28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2518)

119. mál, áburðarverksmiðja

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Eins og segir í áliti landbn. um þetta mál, leggur n. öll til, að forminu til, að málið nái fram að ganga. En með bráðabirgðaákvæðinu, sem meiri hl. n. ber fram, virðist mér hann taka nokkuð mikið aftur af því, sem hann er búinn að leggja til í nál. sjálfu, því að í raun réttri þýðir samþykkt brtt. það sama og að málinu séu vísað frá, því að Alþ. er þá búið að afsala sér algerlega í bili a. m. k. öllum umráðum um gang málsins. Það hefur lengi verið áhugamál manna, sem áhuga hafa haft fyrir landbúnaði, að koma hér upp verksmiðju til þess að framleiða tilbúinn áburð, og er margt, sem til þess ber. Menn hafa haft von um, að takast mætti að framleiða áburð ódýrari á þennan hátt en að flytja hann inn frá öðrum löndum; í öllu falli hefur mönnum virzt, að með þessari skipan væri öryggið meira, að ekki komi til skorts á þessari nauðsynlegu vöru, og nokkuð mikið væri gefandi fyrir það að geta haft þetta á eigin höndum. Auk þess hefur það verið mönnum áhugamál að auka atvinnugreinar landsmanna, sem byggjast á gæðum landsins, og hafa menn litið til þessa atvinnurekstrar sem þess iðnaðar, er vissa framtíð ætti að eiga fyrir höndum. Er hvort tveggja, að ræktun landsins og fjölbreytni í starfsháttum þjóðarinnar gerir mál þetta mjög þýðingarmikið og aðkallandi.

Undanfarin ár hafa verið gerðar ýmsar athuganir og rannsóknir í máli þessu, einkanlega á árunum milli 1930 og 1940. Árin 1934–1935 fór fram sérstök athugun á þessu máli. Sérfræðingur í þessari grein var fenginn til þess að ferðast hér um og gera áætlanir um stofnun og rekstur verksmiðju, sem framleiddi kalísaltpétur. Áætlanir hans sýndu, að jafnvel framleiðsla kalísaltpéturs mundi geta borið sig, þannig að hægt væri að framleiða hann eins ódýrt og hann var þá seldur á heimsmarkaðinum. Þó voru sérstakir annmarkar við framleiðsluaðferðina, með því að þá þurfti að binda köfnunarefnið við kalk, og auk þess þurfti nokkuð af kísil til framleiðslunnar, sem nokkuð örðugt er að afla hér, en við athugun reyndist þó unnt að ná hér í nægilegan kísil. Kalk mátti fá úr kalknámum við Vestfirði, svo að unnt virtist að framleiða hér kalísaltpétur samkeppnisfæran við innfluttan áburð.

Frv. um áburðarverksmiðju, byggt á þessu áliti og þessum rökum, flutti ég ásamt meiri hl. landbn. á árunum 1936 og 1937, og náði það í hvorugt skiptið fram að ganga, meðfram vegna fjárhagsörðugleika. Nú hefur málið verið tekið upp á nýjum grundvelli og hingað verið fenginn sérfræðingur frá firma í Bandaríkjunum, sem hefur mikla reynslu í stofnun og rekstri áburðarverksmiðja eins og þeirrar, sem hér er fyrirhuguð. Verkfræðingur þessi, Rosenbloom að nafni, hefur ferðazt hér um og kynnt sér staðhætti og kringumstæður. Umsögn sína hefur hann sent hæstv. ríkisstj., en útdráttur úr þessu áliti fylgir frv. um áburðarverksmiðjuna. En þar sem þetta er aðeins útdráttur, er málið ekki eins ljóst og vera þyrfti. Sú aðferð, sem hér er hugsuð til áburðarframleiðslu, er frábrugðin þeirri, sem nú er notuð, að því leyti, að nú þarf ekkert til framleiðslunnar annað en næga raforku og vatn; á þann hátt er hægt að binda allt, sem vera skal af köfnunarefni loftsins í þetta samanþjappaða form, sem notað er til að auka moldina af köfnunarefni. Mér þykir rétt að geta þess í sambandi við það, að þegar talað er um innlenda áburðarframleiðslu, að ekki sé komið auga á annað en framleiðslu köfnunarefnis, þá er það vegna þess að ekki er ástæða til að framleiða aðrar áburðarblöndur, svo sem kalí, fosfór o. fl., en hins vegar er okkur mjög mikils virði að geta aflað okkur sjálfir köfnunarefnis, þar sem það er þýðingarmesti og dýrasti áburðurinn, og jafnframt er það mjög mikils virði, að við þurfum ekki að vera upp á aðrar þjóðir komnir hvað hann snertir, þótt við kaupum hinar ódýrari tegundir áburðar erlendis frá.

