22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

134. mál, bændaskóli

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Herra forseti. — Hv. frsm. meiri hl. n. hefur haldið hér geysilanga ræðu. Þetta mál stendur honum allnærri og er honum mikið áhugamál. Er því skiljanlegt, hvílíkt kapp hann leggur á það. Það er öðruvísi ástatt með mig. Mér er þetta ekkert sérstakt kappsmál, og þarf ég því ekki að flytja um það langa ræðu.

Ég segi í nál., að það sé fullkomið álitamál, hvað sé bezt eða heppilegast í þessu máli. Mér skilst, að um það sé deilt, hvort skólinn skuli settur að Skálholti eða að Sámsstöðum eða í nágrenni þeirra. Viðvíkjandi Skálholti hefur verið bent á, hve þar er viðáttumikið og fjölbreytt land, en aðallega hefur það hingað til verið notað til sauðfjárbeitar og hrossagöngu og dálítið til mjólkurframleiðslu. Jarðhitinn í Skálholti gæti verið skólanum gagnlegur, en þó mun hann vera um 3 km frá staðnum. Ef skólinn á að hafa full not þessa hita, verður að reisa hann ekki alllangt í burtu. Mun láta nærri, að hann verði þá 2 km frá hinum gamla Skálholtsstað. Þegar á það er litið, að ein aðalástæðan fyrir því, að skólinn skuli hafður í Skálholti, er sú, að sagt er, að á þann hátt verði uppfyllt krafan um að endurreisa Skálholtsstað, þá virðist auðsætt, að það verði ekki gert með því að setja skólann svo langt frá, svo að það atriði getur varla haft úrslitaáhrif á þetta mál. — Þá er það fram fært, að í Skálholti séu skilyrði til áveitu. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé rétt. Áherzla er lögð á það, að kennsla við bændaskólann eigi að miðast við búnaðarhætti á Suðurlandsundirlendinu. En það, sem fyrst og fremst er einkennandi fyrir búskap á Suðurlandsundirlendinu, eru hinar tvær stóráveitur í Árnes- og Rangárvallasýslum, og ég get ekki séð, að Skálholt hafi skilyrði til að standa í sambandi við þessar áveitur. Það, sem enn fremur er sérkennandi fyrir búskap á þessu svæði, er fullkomin grasrækt til mjólkurframleiðslu, svo og garðrækt og kornrækt. Garðrækt mætti sennilega hafa í sambandi við jarðhita, svo að í því tilliti er Skálholt heppilegur staður. Fyrir hinar greinarnar mun Skálholt og sæmilega fallið, en þó ekkert fremur en aðrir staðir. — Í Skálholti mun mega hafa um eitt þúsund sauðfjár og hundrað hesta. En það er ekki framtíðarbúskapurinn á Suðurlandsundirlendinu. Ég hef litið svo á, að Skálholt sé góður staður, en þó ekkert sjálfkjörinn fyrir búnaðarskóla, og því betri upplýsingar sem ég hef fengið, því betur hef ég sannfærzt um þetta.

Háttv. flm. bar fyrir sig skoðun tveggja merkra manna, búnaðarmálastjóra og Jóns á Reynistað, og þótt ég hafi ekki nokkra vantrú á þessum mönnum, þá held ég, að þeir séu ekki óskeikulir. Þeir miða við búskap eins og hann hefur verið, en ég miða við búskapinn eins og hann mun verða.

Ástæða hefði verið til að svara ýmsu fleiru úr ræðu háttv. frsm. meiri hlutans, en ég mun ekki gera það að svo stöddu, þar eð ég vil fyrst heyra álit hæstv. landbrh. á þessu máli. Þá er eitt atriði, sem ég vildi minnast á, áður en ég lýk máli mínu. Háttv. síðasti ræðumaður sagði, að fyrrverandi landbrh. hefði ákveðið skólanum stað út í hött. Þetta er ekki rétt. Ég vil því til sönnunar benda á umsögn Guðmundar á Stóra-Hofi, sem hér liggur fyrir. Ég skil ummæli hans þannig, að um skeið hafi verið rætt um Sámsstaði sem æskilegt skólasetur. Enn fremur mun það á tímabili ekki hafa verið ætlun Sunnlendinga að láta þingið ákveða, hvar skólinn ætti að standa. Háttv. frsm. telur, að ráðherra hafi verið bundinn af till. Búnaðarfélagsins. Ég álít, að ráðherra hafi ekki verið bundinn af þeim, enda þótt gott væri að hafa þær til að styðjast við. Ég hygg, að Alþ. geri réttast í því að ákveða skólanum ekki stað. Inn í þetta mál hefur slæðzt hreppapólitík, og ber ræða háttv. frsm. þess ljósan vott. Hann hefur lesið hér upp kafla og lagt út af þeim. Slíkt er gott til fróðleiks, en skoðun verður hver að skapa sér hér um. Hana hefur hæstv. frsm., og hana hef ég líka.

Mér virðist hv. síðasti ræðumaður vilja nota sér það, að ekki væru eins virðuleg nöfn í Fljótshlíðinni. Ég ætla þó, að við eigum ekki fegurri lýsingar annars staðar frá en úr Fljótshlíðinni, eftir Jónas Hallgrímsson, og nú mun það vera hugmyndin að gefa þeirri lýsingu raunhæfara form.

Á það hefur verið minnzt hér, að í Fljótshlíðinni væri ekki unnt að gefa eðlilega hugmynd um ræktun, vegna þess að þar væri svo frjótt. Ef þetta ætti að vera tilraunastöð, gæti slík mótbára komið til greina, en ekki í sambandi við búnaðarskóla. Mér er sagt, að nýlega hafi þessir menn fallizt á till. fyrrverandi atvmrh. um að hafa skólann í Fljótshlíðinni.

Minn dómur er þá sá, að ég tel það fullkomlega óvíst, að Skálholt sé heppilegasti staðurinn fyrir slíkan skóla. Þar með er ekki sagt, að þeir staðir aðrir, sem bent hefur verið á, séu hinir beztu. Þess vegna held ég, að Alþ. ætti ekki að taka neina ákvörðun hér um. Ýmislegt mun mæla með því, að Rangárvallasýsla fái þessa stofnun, því að hún hefur til þessa verið heldur afskipt í skólamálum.

Ég vil svo ekki orðlengja þetta fremur, en stend við mína till. um að vísa málinu frá með dagskrá. Ég vil gefa hv. frsm. þá skýringu, að þegar þetta frv. var flutt, þá gat þetta orðið til að hjálpa ráðherra til að taka sína ákvörðun, og þegar sú ákvörðun hefur verið tekin, þá hefur frv. náð tilgangi sínum.