22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

190. mál, hafnarlög fyrir Ólafsfjörð

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ég skil ekki þennan mun, sem hv. þm. Barð. gerir á því að samþ. þetta frv. eins og það liggur fyrir eða gera breyt. á þeim hafnarl., sem nú gilda fyrir Ólafsfjörð. Þetta frv. er að langmestu leyti uppprentun á hafnarl., og það er aðeins vikið við orðum, þar sem það á við vegna þess, að Ólafsfjörður er nú orðinn bær, en er ekki lengur hreppur.

Mér er ómögulegt að skilja, að með því að samþ. þetta frv., sem má skoða eingöngu sem lagfæringu, sem leiðir af öðrum l., taki ríkið á sig nokkrar nýjar skuldbindingar fram yfir það, sem núverandi hafnarl. gera.

Ég lít að öðru leyti svipað á þetta mál og hv. þm. Barð. Ég álít, að með 1. gr. frv. hafi ríkið gefið fyrirheit um að leggja fram eina millj. kr. til hafnarinnar og að ábyrgjast hálfrar annarrar millj. kr. lán, en ég álít, að í þessu liggi alls ekki meira fyrirheit, en það verður að leggja undir samþ. Alþingis og ríkisstj. á sínum tíma, hvort meira verður veitt eða þetta látið nægja.

Hv. þm. segir, að sér hafi komið til hugar til að auka trygginguna fyrir höfnina og draga úr áhættu ríkissjóðs, þegar ábyrgð sýslunnar fellur niður, að hækka heimildina í 10. gr. 2. f. úr 1% í 6 % . Mér er ómögulegt að sjá annað en hv. þm. geti borið fram brtt. um þetta við það frv., sem hér liggur fyrir, eins og við þau hafnarl., sem nú gilda, það er meira að segja þægilegra, ef nokkru munar.

Hann minntist á, hvort það hefði ekki verið rétt skilið, að frv. um bæjarréttindi fyrir Ólafsfjörð hefði verið borið fram út af þessu máli, einmitt vegna neitunar, sýslun. Eyjafjarðarsýslu á ábyrgð fyrir höfnina. Ég ætla, að ég hafi tekið skýrt fram, þegar þetta mál var til umr. ekki alls fyrir löngu, að málið hefði verið borið fram vegna neitunar sýslufélagsins á ábyrgðinni, en hins vegar væri þó sjáanlegt, að ekki yrði nema stutt þangað til óskir kæmu fram um bæjarréttindi handa Ólafsfirði vegna þeirrar sérstöðu, sem staðurinn hefur atvinnulega og að ýmsu öðru leyti innan sýslufélags Eyjafjarðarsýslu, jafnvel þótt um ágreining út af ábyrgðinni hefði ekki verið að ræða. Ég get ómögulega séð, að það sé á neinn hátt réttara að fara þá leið að leiðrétta aðeins eitt atriði í núgildandi l., sem leiðir af skilnaði Ólafsfjarðar og Eyjafjarðarsýslu, en leiðrétta ekki l. að öðru leyti, því að eins og ég sagði áðan, þá hefur þetta frv. ekki nema þessa einu efnisbreyt. í för með sér, og allar aðrar breyt. frv. leiðir þar af. Þær eru aðeins orðabreyt., sem þarf að gera vegna þess, að þetta bæjarfélag er stofnað. Mér er því óskiljanlegt, ef hv. þm. Barð. getur ekki alveg eins vel fellt sig við frv., og vitanlega felur þetta frv. enga skuldbindingu í sér aðra en þá, sem nú stendur í hafnarl. Ég vona því, að hv. þm. taki þessa afstöðu sína til endurskoðunar, því að það er óhugsandi, að þessi formsatriði eigi að valda því, hvort málið nær fram að ganga eða ekki.