Nú hefur því verið haldið fram af hv. frsm. landbn., að mjög hæpið sé, að unnt verði að láta rekstur slíkrar verksmiðju bera sig hér á landi, eða að framleiðsla hennar verði samkeppnisfær við áburðarframleiðslu annarra þjóða. Ég skal viðurkenna, að í þeirri grg., sem frv. fylgir, liggur það ekki svo ljóst fyrir, að af því einu sé hægt að dæma um þessi tvö atriði. En með því að bera það verðlag, sem reiknað hefur verið út að verði á þessari framleiðslu, þannig að hún beri sig, saman við verð á köfnunarefnisáburði, sem seldur var hér s.l. vor á kr. 3.00 kg., en samkv. áætlun Rosenblooms telur hann, að hægt verði að framleiða þennan áburð fyrir 2 kr. kg., sést þá, að á þessu er geysimikill munur. Að vísu er verð á áburði, eins og á öðrum vörum, töluvert hærra nú en fyrir stríð, eða hefur hækkað frá 1 kr. upp í kr. 1,50, sem er þó ekki eins mikil hækkun og á flestum öðrum vörum. Auk þess má benda á það, að áætlun Rosenblooms er reiknuð með miklu hærra rafmagnsverði en því, sem Árni Pálsson verkfræðingur ráðgerir, að unnt verði að nota til framleiðslu með stækkun Laxárvirkjunarinnar, og nemur þessi mismunur út af fyrir sig 10% af verði áburðarframleiðslunnar, samkv. áætlun Rosenblooms, og kemur þetta til af því, að hér um bil helmingur framleiðslukostnaðarins er rafmagn, og virðist því, eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja, að þetta fyrirtæki sé mjög álitlegt, og sé ég heldur ekki, hvernig annað mætti vera. Ég veit ekki, hvernig Íslendingar ættu að vera samkeppnisfærir við aðrar þjóðir á nokkrum sviðum, ef við getum ekki staðizt samkeppni um vöru, sem við þurfum ekki annað að leggja til en rafmagn, sem við höfum gnægð af og ættum að geta framleitt ódýrt, vatn og köfnunarefni loftsins, sem að sjálfsögðu er gnægð af og auk þess kostar okkur ekkert. — Ég veit ekki, hvernig við Íslendingar ætlum að hugsa okkur stórkostlega nýskipun á atvinnulífi þjóðarinnar, ef það kemur upp úr kafinu, að við verðum ekki samkeppnisfærir um vöru eins og þessa.

Eins og ég sagði áðan, er þessi köfnunarefnisáburður miklu samanþjappaðri en aðrar tegundir köfnunarefnisáburðar, en þetta hefur þann kost í för með sér, að allur flutningskostnaður verður að sama skapi miklu minni.

Í grg., sem frv. fylgir og er ýtarleg á ýmsum sviðum, er t. d. umsögn Björns Jóhannessonar, er stundar efnafræði við ameríska háskóla. Hann segir þar m. a.:

„Þar sem ekki þarf að flytja inn önnur hráefni en poka og ef til vill eitthvað af efnum til að hindra samruna áburðarins, þá virðist tilveruréttur verksmiðju sem þessarar hafa óvenjulega heilbrigðan grundvöll frá hagfræðilegu sjónarmiði.“

Ég held því, að þó við höfum ekki gögn til þess að fara ýtarlega út í reikninga sérfræðinga um þetta mál, þá höfum við ekki heldur aðstæður til að gangrýna, en getum nokkurn veginn slegið því föstu út frá almennri skynsemi, að fyrirtæki sem þetta ætti að vera samkeppnisfært við önnur fyrirtæki erlendis og eiga sér fullkominn tilverurétt, svo framarlega sem við Íslendingar gefum ekki alla nýskipun upp á bátinn. Mér þykir því leitt, að hv. frsm. meiri hl. landbn. gat ekki gengið að þessu máli þannig, að það yrði afgr. frá þinginu og kosinn yrði framkvæmdastjóri til þess að undirbúa málið. Ég sé ekki, að eftir neinu sé að bíða eða nein vissa sé fyrir því, að fundin verði n., sem hafi meiri kunnáttu til þess að undirbúa málið og segja álit sitt en þeir sérfræðingar, sem um málið hafa fjallað. Ég tel sjálfsagt, að sá framkvæmdastjóri, sem samkv. l. ætti að kjósa, færi strax að vinna til framgangs þessa mál. Nægar hömlur eru í frv., ef framkvæmdastjórnin ætlaði að flana út í einhverja vitleysu, því að ekki er hægt að fara út í neinar framkvæmdir, nema hv. Alþ. veiti fé til þess, og auk þess hefur hæstv. landbrh. það mikið um þetta mál að segja, að vænta mætti, að nægilegur og öruggur undirbúningur yrði hafinn af framkvæmdastjórninni, áður en hún byrjaði á framkvæmdum: En ég óttast það, ef framkvæmdastjóri fyrir verksmiðjuna verður ekki kosinn nú þegar, sem fer að vinna að framgangi hennar, geti svo farið, að málið tefjist um ófyrirsjáanlegan tíma, og hvað snertir þetta bráðabirgðaákvæði í brtt. á þskj. 549, get ég líkt því við það að vísa málinu til ríkisstj. Ég álít, að málið verði engu nær, ef bráðabirgðaákvæðið verður samþ., og legg því til, að hv. d. fylgi okkur í því að fella bráðabirgðaákvæðið í brtt. meiri hl., en að öðru leyti stendur n. saman um brtt. Í brtt. á þskj. 549 segir í 2. lið:

„Fyrsta stjórn verksmiðjunnar ákveður, hvar hún skuli reist, enda komi samþykki landbúnaðarráðherra til.“

Þótt þessi brtt. sé ekki alveg í samræmi við grg. frv., höfum við hv. 2. þm. Skagf. (JS) tjáð okkur samþykka þessari till. og munum greiða henni atkv., hvernig sem fer um hinar.