09.01.1945
Neðri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

53. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og kappróður

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Samkv. l. nr. 109 9. okt. 1941 var ákveðið, að dómsmrn. gæti veitt hestamannafélaginu Fáki leyfi til þess að hafa veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar og sömuleiðis sjómannadagsráðinu í sambandi við kappróðra. Mér er kunnugt um, að báðir þessir aðilar hafa notfært sér þá heimild, sem dómsmrh. veitti þeim til slíkrar veðmálastarfsemi, og hefur gefizt það vel.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er farið fram á, að dómsmrh. sé heimilt að veita hestamannafélaginu Létti á Akureyri sams konar heimild í sambandi við kappreiðar á Akureyri. Eins og segir í grg. frv., þá hefur hestamannafélagið Léttir látið gera ýmislegt, sem hefur kostað allmikið fé, t.d. skeiðvöll, og í raun réttri tvo skeiðvelli hefur félagið kostað. Það hefur látið gera reiðveg, hesthús o.s.frv. Félagið hefur árlega haldið tvennar kappreiðar í nágrenni Akureyrar og fjöldi hesta tekið þátt í þeim hlaupum og kappreiðarnar sóttar viðar að en úr Eyjafirði.

Allshn. hefur athugað frv. og mælir með því, að dómsmrh. verði heimilað að veita hestamannafélaginu Létti þessa heimild.

Það hefur komið hér fram í d. við 1. umr., að rétt væri að hafa heimildina almenna, þannig að hestamannafélögin yfirleitt mættu verða þessarar heimildar aðnjótandi, og kann það vel að vera. Allshn. hefur ekki athugað það mál sérstaklega, vegna þess að í l. frá 1941 er heimildin bundin við ákveðin nöfn, og þótti rétt að svo stöddu að breyta ekki frá því, heldur bæta þessum aðila við. Tel ég líka, að það geti verið vafasamt að hafa heimildina almenna, en skal þó ekki leggja neinn dóm á það núna. Hins vegar liggur ekki fyrir hv. Alþ. nein beiðni frá öðrum félögum, sem líkt stendur á um. Mæli ég því með, að frv. verði samþ. óbreytt.