08.01.1945
Neðri deild: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

233. mál, róðrartími fiskibáta

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur á öðrum fundinum, er sjútvn. hafði þetta til meðferðar, svo að ég er þessu ekki kunnugur og get ekki um það deilt, eins og aðrir nm.

Nú er það náttúrlega mesta vandræðamál, ef svo er, sem ég ekki efa, að það séu einhver afmörkuð svæði, sem hafa verið gerð bannsvæði frá sunnanverðum Faxaflóa. Er engin ástæða til annars en ætla, að hæstv. ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til að þessar takmarkanir verði engar eða sem allra minnstar. En ef til einhverra aðgerða þarf að koma, vegna þessara takmarkana eða bannsvæða innan fiskimiðanna, þá verður að treysta því, að hæstv. ríkisstj. ráðgist mjög vandlega um slfkar aðgerðir, áður en framkvæmdar verða eða lögskipaðar, við þá menn, sem eiga að sækja á þessi fiskimið, því að það er að sjálfsögðu mjög mikið vandræðamál að þurfa að setja þessar reglur.

Reglur um það, hvenær menn mega leggja af stað til sjóróðra og að bátar frá öllum veiðistöðvum séu komnir í sama mund á ákveðinn stað, hafa verið í gildi í ýmsum veiðistöðvum landsins fyrir óralöngu. Menn hafa því mjög mikla reynslu af slíkum reglum, sem ætíð þóttu mjög illar. Menn biðu eftir brottferðartímanum, merki, sem gefið var, þegar menn áttu að róa úr vör. Reynslan varð sú, að hásetarnir reru fáklæddir í ofurhug, þegar merkið var gefið, til þess að geta lagt lóðir sínar á beztu stöðunum, og margir formenn hafa sagt mér, að þeir hafi í mestu kappróðrunum drepið þol og þrek fjölda ungra manna, því að það voru ekki nema þeir hraustustu, sem stóðust hið ógurlega kapp, sem þessu var samfara. Eftir að vélbátarnir komu til sögunnar, varð hið sama upp á teningnum, því að menn sprengdu vélarnar í kapphlaupinu um að geta lagt lóðir sínar á beztu stöðunum.

Ég tel þetta fram til þess að vekja athygli á því, að svona aðgerðir, þótt nauðsynlegar kunni að vera, eru ekki gallalausar, og verður því að afla a.m.k. allra nauðsynlegustu upplýsinga í samráði við hina kunnugustu menn, áður en reglur eru settar um þetta efni.