05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Jónas Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. (KA) hefur tekið af mér ómak með því að vera líka frsm.till. minni hl., og er það nokkuð frumlegt hér á Alþ. Ég get vísað til þess, sem skýrt kom fram hjá honum. Hann játar, að staðið hafi villa í háskólalögunum frá 1936, þar sem deildir hans séu taldar 5, en eru 4. Í frv., eins og það er, stendur, að atvinnudeildin eigi að senda rektor á fundi í háskólanum. En það kom í ljós á fundi n., þegar við ræddum við prófessora heimspekideildar, að þetta hefur aldrei gerzt og samband atvinnud. og háskólans er í raun og veru ekki neitt. Það mætti eins innlima rannsóknarstofu Þórðar Þorbjarnarsonar í Fiskifélaginu í háskólann eins og atvinnudeildina. Ég óskaði, að þetta atriði kæmi undir atkv. hér í hv. d. til að vita, hvað heimskan og vanþekkingin næðu hér langt. Það er ekki hægt að láta þetta haldast í lögunum. En þó að það yrði kannske samþ., að deildirnar séu 6 í háskólanum, er það ekki ólíkt því, ef menn samþ., að jörðin sé flöt eins og pönnukaka. Veruleikinn breytist ekkert við slíkt. Þetta yrði aðeins vitleysa og lögbrot.

Frv. er heldur illa undirbúið af háskólaráði og n. Það var ætlunin að taka þar inn mann, sem ekki vildi vera prófessor, nema þá helzt í læknadeild. En þeim vitru mönnum, sem þarna voru í ráðum, þótti vanta einn á töluna í annarri deild og vildu hafa hann þar. Úr því þurfti að taka Trausta hálfgerðu traustataki, þá skil ég ekki, hví að því var farið á þann hátt, sem ljóst er af mótmælum hans og hv. alþm. hafa átt kost á að kynnast.

Hugsanagangur hv. frsm. meiri hl. virtist nokkuð kynlegur, þegar hann var að tala um nýja náttúrugripasafnið, þar ættu að koma stofur, þar ætti að kenna. En ég hygg, að þegar farið yrði að kenna náttúrufræði við háskólann, kæmi náttúrufræðideild af sjálfu sér.

Þá kem ég að verkfræðideildinni. Það er misskilningur hjá þessum hv. þm., að háskólaráð sé ekki fullráðið í öðru og meiru en að koma hér á fyrrihlutakennslu í verkfræði. Það er það. Og Nd. hefur gengið svo frá málinu, að ætlazt er til, að kennt sé til fullnaðarprófs í byggingarverkfræði. Hann virðist ímynda sér, að aðeins hafi verið talað um fyrri hluta. Það er játað, að alger klofningur er meðal verkfræðinga okkar um það, hvort fært sé að ráðast í það, sem frv. ráðgerir, hvort við séum ekki of fáir og smáir til þess og allt lendi í káki. Og það er ég hræddur um. En sé þetta reynt, verður að hafa það svo, að það sé frambærilegt. Nú skal ég segja hv. frsm. meiri hl. eitt, sem hann sennilega veit ekki. Talið er, að þörf sé á 2 stærðfræðikennurum a.m.k. Og þeir eru til, þeir Trausti Einarsson og Leifur Ásgeirsson. Þeir verða að sjálfsögðu prófessorar þarna, enda því aðeins fáanlegir, að þeir fái fastar stöður. Einnig fæst maður, sem æfður er við hafnargerðir, en þá vantar mann æfðan við vega- og brúagerð. Stofnunin hefur nýlega tapað tveim mönnum, sem þarna kenndu, Bolla Thoroddsen, sem varð bæjarverkfræðingur og kennir að vísu eitthvað enn, en hlýtur að hætta því, og forstöðumanni Sjóvátryggingarfél., sem kenndi þar mikið, en er nú hættur. Ég álít, að ekkert vit sé í að reyna ekki að tryggja deildinni mann, sem sé a.m.k. eins æfður í vegagerð og sá var, sem kennt hefur í þeirri grein. Nú er málið þannig komið, að ekki er sýnilegt, að menn fáist til að kenna eins mikið og þörf er á í hjáverkum, aðeins hægt að fylla þannig í smáskörð, og er þá nauðsynlegs að brtt. mín sé samþ., til að bæta úr skák. Ég vona, að hv. meðnm., sem segjast ætla að berjast á móti henni, fái heldur vitið við að bíða eftir 3. umr., og vil ég því taka brtt. mínar aftur þangað til, í þeirri von, að þeir kunni að greiða enn þá viturlegar atkv. við 3. umr. en nú.