú er.

Annað atriði í frv. er lögfesting verkfræðideildar. Eins og ég gat um, hófst kennsla haustið 1940 í verkfræði. Var þetta hugsað sem undirbúningskennsla, að ljúka fyrri hluta prófi hér, en komast svo til útlanda til framhaldsnáms. Var þá gert ráð fyrir, að styrjöldin stæði tæplega svo lengi, að þeir menn þyrftu að halda lengra hér en til fyrri hluta prófs. Þessi kennsla hefur borið ágætan árangur, og með þessari reynslu þykir mönnum sýnt, að ekki beri að láta hér staðar numið, heldur stofna til framhaldsnáms, þannig að háskólinn geti útskrifað fullnuma verkfræðinga. Það var fyrir rúmu ári sett n. verkfræðinga til að gera tillögur um þetta mál, og meiri hluti þeirrar n. lagði eindregið til, að þeirri kennslu, sem þegar er hafin, yrði haldið áfram og við hana bætt framhaldskennslu. Álit þessa meiri hluta verkfræðinganefndarinnar er prentað með frv., og vil ég vísa til þess og ekki bæta mörgum orðum við það. Hins vegar töldu 2 verkfræðingar í þessari n. ekki tímabært að efna til framhaldskennslu á þessu stigi málsins, og álit þeirra er einnig prentað með frv. Um nauðsyn þess og kosti að stofna verkfræðideild og koma á fullkomnu námi vil ég aðeins segja það, að í fyrsta lagi fæst með stofnun verkfræðideildar innlend miðstöð í mörgum teknískum fræðigreinum, en það hefur víðtæk og örvandi áhrif á verkfræðilegar framkvæmdir í landinu. Í öðru lagi má þetta teljast menningarlegt sjálfstæðismál. Í þriðja lagi mundi verulegur erlendur gjaldeyrir sparast. Á undanförnum árum hafa ekki fáir námsmenn stundað verkfræðinám við erlenda háskóla og sjálfsagt eytt töluverðum erlendum gjaldeyri. Nú má loks benda á, að námsmönnum sjálfum er vitanlega miklu auðveldara að kljúfa námskostnaðinn hér en stunda nám erlendis í 5 til 6 ár. Um tilhögun eða ástand þessarar deildar vil ég aðeins taka fram, að það er gert ,ráð fyrir, að til fyrri hluta prófs þurfi minnst 2 ára nám og til framhaldsnáms minnst 21/2 ár. Lágmarkstími til fullnaðarprófs er því 41/2 ár.

Í deildinni hafa 8 manns lokið fyrri hluta prófi. Einn þeirra mun vera á förum til Ameríku til framhaldsnáms í skipaverkfræði, og má taka fram hér, að það mun valda nokkrum örðugleikum við að gefa honum nægileg vottorð, svo að erlendir háskólar taki próf hans til greina, að ekki er búið að lögfesta deildina. Hins vegar hefur það skýrt komið fram, að erlendir háskólar, sem náðst hefur samband víð, eru fúsir til þess og telja sjálfsagt að taka þessi fyrri hluta próf fullgild. í deildinni munu nú vera um 22 stúdentar. Viðvíkjandi kostnaðarhlið þessa máls vil ég einnig vísa til greinargerðarinnar. Það er skýrt, að lögfesting þessarar deildar með 3 föstum kennurum þarf ekki að hafa nema tiltölulega lítinn aukakostnað í för með sér frá því, sem nú er.

Það er nú hálf öld, síðan fyrsti íslenzki verkfræðingurinn útskrifaðist. Á þessu tímabili hafa íslenzkir verkfræðingar orðið allmargir, en þó er enn mikill hörgull á íslenzkum verkfræðingum.

Mér er tjáð af fróðustu mönnum, að nú þegar mundi vera fullkomið verkefni fyrir 20 nýja verkfræðinga, bæði hjá stofnunum ríkisins, t.d. vegamálaskrifstofu og vitamálaskrifstofu, hjá ýmsum kaupstöðum, bæði Reykjavík, sem vantar nokkra verkfræðinga, og öðrum kaupstöðum úti um land. Það er því augljóst, að hér er um fullkomna þörf að ræða að stofna til fullkominnar verklegrar kennslu til fullnaðarprófs.

Þriðja atriðið, sem þetta frv. fer fram á, er, að stofnuð verði tvö ný dósentsembætti í íslenzkum fræðum. Um þetta vil ég einnig vísa til bréfs frá kennurum heimspekideildar háskólans í íslenzkum fræðum, sem er prentað með sem 1. fskj. Þegar háskólinn var stofnaður, voru stofnuð tvö kennaraembætti í íslenzkum fræðum, annað í sagnfræði, en hitt í bókmenntum og málfræði. Nokkru síðar var stofnað til þriðja embættisins, og skyldi sá, kennari hafa málfræðikennslu. Fyrir tveimur árum var bætt við öðrum kennara í málfræði, íslenzku nútímamáli. Og nú er það till. heimspekideildar, sem menntmn. þessarar hv. d. hefur fallizt á, að bætt verði við kennara í bókmenntum og öðrum í sagnfræði.

