05.01.1945
Neðri deild: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég á hér brtt. á þskj. 690, sem nokkuð er kunn hér í d. áður. Það eru tvær jarðir, sem ég vil, að bætt verði inn í frv. á þskj. 680, og er ætlunin sú, að þær verði einnig seldar. — Önnur jörðin, sú sem er undir staflið a, er eyðijörð, sem í nokkuð mörg ár hefur verið notuð frá ábúandanum á Hóli, og hefur hún verið í eyði líklega á þriðja hundrað ára. Á þessari jörð eru byggð beitarhús, og hefur þessi maður hugsað sér, — ef sonur hans, sem býr hjá honum, tekur ekki við Hóli, sem er kirkjujörð, eftir hans dag, — að skapa þessum syni sínum aðstöðu til þess að geta reist nýbýli við þessi beitarhús. Í þessu skyni er farið fram á að fá jörðina til kaups, og er ætlunin, að hún verði seld með því skilyrði, að á henni verði erfðaábúð.

Hin jörðin er Engjalækur í Hjaltastaðahreppi, og barst mér ekki fyrr en nú í hendur umsóknin frá eiganda jarðarinnar, sem notað hefur Engjalæk, um að fá hana keypta. Engjalækur er líka eyðijörð, en hefur sæmilegar engjar og hefur um margra ára skeið verið notuð frá Klúku. Klúka var seld í vor til tveggja bræðra, og þeir hugsa sér að skipta henni milli sin í tvær jarðir og byggja nýbýli á annarri hálflendunni. En til þess er jörðin Klúka ein sér heldur lítil, en hins vegar sæmilega vel til þess fallin, ef jörðin Engjalækur verður sameinuð henni. Það er nákvæmlega eins ástatt um þessa jörð og um eina jörðina í frv., sem sé eyðijörðina Gröf í Staðarsveit, sem ætlazt er til, að seljist með því skilyrði, að hún verði sameinuð jörðinni Ölkeldu í sömu sveit eða hluta af henni, ef jörðinni verður skipt.

Ég hef átt tal við landbn. Ed. út af því, að sumir menn álíta, að ef þessi brtt. verður samþ., muni það tefja fyrir framgangi málsins, en það er engin hætta á því, að málið þurfi að daga uppi, þótt það fari aftur til Ed., og annað er ekki hér um að ræða. — Ég vil því vænta þess, að menn sjái, að úr því að verið er að heimila sölu þjóðjarða, þá eiga þeir aðilar, sem hér óska eftir að fá þessar tvær þjóðjarðir keyptar, sama rétt og aðrir til þess, enda sæti þeir sömu kostum og þeir, sem sé, að eyðijörðin Steinbogi fari í erfðaábúð og að eyðijörðin Engjalækur leggist undir Klúku og verði partur af því nýbýli, sem þar rís upp, þegar Klúku verður skipt. — Hitt er svo annað mál, sem þm. er vel kunnugt, að ég er á móti sölu þjóðjarða og mun greiða atkv. móti frv., þó að till. mín verði samþ. En það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum.