12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. — Þetta frv. um breyt. á jarðræktarl. er samið af mþn. Búnaðarþings, og hafa þrír alþm., sem eru í þeirri n., flutt það hér inn í þingið. Það er kunnugt, að síðan jarðræktarl. voru samþ. árið 1923, hefur verið meira ræktað í landinu en á mörgum öldum áður, þó tiltölulega mest á því fyrra tímabili jarðræktarl., frá 1923 til 1936. Vafalaust hefði orðið miklu meira um framkvæmdir á þessu sviði síðan 1936, ef jarðræktarl. hefðu ekki tekið þeim breyt., sem á þeim voru gerðar. En út í það skal ekki að svo komnu máli farið.

Landbn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, hefur yfirfarið það og ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þess. Aðalatriði þessa frv. er það að hækka jarðræktarstyrkinn um 100% í viðbót við vísitölu hjá þeim bændum í landinu, sem ekki hafa nú þegar 600 hesta vélfært land. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að breyta til frá því, sem verið hefur, með eftirlit eða annað í sambandi við framkvæmd þessara l. En sannleikurinn er sá, að það hefur verið um það rætt og ritað, og ég hygg þar séu mjög mikil rök á bak við, að framkvæmd á þessum málum hafi ekki verið eins góð sem skyldi, vegna þess að mjög mikið af þeim löndum, sem hefur verið borgaður styrkur út á, sé ekki að fullu kominn í rækt.

Nú er það svo, að meiri hl. landbn. hefur fallizt á að gerbreyta þessu frv. í það horf, að í stað þess að hækka jarðræktarstyrkinn, eins og ráð er fyrir gert í frv., sé ákveðið með vissu skilyrði, sem menn hafa sjálfsagt veitt athygli í okkar brtt., að ríkissjóður kosti framræslu og vinnslu þeirra landa, sem um er að ræða, eða hjá þeim bændum í landinu, sem ekki geta í meðalári og með sæmilegri ræktun fengið 600 heyhesta af þeim löndum, sem þegar eru vélfær og nái því takmarki, sem ráð er fyrir gert í bráðabirgðaákvæðum jarðræktarlaganna, sem er um að fullslétta öll tún á landinu. Með þessum hætti álítum við í meiri hl. landbn., að verði á einna áhrifamestan hátt náð því takmarki, sem hér er að stefnt, og að framkvæmdirnar muni verða öruggari en ella mundi. Það er nú kunnugt mál og mjög um það rætt á undanförnum árum, ekki einasta í sveitum landsins, heldur og víða annars staðar, hér á Alþ., í blöðum og víðs vegar í hinum fjölbyggðu kaupstöðum, að það, sem okkur vantar varðandi landbúnaðinn, sé það að koma honum í nýtízku horf. Ýmislegt, sem um það er sagt, er náttúrlega blandað misskilningi. En aðalatriðið, sem um er rætt, er rétt, að við getum ekki búizt við, að það geti gengið miklu lengur en orðið er, að landbúnaðarmenn verði að byggja á þýfðu landi, þar sem handverkfærum einum má við koma. En þegar menn eru í þessu sambandi að bera saman aðstöðu sjávarútvegsins og landbúnaðarins, þá er ákaflega ólíku saman að jafna. Eins og kunnugt er, er hafið alls staðar hið sama. Og það er hægt að beita á það bæði opnum bátum, vélbátum og stórum skipum án þess að það þurfi nokkurra breytinga við. En það er almennt ekki hægt að nota vélarkraft við landbúnaðinn nema fyrst sé sléttað landið. Og þar er um svo mikið verk og dýrt að ræða, að ekki er við því að búast, að það komist í framkvæmd á stuttum tíma eða án þess að mjög mikill opinber stuðningur komi til. Aðstaða þeirra bænda — sem eru vafalaust í meiri hl. enn á okkar landi, — sem verða að heyja á þýfðu landi með handverkfærum, er alls ekki sambærileg við það, sem gerist hjá hinum, sem geta beitt vélakraftinum sér til hjálpar. Við skyldum nú segja, að málið væri komið í það horf, að hver bóndi hefði 600 hesta vélfært land ræktað. Til þess þarf nálega 12 ha. í góðu túni. Undir þeim kringumstæðum er heyskapurinn ákaflega létt verk og þægilegt, borið saman við það, sem nú gerist. En það er þetta takmark, sem nauðsynlegt er að ná. Og því verður ekki náð á annan hátt en þann, að gert sé stórt átak og með opinberum stuðningi.

