05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Mér hafði raunar komið til hugar, að hæstv. ríkisstj. væri að einhverju leyti hlynnt þessu.

Ég er alveg sömu skoðunar og hv. þm. Barð., að eitt af því, sem beinlínis gæti orðið til leiðinda við svona frv., væri það, að stöðugt væri verið að hafa útboð og ýmsir menn leggja í það mikla vinnu, án þess að fá nokkurn pening fyrir. Það er nýlegt dæmi, að fyrir 2–3 dögum lauk verðlaunasamkeppni um teikningu að fyrirmyndar sveitabæ. Þrenn verðlaun voru veitt, 3000 kr., 2000 kr. og 1000 kr. Hver fékk svo 1. verðlaun? Það fékk þau maður, sem búinn er að vinna á teiknistofu landbúnaðarins í 3–4 ár og hefur ekkert annað gert en að teikna þessi hús. Ég veit ekki, hvort það var Búnaðarbankinn, sem veitti þessi verðlaun. En hann þurfti aðeins að leita í fórum sínum og koma svo með mann, sem reyndist kunna þetta miklu betur en nokkur hinna, sem reyndi að fást við það.

Þess vegna er það, að það, sem fæst með þessu frv., er ekki annað en möguleikar til að fá áframhald af sams konar úrræðum og höfð voru með sjómannaskólann. Það, sem tekizt hefur með því, er það, að byggt er upp hús í trássi við meiri hluta n., og aðeins sá maður, sem fékk þarna 2. verðlaun, fékk af þessu ávinning.

Ég er samþ. því, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál, en það var eitt, sem hann tók ekki nægilega undir gagnrýni. Hann sagði eins og rétt er, að þetta sé þýðingarlaust, en það er ekki eins saklaust og hann heldur, því að ef þessi mylla er sett af stað, þá getur hæstv. menntmrh., sem á að sjá um fjöldamargar opinberar byggingar, sem ríkið veitir fé til, sett fullkominn glundroða í öll byggingarmál landsins, og þá kemur að engum notum eftirlit ríkisins og öll sú þekking, sem það hefur aflað sér með því að hafa vissan hóp af hæfum mönnum starfandi að þessum málum í 25 ár. Á skrifstofu húsameistara eru menn eins og Einar Erlendsson og húsameistari sjálfur, sem hafa unnið að óteljandi byggingum og fengið margfalda reynslu í 25 ár, og það getur engum dottið í hug, sem eitthvað þekkir til þessara mála, að það eigi að fá einhverja menn utan úr bæ til að gefa þeim hugmyndir. Hæstv. stj. gæti kannske fengið þá ánægju að reka þessa menn, og það væri bezt fyrir þá, því að þeir gætu áreiðanlega tífaldað sín laun, ef þeir færu úr þjónustu ríkisins. Hitt er annað mál, hvort þjóðin græðir á að verðlauna vanþekkinguna á kostnað þekkingarinnar eins og hér á að gera.