06.03.1944
Efri deild: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Mér er tjáð, að fyrir dyrum standi fundur í Sþ., en ég vil aðeins segja nokkur orð, áður en þessum fundi er frestað.

Hv. 6. þm. Reykv. lýsti eftir því, hvort ég væri staddur hér til að heyra mál hans. Ég sat þá hér og hef setið síðan, og það er ekki nema von, að hv. þm. æskti þess, að heilbrmrh. væri viðstaddur og heyrði þennan vitnisburð, sem hann gaf landlækni, fyrstu stoð og styttu heilbrmrh., hvern mann hann hefur að geyma og hver embættismaður hann er. Ég verð að segja, að ég þekki ekki takmarkanir fyrir því, hvað þm. geta leyft sér að óvirða fjarverandi mann, jafnvel þó að um embættismann sé að ræða — og það einn af þeim beztu. Hv. 3. landsk. tók af mér ómakið að ræða það frekar. En annars tel ég það embættisskyldu mína að beina því til landlæknis að fá ræðu hv. 6. þm. Reykv. skrifaða sem fyrst, svo að hann geti kynnt sér hana og svarað utan þings. Hv. 6. þm. Reykv. hefur skotið sér hér undir skjöld þinghelginnar, og skal útrætt látið um það.

Út af nál., sem hér liggur fyrir, verð ég að segja, að til að bjarga því, sem bjargað verður, eigi að taka til greina till., sem hv. minni hl. hefur lagt fram, því að ef hitt yrði ofan á, yrði vart hægt að fóta sig eða nema staðar í málinu. Hér er hægt að sýna fram á með örstuttum dæmum, hvað af því leiðir, ef einstakir þm. fara að bera fram till. um gagngerðar breyt. — Það var hv. þm. Snæf., sem bar upp till. um að stofna læknishérað úr fimm hreppum. Svo þegar landlæknir hafði athugað þetta og hv. þm. fengið umsögn hans, sannfærðist hann um, að rétt væri að hafa hreppana ekki nema þrjá, en því mótmæltu hrepparnir, og þarf ekki annað en vísa til oddvitafundar í Snæfellsneshéraði sl. sumar. — Hitt er um Grindavík. Þegar till. var borin fram fyrst, var ætlazt til að hafa hreppana fjóra, en svo sættist hv. flm. á að hafa þá aðeins þrjá, og þannig kemur það til hv. Ed. En þá leggur meiri hl. til, að hreppurinn sé aðeins einn. Hvernig yrði, ef læknaskipunin færi eftir því, hvernig hver þm. mælti með frv. eftir sínu höfði og það yrði leitt til lykta eftir því?

Þetta mál þarf að taka til gaumgæfilegrar athugunar. Ég felli mig við, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., þó þannig, að meginmál 2. gr. haldist og skipuð sé sérstök n. til að athuga málið fyrir næsta haust.