Ekki þarf um það að deila, að grundvöllur okkar sjálfstæðis og tilveruréttur sem sjálfstæðrar þjóðar er fyrst og fremst okkar þjóðerni, okkar þjóðlegu verðmæti, sérstaklega saga og tunga, með öðrum orðum íslenzk menning. Því aðeins, að við höfum íslenzka menningu og íslenzkt þjóðerni í heiðri, getum við vænzt þess að verða virtir sem sjálfstæð þjóð, að eiga rétt sem sjálfstæð þjóð. Þess vegna ber ekki sízt á þessu ári, þegar við höfum að lokum tekið öll vor mál í eigin hendur, að kosta kapps um að efla sem mest hina íslenzku menningu og þjóðleg fræði. Og þessi aukna kennsla í íslenzkum fræðum í háskólanum stefnir í þá átt. Með þeim hætti er meiri von til þess, að fljótar gangi rannsókn á mörgum sviðum íslenzkra fræða, sem enn eru með öllu ónumin eða lítt numin. Aukin kennsla í þessum fræðum og aukin rannsókn með meiri kennslukröftum mundi einkum gera það tvímælalausara en verið hefur, að hér við íslenzka háskólann væri og ætti að vera höfuðstöð íslenzkra fræða. Þetta á að vera — eins og heimspekideildin tekur réttilega fram í sínu bréfi — ein þungvægasta röksemdin fyrir því, að Íslendingar endurheimti handrit þau, sem eru erlendis, en eru hvergi betur komin en hér heima, og því betur sem betur er unnið að vísindalegum rannsóknum á þessu sviði við háskólann. Ég vænti því þess, að hv. d. geti fallizt á þær till., sem hér eru gerðar. Það má vitaskuld vera, að upp komi í hugum einstakra þm. þær sömu mótbárur, sem jafnan hafa upp komið gegn því, að tekin verði upp kennsla í vísindagreinum hér á landi. Eru aðallega tvær mótbárur, sem gengið hafa gegnum þingsöguna meðal þeirra, sem voru á móti stofnun háskóla, lagaskóla, læknaskóla o.s.frv. Önnur er kostnaðarhliðin, að við höfum ekki efni á þessu. Hin er sú, að við Íslendingar séum ekki færir um það til jafns við aðrar þjóðir að annast kennslu þessara vísinda- og fræðigreina. Um fyrra atriðið vil ég segja, að jafnvel þótt væri um talsverðan kostnaðarauka að ræða, þá er þetta hins vegar svo stórfellt menningar- og sjálfstæðismál, að kostnaðurinn má ekki vera aðalatriðið. En auk þessa er á það að benda, að stórkostleg fjárfúlga sparast við það að flytja kennslu í þessum greinum, eins og verkfræði, inn í landið sjálft. Það er veruleg fjárhæð í erlendum gjaldeyri, sem undanfarna áratugi hefur gengið til að mennta menn erlendis í þessari grein. Um hitt atriðið, að Íslendingar séu ekki færir til jafns við útlenda menn að annast þessa kennslu, þá er þessi mótbára fyrst og fremst leifar af vantrausti Íslendinga á sjálfum sér, sem reynsla síðustu ára og áratuga hefur þó greinilega hrakið. Það hefur komið í ljós, að hvarvetna, þar sem Íslendingar hafa fengið að njóta þeirrar æðstu menntunar, hafa þeir staðið fullkomlega til jafns við erlenda menn. Og ég held, að saga okkar Íslendinga einmitt í verkfræðilegum efnum sýni það, að íslenzkir verkfræðingar standa fullkomlega til jafns við erlenda. Við höfum fengið á undanförnum áratugum nokkra erlenda verkfræðinga til að standa fyrir ýmsum mannvirkjum. Ég held óhætt sé að fullyrða, að þau hafi ekki verið betur af hendi leyst en þau mannvirki, sem Íslendingar hafa sjálfir staðið fyrir.

Hlutverk háskólans má segja, að sé fyrst og fremst að mennta unga menn til þess að taka við störfum í þágu þjóðarinnar, hvern á sínu sviði. Í öðru lagi á háskólinn að vera vísindastofnun. En þriðja hlutverkið og það, sem er ekki hvað minnst virði, er að hann á að vera miðstöð og höfuðstöð íslenzkra og norrænna fræða. Með þessu frv. er stefnt í þá átt. Vænti ég, að hv. d. geti fallizt á, að með þeim þremur atriðum, sem hér er farið fram á, sé stefnt í rétta átt. Við höfum nýlega öðlazt okkar fullkomna stjórnarfarslega sjálfstæði. Á undanförnum árum höfum við á marga lund lagt grundvöll að fjárhagslegu sjálfstæði. En hið menningarlega sjálfstæði er ekki minnst virði, og sú sjálfstæðisbarátta er ævarandi. Háskólinn á að vera eitt af táknum fullveldis okkar. Og með eflingu hans er einmitt verið að treysta stoðirnar undir fullveldi Íslendinga í framtíðinni.