13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

161. mál, hafnarlög fyrir Neskaupstað

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Herra forseti. — Frv. þetta er flutt í Nd., og þar var það sent vitamálastjóra til umsagnar. Hann hefur mælt með frv. í Nd., að það yrði samþ. óbreytt.

Hér í Ed. var frv. vísað til sjútvn. Hún hefur athugað það og mælir með, að það verði samþ., en leggur þó til, að á því verði gerðar nokkrar breytingar. Frv. gerir ráð fyrir, að hækkuð verði fjárhæð sú, sem um ræðir í 1. og 2. gr., og stafar þessi hækkun af kostnaði vegna dráttarbrautar, og má telja, að þetta sé rétt þar, sem hagar til eins og í Nesi.

Þar er stærsti fiskifloti á Austurlandi, 20 fiskibátar 12 til 20 smálesta, 6 bátar 6 til 12 smálesta og 20 smærri vélbátar, svo kallaðar trillur. Auk þess eru þar fjögur skip 60 til 100 smálesta. Þar sem svo er ástatt, sést, að eitt mikilsverðasta skilyrðið til atvinnurekstrar á slíkum stað er, að þar sé dráttarbraut. N. hefur fallizt á, að þetta sé ekki aðeins skynsamleg, heldur og nauðsynleg framkvæmd. En af þessu leiðir, að fjárhæðin, sem ætluð var til hafnarbótanna, hækkar verulega.

N. telur rétt að taka upp í l. ákvæði, sem ekki hefur verið í þeim áður. Það er að heimila hafnarsjóði að leggja 1% á afla þeirra báta, sem heima eiga á staðnum. Þetta ákvæði er í velflestum hafnarl., en ekki þótti ástæða til setja það í hafnarl. Neskaupstaðar, þegar þau voru sett. En verzlun er sáralítil í Nesi, aðeins við tvo litla hreppa. Höfnin er því aðeins fiskihöfn, og er þess vegna nauðsynlegt að setja þessa heimild í l.

Vegna þess að hentugra þótti að taka 7. gr. alla, í stað þess að gera á henni breytingar, sem felldar yrðu inn í, hefur n. tekið það ráð að taka gr. fyrir í heild.

Þá hefur n. þótt ástæða til að gera brtt. við 18. gr. l., og er hún um að heimila að setja reglugerð um meðferð hafnarmannvirkja. Telur n. rétt, að inn í þessa gr. sé bætt reglum um notkun hafnarmannvirkja, og þótti rétt, að þetta yrði ákveðið með l., svo að það gæti ekki valdið ágreiningi síðar.

Annað þarf ekki að taka fram um þær breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv.

Eins og ég tók fram áður, leggur n. til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem fyrir liggja á þskj. 666.