23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (2814)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð. Mér þykir mjög miður farið, að meiri hl. hv. n. skuli ekki hafa getað fallizt á að mæla með samþ. frv. með þeim breytingum, sem n. kynni að hafa talið nauðsynlegt, að gerðar yrðu á því. Frv. þetta er búið að vera lengi á döfinni. Það stendur hér í nál. frá hv. meiri hl., að það líti út fyrir, að undirbúningi málsins sé mjög ábótavant. Ég veit ekki, hverju sætir, að slík fullyrðin skuli koma frá hv. meiri hl. Ég hygg þetta frv. sé mjög vel undirbúið og það séu fá frv., sem liggi fyrir þinginu, sem fengið hafi eins rækilegan undirbúning. Þetta frv. lá fyrir síðasta þingi og var þá borið fram sem stjórnarfrv. Það var samið af n., sem í voru Gissur Bergsteinsson hæstaréttardómari, dr. Símon Jóh. Ágústsson uppeldisfræðingur og Vilmundur Jónsson landlæknir. Þeir sömdu frv. upprunalega, eins og það var lagt fram á síðasta þingi. Og eru þeir engir viðvaningar, hvorki hvað snertir kunnugleika á þessu máli né í lagasmíði.

Síðan l. voru sett 1943, hefur fengizt mikil reynsla. Síðan barnaverndarl. voru sett árið 1932, hefur fengizt mikil reynsla í þessum efnum, og er dr. Símon t. d. nákunnugur þessari reynslu. Við þessa meira en 10 ára reynslu hefur því verið stuðzt við samningu þessa frv. og enn fremur við erlend l. um þessi efni, sem n. hefur viðað að sér og lagt mikla vinnu í að athuga.

Ég skal ekki fara langt út í að rekja efni þessara frv., en læt mér nægja að nefna nokkrar helztu breyt. frá núgildandi l.

Í fyrsta lagi eru í þessi l. tekin upp ákvæði um það, að meðlimir barnaverndarráðs, barnaverndarnefndar og fulltrúar þeirra skuli gerðir að opinberum starfsmönnum, sem þeir hafa ekki verið hingað til, og hafa réttindi opinberra starfsmanna samkv. l.

Í öðru lagi, að barnaverndarn. skuli hafa eftirlit með unglingum allt til 18 ára aldurs, en samkv. barnaverndarl. frá 1932 er aðeins um börn að ræða til 16 ára aldurs; hér er hins vegar lagt til, að þetta nái til 18 ára aldurs ungmenna, sem eru líkamlega, andlega eða siðferðislega miður sín.

Í þriðja lagi er hér ákvæði um, að barnaverndarráð í Reykjavík skuli ráða fulltrúa, að fengnum till. barnaverndarn., sem sé starfsmaður hjá barnaverndarn., og enn fremur er hægt samkv. l. að ráða fleiri starfsmenn að fengnu samþ. bæjarstj. Hygg ég, að flestir, sem hafa haft kynni af þessum málum, séu sammála um, að hér sé um svo mikið starf að ræða, að það verði ekki framkvæmt þannig, að nokkuð gagn sé af, í frístundavinnu einni saman, eins og gert hefur verið að undanförnu að mjög miklu leyti, enda þótt barnaverndarn. hér hafi starfsmann eins og nú standa sakir.

Þá er í frv. nýtt ákvæði um það, að barnaverndarnefndum verði veitt heimild til þess að gera ráðstafanir upp á eigin spýtur, ef börn líða skort vegna örbirgðar. Ég hygg, að þetta ákvæði sé alveg sérstaklega nauðsynlegt, því að í mörgum tilfellum er ekki annað, sem þarf að gera, heldur en að bæta úr þessum skorti til þess að framkvæma þá vernd, sem nauðsynleg er til þess, að börn bíði ekki líkamlegt eða andlegt tjón.

