16.02.1944
Neðri deild: 14. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. — Ég hef, eins og kunnugt er, gert grein fyrir skoðun minni í því nál., sem hér um ræðir. Eins og menn vita, gat n. ekki orðið sammála um frv.

Eins og kemur fram í nál., tel ég það breyt. til bóta, að Borgarfjörður eystri verði gerður að sérstöku læknishéraði með læknissetri í Bakkagerði. Hv. frsm. meiri hl. skýrði áðan frá því, hvernig Borgarfjörður væri í sveit settur. Þar hefur ástandið verið mjög slæmt í þessum efnum undanfarin ár, síðan læknir hætti að sitja þar. Þó hefur verið þar hjúkrunarkona, sem heita má að hafi verið læknir þorpsins, en nú er sú hjúkrunarkona komin til Reykjavíkur, svo að þar má heita alveg læknislaust. Enn fremur tel ég það breyt. til bóta, að læknir verði settur á Egilsstaði, því að þar mun rísa þorp í framtíðinni.

Sumt annað finnst mér skipta litlu máli í frv., eins og t.d. það, hvaða nöfn eru notuð um læknishéruðin eða hvort íbúar í Loðmundarfirði verði í heilbrigðisskýrslum taldir með Bakkagerði eða Seyðisfjarðarhéraði, því að fyrir Loðmundarfjörð hefur þessi löggjöf væntanlega ekki aðra breyt. í för með sér.

Þá tel ég það til baga í frv. að steypa öllu Fljótsdalshéraði í eitt læknisdæmi, þar sem tveir læknar voru áður, og á móti kemur það eitt, að læknishéraðið er sett miðsveitis og Borgarfjörður tekinn undan, sem er mjög fámennt hérað.

Þá er það Eyrarbakkahérað. Það eina, sem mælir með breyt. þeirri, er frv. fer fram á, er það, að Selfoss liggur miðsveitis í héraðinu og þeir hreppar, sem læknishéraðinu tilheyra, eiga hægara með að leita læknis þangað en að Eyrarbakka. En þegar þess er gætt, að í þorpunum Eyrarbakka og Stokkseyri búa um 1240 manns og fjarlægðin milli þeirra svo stutt (5–6 km), að þau mega teljast sem eitt þorp, þá nær það ekki nokkurri átt, enda ekki fordæmi til fyrir því, að læknir sé fluttur burtu úr svo fjölmennum kaupstöðum. Mér finnst eina rétta leiðin vera, eins og gert er ráð fyrir í brtt. minni á þskj. 49, að skipta núv. Eyrarbakkahéraði og stofna Selfosslæknishérað úr efri hluta þess. Þetta er með hinum fjölmennari læknishéruðum landsins, svo að mannfjöldi hvors hlutans um sig yrði líkur og í meðalhéruðum er. Ég hef athugað það, að meðalfjöldi í læknishéraði fyrir utan Reykjavík, Hafnarfjörð og Akureyri er 1470 manns. En í Reykjavík koma ekki 500 manns á lækni, eins og kunnugt er, og í Hafnarfirði og á Akureyri um 800. Þessi nýju héruð yrðu því ekkert of mannfá til þess að þola samanburð við önnur, og víðáttan er allmikil.

Mér er ljóst, að endurskoða þarf læknaskipunina yfirleitt. En vegna aðkallandi hluta eystra vil ég ekki leggja móti frv., heldur fylgja því ásamt brtt., er ég flyt.