Við þetta sjónarmið eru miðaðar brtt. okkar í meiri hl. landbn. Er og miðað við það, að beitt sé í þessu skyni öllum þeim fullkomnustu vélum, sem völ er á, til þess að ná þessu takmarki. Sá stóri kostur er að okkar áliti við þessa brtt., að með samþykkt hennar er ekki hægt að komast hjá því undir neinum kringumstæðum, að rannsökuð verði ræktunaraðstaðan á hverri einustu jörð á landinu. Það verður að rannsaka, hve margar jarðir hafa vélfært land, hvort því hefur verið haldið í fullri ræktun, hvað eru margar jarðir, sem geta náð þessu takmarki með því að slétta túnin og koma bæði því, sem nú er vélfært, og því, sem verður það fyrir nýjar framkvæmdir í sléttun, í fullræktað horf. Enn fremur verður að rannsaka, hvað margar jarðir koma til greina gagnvart þessu, miðað við þau skilyrði, sem sett eru fram í okkar brtt., því að náttúrlega verða það margar, sem ganga undan, hafa ekki ræktunarskilyrði í samræmi við það, sem hér er ætlazt til, og hafa ekki önnur framleiðsluskilyrði í samræmi við 600 hesta ræktað land. Hin óhjákvæmilega þörf á rannsókn á þessum aðstæðum knýr um leið til þess, að föstu skipulagi verði komið á þá vélavinnu, sem ríkið leggur fram.

Í raun og veru er það því svo, að þessar brtt., sem meiri hl. landbn. flytur, eru allar í samræmi við þá stefnu, sem ríkisstj. hefur tekið í okkar atvinnumálum. Brtt. er í samræmi við það að koma okkar atvinnuvegum í fullkomið nýtízku horf, svo fljótt sem því verður við komið. Og með þeirri aðferð, sem gert er hér ráð fyrir, verður ekki komizt hjá því, að á þessu verði gerð föst skipun.

Nú munu menn vafalaust segja, að þetta verði svo dýrt, að þjóðinni sé um megn að framkvæma það á stuttum tíma. Ekki er því að leyna, að jafnmikið átak og hér er ætlazt til í jarðræktarmálum okkar lands kosti nokkra tugi milljóna, a. m. k. ekki minna en 30–40 milljónir, svo að ekki sé mjög hátt farið. En það er líka mjög mikið fjárframlag, sem ætlazt er til, að bændur leggi fram, þó að þessi till. verði samþykkt. Til þess að koma sinni atvinnugrein í nýtízku horf verða þeir fyrst og fremst að kosta girðingu um þau lönd, sem um ræðir, leggja til þann áburð og hirðingu, sem nauðsynleg er, til þess að landið komist í ræktun. Þar að auki er það svo, að um leið og sú breyt. yrði á búskap hlutaðeigandi manna, verða þeir að kaupa allar þær vinnuvélar og annað, sem nauðsynlegt er til þess að hafa fullkomin not af hinu ræktaða landi. Þetta er áreiðanlega það mikið framlag, að menn þurfa ekki að láta sér svo mjög blöskra, þótt lagt sé til, að þessi leið sé farin, sem áreiðanlega verður betri til að ná því marki, að framkvæmdir þessar verði gerðar og verði vel gerðar, komi að því gagni, sem er ætlazt til, heldur en hin leiðin að styrkja bara og styrkja og láta svo allt velta áfram á sama hátt og verið hefur. Því er ekki að neita, að sú mikla hækkun á styrk, sem hér er farið fram á, mundi verka í þá átt að auka jarðræktina. En eigi að síður er ekki þar með fengin vissa fyrir því, að þannig sé hægt að koma þessu máli í það horf, sem nauðsyn ber til. Meðal annars er þess að geta, að framkvæmd vinnu með stórvirkum jarðræktarvélum verður aldrei í lagi og aldrei svo ódýr sem annars getur verið, ef haldið verður áfram á þeirri leið, sem farin hefur verið mjög að undanförnu, þar sem vélavinna hefur annars verið stunduð, að vinna tiltölulega litla bletti á mörgum heimilum og flytja vélarnar á milli. Með þeim hætti verður vinnan miklu dýrari en ef þessu er komið í fast kerfi, þannig að það er gengið frá því, sem þarf að vinna á hverju heimili, í einu lagi. Þannig er ætlazt til, að gert verði samkv. till. okkar.