Enn fremur er í frv. ákvæði um það, að barnaverndarn. skuli hafa til umráða heimili til þess að vista börn og unglinga, sem framið hafa lagaafbrot, og enn fremur þar sem hægt er að láta fara fram athugun á börnum, sem ástæða þykir til að vista til frambúðar utan heimilis síns, því að oft verður ekki úr því skorið, hvort nauðsyn beri til slíkrar vistunar nema uppeldisfræðingar eða hæfir menn geti látið fara fram rannsókn á því. — Einnig er í frv. gert ráð fyrir, að ríkið komi upp hæli fyrir börn og ungmenni, sem lent hafa á glapstigum, og skulu greiðslur fyrir vist þessara barna fara eftir l. um framfærslu sjúkra manna og örkumla.

Í 39. gr. frv. eru nokkuð ýtarleg ákvæði um vinnuvernd barna og ungmenna, og eru þetta ákvæði, sem algerlega hefur vantað í löggjöfina, þ. e. a. s., að í þeim er að vísu ein setning, sem segir fyrir um, að þetta sé eitt af verkefnum barnaverndarn. Er einkennilegt, að við skulum ekki enn vera komin á það stig að hafa sett l. um vinnuverndun barna og ungmenna, þar sem þetta eru þær allra frumstæðustu reglur, sem allar menningarþjóðir hafa sett í þessum efnum og enn þá vantar hjá okkur. Einnig er í frv. ákvæði um skyldu manna til að kæra fyrir barnaverndarn. yfir illri meðferð barna, og eru þar allnákvæm refsiákvæði, sem vantar algerlega í núgildandi l., en eru nauðsynleg, til þess að l. nái tilgangi sínum.

Ungmennaeftirlit, sem sett var með l. árið 1942, er með þessum l. úr gildi numið, en hins vegar hefur það, sem nýtilegt er í l. um ungmennaeftirlit að mínum dómi og þeirra, sem með þetta hafa fjallað, verið tekið upp í frv.

Þetta eru nokkur þau stærstu og mikilsverðustu atriðin í því frv., sem hér liggur fyrir og ég tel öll mjög nauðsynleg og aðkallandi, að verði gerð að l. Ef þetta frv. nær hins vegar ekki fram að ganga, verður ástandið þannig, þar eð ungmennaeftirlitið, sem sett var með l. 1942, en þegar er búið að afnema í praksis, að það skapar hin mestu vandkvæði, ef ekkert kemur í staðinn. Tel ég óviðunandi að búa við slíkt ástand, og get einnig lýst þessu yfir fyrir hönd hæstv. félmrh. Það eru líka fleiri smærri atriði, sem mundu valda miklum erfiðleikum, ef frv. nær ekki fram að ganga eins og allir höfðu gert ráð fyrir, sem nálægt frv. hafa komið. Í þeim mjög svo ófullkomnu barnaverndarl., sem nú eru í gildi, eru t. d. engin ákvæði um varamenn í barnaverndarráð, en nú er einn meðlimur barnaverndarráðs erlendis, þannig að í ráðinu starfa nú ekki nema 2 menn, og ef annar þeirra félli frá, væri ekki nema einn eftir, og yrði ráðið þannig óstarfhæft. Sýnir þetta eina dæmi, hve miklir erfiðleikar það geta orðið að búa lengi við þetta ástand, ef ekki fást nauðsynlegar breyt.

