28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

53. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að vekja athygli þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, á því, að það eru ekki fá hestamannafélög starfandi í landinu, sem nákvæmlega eins er ástatt um og hestamannafélögin Fák og Létti, og ef fara á að veita hestamannafélögum yfirleitt þetta leyfi, sem ég annars skal engan dóm á leggja, þá vil ég benda n. á að athuga hin hestamannafélögin, sem eru algerlega hliðstæð og reka starfsemi sína nákvæmlega eins og hestamannafélögin Fákur og Léttir og eiga því sama rétt til að reka veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og þessi tvö félög.