26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Ég hef því miður verið vant við látinn, svo að ég hef ekki getað fylgzt með umr. sem skyldi og get því ekki svarað öllu, sem fram hefur komið. En ég held, að hvernig sem menn velta þessu fyrir sér, þá sjái menn, að þetta mál hefur fengið óvenjulegan, óskýran og jafnvel lélegan undirbúning. Þetta mál er upphaflega flutt af fyrrv. ríkisstj. Þetta er lagabálkur í 60 gr., sem má jafna til hegningarlaga fullorðinna. Ég sem lögfræðingur get upplýst það, að aðalinntak lögfræðinnar eru skýringar á því, hvað fyrir löggjafanum vaki, en ekkert slíkt liggur fyrir viðvíkjandi þessum lagabálki, heldur er þetta samsafn frá mörgum aðilum, sem hafa breytt þessu á ýmsa lund, án þess vitað sé, hvaða breytingu hver hefur gert. Svo virðist sem hv. Nd. hefði ekki verið of góð til að upplýsa, hvaðan hvert atriði var komið. Ég tel það alls ósæmandi fyrir þingið að afgreiða slíkan lagabálk sem þennan, sem hefur jafnvíðtæka þýðingu fyrir frelsi og sjálfræði unglinga, á þann hátt, sem háttv. Nd. leggur til.

Menntmn. telur þýðingarlaust að láta málið fara aftur til Nd., þar sem hún er því samþ. í því formi, sem það nú er í, en mér virðist, að hún gæti þó látið semja skýringar við frv. Ég vil alvarlega vara við því, að slík löggjafaraðferð sé upp tekin, að samþykkt séu l., án þess að hv. þm. viti til fulls, hvað þeir eru að samþ. Það er nauðsynlegt fyrir alla aðila, sem með þetta kunna að fara í framtíðinni, að ljóst sé, hvað fyrir löggjafanum vakti.

Þessi óvenjulega aðferð með svo stórt mál er mér nægileg til að fallast ekki á það. En auk þess er margt í frv., sem mér virðist þurfa lagfæringar við. Til dæmis stendur í upphafi 45. gr.:

„Rétt er að setja með reglugerð ákvæði til verndar börnum og ungmennum gegn siðspillandi áhrifum, vondum fordæmum og freistingum.“

Hér er komið inn á atriði, sem löggjafinn getur ekki ráðið við, og eru þetta því ekkert annað en falleg orð. Þannig er og um ýmsar heimildir, sem hér er farið fram á, að þær eru þegar fyrir hendi, svo sem um að setja á stofn heimili fyrir vandræðabörn og fleira. Hins vegar er sá hængur á þessu, að okkur vantar alveg kunnáttumenn um þessi mál, og þyrfti að byrja á því að afla þeirra, en að því gæti hæstv. ríkisstj. unnið, þótt þessi l. séu ekki samþykkt nú. Þá á að skylda bæjarsjóð Reykjavíkur til að setja á stofn rannsóknarstöð, en ég hygg, að einnig vanti mann til að veita slíkri stofnun forstöðu. Annars virtist mér eðlilegra, að ríkið kostaði slíka rannsóknarstöð, og væri nær sanni að snúa þessu þannig við að skylda ríkið til þessa, en gefa Reykjavík heimild.

Ég hef verið kallaður hér af fundi og get því ekki rætt þetta sem skyldi, en ég vil að lokum benda á, að það er ákaflega óljóst, hvaða vald barnaverndarnefnd á að hafa yfir unglingum frá 16–18 ára, og ég hef það eftir einum hæstaréttardómara, að hann geti ekki gert sér það ljóst. Þetta atriði þarf þó að vera skýrt og óvéfengjanlegt. Sumir segja, að í rauninni sé þetta ekki óljóst, því að barnaverndarnefnd hafi, þegar allt kemur til alls, ekkert vald. Ég vil benda á, að á síðustu stundu komu tveir barnaverndarnefndarmenn, þeir próf. Ásmundur Guðmundsson og Sigurður Thorlacius, með till. um að gera breyt. á þessu. Þeir hafa þá ekki áttað sig betur á þessu en svo. Ég held því, að þótt ég hafi ekki aðstöðu til að ræða þetta frekar, þá sé það fullljóst, að þetta má1 þarf nánari athugunar við og því sjálfsagt að samþ. hina rökst. dagskrá.