13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2762)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jón Pálmason):

Mér þykir það leiðinlegt, að hv. þm. Borgf. skuli snúast gegn brtt. þeim, sem við höfum flutt, eftir að hv. þm. Mýr. hefur lýst yfir, að hann fallist á brtt. Og varðandi hv. S. landsk., sem tók ekki afstöðu, er það að segja, að hann beið þess að fá frekari vitneskju um afstöðu ríkisstj.

Ég vil ekki endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu, þótt sumir hv. þm. hafi víst ekki heyrt það, enda er hæstv. fjmrh. búinn að taka af mér mesta ómakið að svara. Ég vil þó taka fram tvö atriði.

Framkvæmdum verður ekki hagað einvörðungu á þennan hátt eða hinn, heldur framkvæmt af þeim aðila, sem hentar á hverjum stað. Þegar farið er að vinna með stórvirkum tækjum á einhverjum stað, er ekki hægt að hlaupa þaðan eftir geðþótta einstakra aðila. Þá yrðu ferðatafir hálfur tíminn, og dæmi sýna, hve óhæft það lag er. Vinna verður sem mest á hverjum stað, þótt það kosti það, að ekki má fara eingöngu eftir óskum þeirra, er að ræktuninni standa á hverjum stað.

Þá er hitt atriðið, það er ábyrgð búnaðarfélaga og ræktunarfélaga. Það hefur verið höfuðgalli íslenzkrar jarðræktar, að mjög mikið af þeim löndum, sem unnin hafa verið, hefur aldrei komizt nema í hálfa rækt, ekki verið fullræst, ekkí fengið nægan áburð og ekki verið nógu vel unnið, — gefur þess vegna ekki af sér nema rúman helming þess, sem vera ætti. Það er meira en málamyndaábyrgð, sem hér er stefnt að, aðeins um það að velja að bæta um ræktunina eða endurgreiða kostnaðinn.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. V-Húnv. (SkG) er það að segja, að það er fast skilyrði, að búið sé að gera ræktunarsamþykktir áður en framkvæmdir hefjast. Þá má yfirleitt gera ráð fyrir, að það yrði samþykktaratriði að ráðast, í framkvæmdirnar og þyrfti því ekki frumkvæði ríkisins til. En í nokkrum tilfellum getur verið gott að hafa það opið, að ríkið megi taka þetta frumkvæði og annast f ramkvæmdirnar á þeim grundvelli að öllu leyti sjálft. Framræslu og vinnslu greiðir ríkið eins og kostnaður verður, en um framkvæmd þeirra ákvæða verður tíltekið nánar í reglugerð.