Nál. hv. meiri hl. allshn. er nokkuð kynlegt; í fyrsta lagi þær fullyrðingar, að undirbúningi málsins sé mjög ábótavant. Frv. þetta er samið af mþn. og fór síðan til hv. Alþ., og fékk það mjög ýtarlega meðferð í hv. Nd. Var mér kunnugt um það, að hv. heilbr.- og félmn. Nd. lagði í það sérstaklega mikla vinnu og á fundum þeirrar n. mættu barnaverndarn. og barnaverndarráð. Heilbr: og félmn. gerði á frv. talsvert miklar breyt., sem m. a. eru í því fólgnar, að ungmennaeftirlitið er lagt niður, en í stað þess er þessum málum á annan veg fyrir komið, eins og hér er lagt til í þessu frv. Barnaverndarn., barnaverndarráð og öll heilbr.- og félmn. hv. Nd. urðu að lokum alveg sammála, þrátt fyrir að ýmislegt hefði áður á milli borið. Náðist þetta samkomulag eftir mjög mikla vinnu og mjög ýtarlegar umr., sem að mestu leyti fóru fram á fundum heilbr.- og félmn., barnaverndarn., barnaverndarráðs og sérfræðinga í þessum greinum og í umr., sem enn fremur fóru fram í hv. Nd. um málið. Það var lögð í þetta frv. svo mikil vinna, að það dagaði uppi og náði ekki fram að ganga á síðasta þ. Nú flutti hv. heilbr.- og félmn. frv. að nýju í hv. Nd., og einmitt vegna þess, hve mikla vinnu var búið að leggja í það á síðasta þ. í hv. Nd., náði frv. nú tiltölulega skjótri afgr. í þeirri hv. d., og án þess að á því hafi verið gerðar neinar verulegar breyt. voru það nokkrar breyt., sem samþ. voru, er fluttar voru af hæstv. félmrh., eftir að hann hafði rætt við sakadómara. Get ég enn fremur tekið fram, að sakadómari var tilkvaddur við samning frv. og umr. um það. — Þegar þessi saga er rakin, er ég alveg hissa á því, að þessir fjórir hv. nm. skuli geta komið með slíkar fullyrðingar, að frv. sé illa undirbúið; þetta er ákaflega fjarri sanni. Rökin, sem þeir færa fyrir þessu, eru m. a. þau, að fræðslumálastjóra hafi ekki verið sent frv. til umsagnar og ekki heldur hinni nýju n., sem nú er starfandi, mþn. í skólamálum. Nú er það svo, að þessi mál heyra alls ekki undir fræðslumálastjóra og þau tilheyra alls ekki því verkefni, sem mþn. í skólamálum hefur verið markað, þannig að ég býst við því, að ef fræðslumálastjóra væri sent frv. til umsagnar, mundi hann ekki gera á því neinar breyt. og ekki telja það sitt verkefni. Er mér kunnugt um, að mþn. í skólamálum er ófáanleg til þess að fara að taka þetta frv. til endurskoðunar, því að það verk mundi verða framkvæmt af þeim manni, sem alltaf hefur verið með í ráðum, þ. e. form. barnaverndarráðs, prófessor Ásmundi Guðmundssyni. Þetta er því alveg út í bláinn sagt og mundi ekki hafa neina þýðingu, en er hins vegar ekkert annað en undanbrögð. Ég er búinn að sýna hv. meiri hl. allshn. fram á það, að röksemdir hans duga ekki, og hann veit það vel, þegar hann ber fram þessar röksemdir, að þær eru ekkert annað en undanbrögð. Í nál. hv. meiri hl. standa þessi laglegu orð:

„Það hefur þannig komið í ljós, að fræðslumálastjóri landsins hefur aldrei í embættisnafni haft þetta mikilsvarðandi mál til athugunar eða umsagnar. Virðist þó sem barna- og unglingaskólar ættu að vera öruggasta barnaverndin, og þess vegna hæpið, að máli sem þessu sé ráðið til lykta án samráðs við yfirmann skólanna.“

