13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

115. mál, laun háskólakennara Háskóla Íslands

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja umr. úr þessu, ég hugsa, að málið græði ekki á því. Hv. 6. þm. Reykv. talaði um, að þetta mál væri sótt með ofurkappi. Ég get ekki tekið það til mín, ég er frsm. meiri hl. n. og talaði lítið um málið í framsöguræðu, sem er af því, að ég taldi málið svo sjálfsagt mál og bjóst ekki við því, að það mundi sæta neinni mótspyrnu hér í hv. d. — Enn fremur talaði hv. þm. um það, að ég og hv. 1. þm. Reykv. hefðum brugðið þeim mönnum um fjandskap við háskólann, sem hefðu flutt brtt. við frv. Ég skal ekki fullyrða neitt um það, hvernig orð mín féllu, en það var ekki meining mín að saka neinn hv. þm. um fjandskap við háskólann.

Ég sé ekki ástæðu til að svara hv. þm. viðvíkjandi viðskiptaháskólanum, enda ekki kunnugur því máli. - Þó veit ég ekki annað en stúdentar úr verzlunarskólanum hafi rétt til að stunda þar nám.

Viðvíkjandi því, að ég hafi neytt hv. þm. til að ræða afstöðu Sigurðar Nordals til lýðveldisstofnunarinnar, þá er það ekki rétt. Ég benti einungis á, að ástæða væri til að efla norrænudeildina á stofnári lýðveldisins, en annars greindi okkur ekki á um það atriði.

Ég er reiðubúinn að vera með því að efla aðrar deildir háskólans og vænti, að þjóðin sjái sér fært að efla háskólann enn meir. Hann nefndi til náttúrufræði og lögfræði, sem jafnnauðsynlegt væri að efla og sögu og málfræði. Ég er þessu að miklu leyti samþykkur. En um lögin er það að segja, að þau eru einn þáttur úr sögu vorri til forna, og ég get fullkomlega fallizt á gildi starfa prófessors Ólafs Lárussonar. Annars kemur vart til mála að fara að metast um það, hvort hafi meira gildi, rannsóknir á íslenzkri sögu eða náttúru. Þó má benda á það, að sterkasti þátturinn og sá, sem Bretastjórn viðurkenndi einan nægilegan okkur til sjálfstæðis, var það, að við vorum bókmenntaþjóð. Þess vegna er það ekki að ástæðulausu, þegar minnzt er á gildi norrænudeildarinnar, sem er miðstöð bóklegra og þjóðlegra fræða. — Viðvíkjandi því, að verið sé hér með dýrkun á fornöldinni o.s.frv., þá er því til að svara, að Sigurður Nordal er sá maður, sem bezt hefur skýrt samhengið milli fornra og nýrra bókmennta og unnið að því, að fornöldin yrði ekki slitin úr sambandi við nútíð og miðaldir. Ég álít, að Íslendingar hafi aldrei hætt að vera bókmenntaþjóð og við eigum nú skáld og rithöfunda sambærilega við snillinga fornaldarinnar. Er og ánægjulegt til þess að vita, að við eigum menn, sem bera í sér arfleifð fornaldarinnar og munu bera hróður Íslands víða vegu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að þessa deild háskólans eigi að efla, og mér skal vera það ljúft að fylgja því fram, að aðrar deildir háskólans verði einnig efldar.

Hv. þm. vildi halda því fram, að þetta frv. væri flutt vegna þeirra manna, sem ættu að skipa þessi embætti, en ég lýsi því hér með yfir, að ég hef flutt þetta frv. í þeim tilgangi einum að efla norrænudeildina. Ég hygg að vísu, að norrænudeildin hafi beðið mikið tjón af því á umliðnum árum, að menn, sem þar hafa lokið námi, hafa ekki átt þess kost að starfa áfram við deildina, en það er þó alls ekki til þess að veita þessum mönnum starf, að ég styð þetta. Mér virtist þm. taka nokkuð djúpt í árinni, þegar hann var að tala um ofvöxt þessarar deildar með því að setja þar tvo menn. Mér virðist ekki geta verið um minna að ræða en einn mann í hvora aðalgreinina, sögu og bókmenntir.

Ég ætti ef til vill að víkja að því, sem hv. þm. sagði um háskólabókavörð. Ég fellst á það, að þeir, er hann taldi, hafi unnið þarft verk, en ég held, að það styrki fremur mitt mál en hans. Annars mun það svo um mörg þau atriði, er hér um ræðir, að þótt við kunnum lengi um þau að deila, þá yrðum við sammála, ef við töluðum saman.

Það er misskilningur, að ég vilji saka hv. þm. um óvináttu í garð háskólans. Ég veit, að hann vill honum vel, og við erum áreiðanlega sammála um það atriði, að háskólann beri að efla. En mér virðist einungis hann ekki meta norrænudeildina réttilega. Ég veit ekki til, að hér sé um neitt ofurkapp að ræða, en ég vona, að hv. d. samþ. frv. og láti það ekki fara aftur til Nd. Fleira mun það ekki vera, sem ég vildi taka fram. Menntmrh. mun væntanlega svara þeirri fyrirspurn, sem var beint til hans.