17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2648)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. — Það verða ekki langar aths. hjá mér við þær ræður, sem við höfum nú heyrt. Við getum allir tekið undir það, að þörfin á aukinni húsmæðrafræðslu er mikil. N. ætlar alls ekki að bregða fæti fyrir nýja húsmæðraskóla, þótt þeir hafi ekki verið teknir upp í þetta frv. Afstaða n. markaðist hins vegar af þeirri meginstefnu, sem þingið hefur fylgt í þessum málum undanfarin ár. Mþn. í skólamálum hefur setið að störfum, og munu till. hennar koma fyrir næsta Alþ., ef ekki þetta. Föst venja hefur verið að vísa slíkum málum til hennar, nema mjög stæði sérstaklega á, og samþ. engar víðtækar breyt. fyrr en álit hennar væri til komið. Um skólann á Akri gegndi sérstöku máli, og virtust n. ástæður þar svo knýjandi, að það mál ætti að samþ. nú þegar, en í héraðinu er beðið eftir því með óþreyju. Um hina skólana er vitað, og það kom fram hjá hv. 10. landsk., að það hefur engin veruleg áhrif á framkvæmdir, hvort brtt. verða samþ. eða frestað úrskurði um þær till., unz álit mþn. kemur.

Hjá hv. þm. Snæf. kom fram, að bið mundi verða á framkvæmdum á Helgafelli, þótt þar yrði ákveðinn skólastaður. Ég er því sömu skoðunar enn og ég lýsti í fyrri ræðu minni. En ef þeirri stefnu skal fram fylgt, að sami aðili, sem hindrað hefur stofnun menntaskóla í sveit vegna þess, að bíða yrði álits mþn., og tekizt að tefja umbætur á gagnfræðaskólum, vill nú knýja þessar till. fram af miklu kappi, er ekki fyrir það séð, nema fram kunni að koma brtt. um nýja skóla, m. a. fyrir þær sýslur, sem enga framhaldsskóla hafa, eins og búið er að benda á. Í málinu er um tvær stefnur að velja.