Þetta eru hins vegar bara tóm orð, því að margt mætti telja til barnaverndar, ef færið væri út í þá sálma. Það er að vísu rétt, að skólarnir eru þýðingarmiklir, að því er snertir uppeldi unglinga, en það er hins vegar fleira, sem til greina kemur, t.d. atvinnumálin; það hefur ekki lítið að segja, hvort atvinnuleysi er í landinu eða ekki, sömuleiðis kemur þetta tryggingunum við, og mætti alveg eins vísa þessu til tryggingarráðs, og væri þá ekki úr vegi að leita umsagnar nýbyggingarráðs. Það er alveg rétt, að hugtakið barnavernd á sér ákaflega djúpar rætur í okkar þjóðfélagi, og er hægt að tengja það við alla skipun okkar þjóðfélags, en það er ekki það, sem hér er um að ræða; heldur er hér um að ræða alveg takmarkað svið, sem ákveðnum aðilum er falið, ákvarðanir og ráðstafanir takmarkaðar með l., sem allar menningarþjóðir hafa komið á hjá sér og við höfum verið og erum að gera tilraunir með, en þótt frv. væri sent fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum, hefði það enga þýðingu. Það má segja, að eitt atriði í röksemdum hv. meiri hl. hafi nokkuð til síns máls; það er að grg. vanti með frv., til þess að hv. þm. geti áttað sig á því. Það er rétt, að grg. þess er mjög stutt, og getur af þeim sökum verið erfitt fyrir hv. þm. að átta sig á frv., en hins vegar var þetta frv. hér til umr. í fyrra, og geta hv. þm. lesið grg. í þingtíðindunum, þar sem hún er tekin upp. Það er ekki venja, þótt frv. sé breytt hér á hv. Alþ., að þeim breyt. fylgi grg., heldur ætlazt til þess, að hv. þm. geti áttað sig sjálfir á þeim breyt., sem gerðar hafa verið. Hér er aðeins sá munurinn, að þessar breyt. eru gerðar að vissu leyti á öðru þ., — þær voru komnar fram á hinu þ., en eru bornar fram á þessu þ. sem nýtt frv., flutt af heilbr.- og félmn., eins og hv. Nd. gekk frá því á sínum tíma, að öðru leyti en því, að úr frv. eru felld ákvæðin um ungmennadóm. Auk þess eru nokkrar aðrar breyt., en fæstar þeirra eru verulegar efnisbreytingar. Þessi rökstudda dagskrá hv. meiri hl. hefur því enga þýðingu; útkoman yrði aðeins sú frá minni hálfu, að ég mundi senda það barnaverndarn. og barnaverndarráði, og sömuleiðis mundi ég, vegna fyrirskipana hv. Alþ., senda það til fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum, og mundu þessir aðilar leggja til, að frv. yrði samþ. eins og það er í höfuðdráttum, að svo miklu leyti, sem þeir vilja taka afstöðu til þess.

Það er að vísu sagt hér í nál. hv. meiri hl., að á síðustu stundu hafi komið till. til breyt., sem þyrfti að gera á frv., frá aðilum, sem um málið hafa fjallað. Það er rétt, að einn af meðlimum barnaverndarn. taldi rétt að gera eina breyt. á frv. á síðustu stundu, sem var í því fólgin, að barnaverndarn. yrði gefin heimild — undir vissum kringumstæðum — til þess að vista ungmenni. Þegar ég heyrði frá þessu skýrt, þar sem þetta var notað sem röksemd á móti því, að frv. yrði samþ., fór ég til meðlims barnaverndarn., sem borinn var fyrir þessu. Hann taldi, að hann gæti fallizt á slíka vistun ungmenna undir alveg vissum kringumstæðum og heimild yrði veitt til þess, þó þannig, að allir nm. yrðu sammála um það, en ef hann hefði vitað, að þessi uppástunga sín yrði notuð til þess að bregða fæti fyrir frv., hefði hann aldrei á þetta minnzt. Væri auðvelt fyrir hv. meiri hl. að koma með þessa brtt. sjálfur. Það virðist þess vegna vera svo, að eitthvað annað hafi vakað fyrir hv. meiri hl., sem mér er alveg ókunnugt um, heldur en þau rök, sem fram eru borin á nál., því að þau eru alveg haldlaus.

Ég tel ástandið í þessum málum vera í slíku öngþveiti, ef frv. nær ekki fram að ganga, að mjög erfitt verði að komast hjá því að gefa þetta frv. út sem brbl., og mundi ég a. m. k. fara fram á það við ríkisstj. Að þessu máli athuguðu vona ég, þrátt fyrir þessa skoðun hv. meiri hl. allshn., að frv. nái samþykki hv. d.