Viðvíkjandi þeirri takmörkun, sem kemur á það, hvaða jarðir koma til greina og hverjar ekki, mundi hún verða með þeim eðlilega hætti að ákveðast samkv. áliti þeirra manna, sem kunnugastir eru í hverri sveit, því að það er tilskilið, að hvert búnaðarhérað eða samþykktarhérað verði að taka á því ábyrgð fyrir fram, að landið, sem hér er ætlazt til að vinna, sé komið í fulla rækt innan ákveðins tíma. Og ef það verður ekki gert af hlutaðeigandi manni, verði Búnaðarfélagið að annast það eða að öðrum kosti að borga til baka þann kostnað, sem ríkið hefur lagt fram við vélavinnu á því landi.

Ég skal ekki fara út í neinar bollaleggingar um kostnaðaráætlun í þessu sambandi, því að slíkt mundi verða að mjög miklu leyti út í bláinn. Það fer svo ákaflega mikið eftir því, hvað athugun leiðir í ljós um það, hve margar jarðir koma til greina í þessu sambandi og hvað mikið land þarf að rækta á hverjum stað.

Nú er það svo, að þó að það séu ekki nema þrír menn í landbn. þessari till. fylgjandi, þá hefur hvorugur hinna tekið fasta afstöðu. Annar þeirra, hv. 5. landsk., vill fresta málinu, annaðhvort vísa því til ríkisstj. eða bíða eftir frekari athugun áður en það er samþykkt. Fimmti maðurinn, sem er flm. og formaður n., vill samþ. frv. eins og það liggur fyrir eða lítið sem ekkert breytt, en tekur það þó fram, að hann sé fáanlegur til að breyta eitthvað frá þeirri afstöðu, ef það sannast, að eitthvað annað en frv. sjálft sé líklegra til að ná samþykki hér á þingi.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um brtt. meiri hl. n., en víkja að síðustu nokkuð að því, sem er viðaukatill. frá mér sjálfum, en ekki hefur náðst samkomulag um í landbn., en það er þessi nýja grein, sem ætlazt er til, að komi í staðinn fyrir hina gömlu og margumþrættu 17. gr., sem skal falla niður. Um þetta hefur ekki náðst samkomulag. Skal ég ekki fara mörgum orðum um þá þrætu, vegna þess hve það er áður þaulrætt mál. Við, sem erum andvígir ákvæðum hennar, teljum með engu móti sanngjarnt að setja hömlur á fasteignir sveitamanna, þegar það er ekki gert með neinar aðrar fasteignir í landinu. Og þó að það væru settar einhverjar hömlur á eignarrétt manna á þessu sviði, þá er það víst, að þessi aðferð, sem í 17. grein er beitt og margir hafa kallað jarðránsgreinina, er ákaflega óheppileg og verkar meir til að koma illu blóði í þá, sem hlut eiga að máli, heldur en að verða þeim að gagni.

Ég skal að sinni láta þessi orð nægja til að mæla með þeirri afgreiðslu, sem meiri hl. landbn. vill hafa á þessu máli.