12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Mig undrar það, að umr. um þetta mál skuli geta komizt á það stig, sem þær komust á hjá hv. síðasta ræðumanni, og ég hef ekki hugsað mér að fylgja hans fordæmi. En ég vildi aðeins skýra nokkur atriði málsins. Hv. þm. V.-Húnv. vildi halda því fram, að kennarar við háskólann í viðskiptafræði væru ráðnir til bráðabirgða. Þetta er misskilningur. Tveir þessara kennara voru skipaðir 1941, af þáverandi kennslumálaráðh., Hermanni Jónassyni, en hinir settir til starfsins. Ég veit, að allir, sem hafa kynnt sér þessi mál, vita, að þegar maður er skipaður í embætti, er ætlazt til, að hann haldi því, meðan hann brýtur ekkert af sér. Þetta frv. fer fram á að lögfesta það ástand, sem er, og þau kjör, sem þeir hafa nú. Ef brtt. hv. þm. V.-Húnv. þýðir það, að þessir menn eigi að láta af störfum 15. júní 1946, þá táknar það gerbreytingu á því fyrirkomulagi, sem nú er, en með frv. er ætlazt til, að það verði lögfest.

Hv. þm. V.-Sk. talar um, að hér sé verið að lögfesta 7 ný embætti. Þetta er alveg villandi. Í frv. er að vísu rætt um 7 embætti. En í viðskiptafræði eru þegar tveir kennarar fyrir hendi, og hefur annar starfað í þrjú ár, en hinn í tvö ár, og er ekki um nein ný útgjöld þar að ræða. Verkfræðideildin hefur starfað í 4 ár með mörgum föstum kennurum, og eins og kemur fram í grg., verða lögfest þrjú prófessorsembætti þar, þannig að um lítinn aukakostnað er að ræða. Það er því villandi, þegar talað er um, að hér sé verið að stofna ný embætti. Það er aðeins verið að lögfesta það, sem er og hefur verið í mörg ár.

Hins vegar er um að ræða tvö ný dósentsembætti í íslenzkri sögu og bókmenntasögu, og það er mál, sem þarf frekari umr. við. Við í menntmn. töldum svo góð rök fyrir nauðsyn þessa, að öllum mættu vera ljós, og ég ætla, að Alþ. vilji styðja að því, ekki sízt á þessu stofnári lýðveldisins, að efla íslenzk fræði í landinu. — Þetta vildi ég taka fram til að sýna, hve villandi það er að segja, að verið sé að stofna sjö ný embætti.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði með till. hv. þm. V.-Húnv. og er þá vitanlega ófús á að samþ. frv., eins og það er. Þetta kemur mér undarlega fyrir sjónir, þar sem hann átti sjálfur sæti í þeirri stj., sem kom á þessu skipulagi, og með hans samþykki var verkfræðideildin sett á stofn fyrir fjórum árum.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þetta og ætla ekki að blanda mér í þær deilur, sem orðið hafa. Ég vil að lokum taka fram, að verði samkomulag um að fresta þessari umr., þá hef ég ekkert á móti því.