04.12.1944
Neðri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2683)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Ég vil gera fyrirspurn til menntmn. um, hvað henni þóknast að segja um brtt. þær, sem fyrir liggja og um hefur verið rætt. Hún lét bæði vel og illa að þeim við 2. umr. og fékk þar komið til vegar, að þær voru teknar aftur til 3. umr., svo að hún gæti athugað þær og sagt álit sitt, sem enn var ekki komið nema á slitringi. Hvað vill nefndin? Leggur hún ekki til, að brtt. verði samþ? Þá mundi frv. fá hér hina æskilegustu afgreiðslu.