26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (2820)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég álít, að það sé engan veginn tilgangslaust að ræða þetta frv. nokkru ýtarlegar hér, jafnvel þótt það kunni að bíða annars þings, að það verði haldið áfram með það. Og það er einmitt af því, að í öllum þessum málum er svo tilfinnanleg vöntun á því, að þjóðin fylgist með því, sem um er að ræða. Þetta frv., sem hér ræðir um, grípur ákaflega mikið inn í verksvið heimilanna. Og vil ég aðeins, með leyfi hæstv. forseta, benda á það, til sönnunar því, að þetta getur orðið misnotað, ef ekki er skynsamlega með farið, að það er gert ráð fyrir því í 1. gr. frv., að þetta eftirlit nái yfir aðbúð og uppeldi á heimilunum. Í öðru lagi á það að ná yfir hegðun og háttsemi ungmenna utan heimilanna. Í þriðja lagi segir hér í frv., að þetta eftirlit taki yfir ráðstöfun í vist, í fóstur, til kjörforeldra eða á sérstakar uppeldisstofnanir. Enn fremur eftirlit með uppeldisstofnunum, svo sem barnahælum, dagheimilum, leikskólum, sumardvalarheimilum, fávitahælum fyrir börn og ungmenni o. s. frv. Svo kemur í fimmta lagi eftirlit með börnum og ungmennum, líkamlega, andlega eða siðferðislega miður sín. Svo koma enn fremur þrjár gr. í viðbót í 1. gr. frv. um það, hvað þetta eftirlit nái yfir.

Það er auðséð á þessu máli, að það er gert ráð fyrir, að það verði sett upp nokkuð víðtækt eftirlit, sem er utan við skólana og utan við prestana og utan við löggæzlu í þessum efnum. Og ég verð að segja það, að mér fyndist, að ef lag væri á skólastjórn og fræðslumálum, þá væri langeðlilegast, að þessar heimildir og allt eftirlit með slíkum málum sem þessum yrði ein grein á skólastarfseminni og heyrði undir fræðslumálastjóra. Það, sem ég óttast mest og mér finnst að einkennt hafi þessar tilraunir fram að þessu, er orðmargur vanmáttur. Það hafa verið kosnar n. til aðgerða í þessum málum, og þessar n. geta fengið vald til þess að grípa inn í heimilin. Að vísu er þess stundum þörf. En það er þannig, eins og við vitum, að heimilisfriðurinn er verndaður, þannig að ekki er hægt að rjúfa hann nema með dómi. En hér sýnist stefnt að því, að það eigi að vera miklu minni trygging um friðhelgi heimilisins en gilt hefur.

Í Reykjavík hefur verið barnaverndarnefnd með 7 mönnum. Og slíkar n. hafa verið í minni kaupstöðum og kauptúnum. Svo koma fastir starfsmenn og þ. u. l. Þetta allt er mikið bákn. Og satt að segja, þegar litið er yfir þá reynslu, sem er af því, þá held ég, að segja megi svona hér um bil, að enn sé ekkert gert í þessum efnum. Það er fiktað og fálmað í þessum n., og þær vita augsýnilega ekkert, hvernig þær eiga að taka á málum. Og svo gæti það komið til, ef illa tækist til um val á mönnum í slíka n., að það gæti leitt til ábyrgrar íblöndunar í heimilislíf á einhverjum heimilum.

Það, sem ég vil, að hv. 4. landsk. þm. taki til endurbættrar athugunar, er, að hann eða heilbr.- og félmn., sem flytur þetta frv., gerir sér ekki grein fyrir því, hvernig á að leysa þessi spursmál. — Ég kom inn á það, að vegna sveitaheimila er nauðsynlegt að minnast á sendingar á afvegaleiddum börum þangað. Það er svo mikið réttleysi að nota sér góðmennsku þeirra heimila. Þó hefur það verið þrautaráðið og hefur verið það bezta, sem hefur verið gert í þessum efnum. — Ég vil segja hv. 4. landsk. þm. frá einu dæmi í sveit skammt frá Akureyri: Ég kem stundum á sumrin á þennan bæ. Hjónin eiga einn dreng, 6–7 ára að aldri. Það höfðu komið stórir hópar af börnum í skólaheimili úti á landi, og í einum þessara skóla voru um 100 börn úr Reykjavík, og einn drengjanna þar þótti svo óviðráðanlegur, að hann væri ekki hafandi með hinum börnunum á þessu skólaheimili. Honum var svo komið fyrir á þessum bæ, sem ég minntist á, þar sem þetta eina barn var fyrir. Og þessi drengur, sem var víst töluvert óþægur, bæði heima hjá sér og í skólanum, tamdist svo undarlega ve1 á þessu heimili við það að fá að vera með í heimilisstörfunum. Hann varð svo handgenginn bóndanum við það að fá að vera með við heyskap og við skepnur, að hann bað þess, þegar hann fór um haustið, að hann mætti koma mjög snemma næsta vor, til þess að fá að vera á þessum sveitabæ um sauðburðinn. Ég hygg, að þessi drengur hafi verið þarna tvö eða þrjú ár. Og það er ekki vafi á því, að drengir, sem erfiðleikar eru um uppeldi á í kaupstöðum, geta mjög oft lagazt, ef þeir komast í sveit og fá að vera með fullorðnum við störf. — Þess vegna get ég ekki annað en verið með þeim anda, sem kemur fram hjá hv. 4. landsk. þm. og tilgangi frv. En ég get ekki annað — sem maður, sem hefur um langa stund haft meðgerð með börn og unglinga um að ala þau upp að nokkru leyti — en varað menn við því að takast þetta vandasama starf á hendur, án þess að gera sér grein fyrir, hvað á að gera í þeim efnum. Ég er ákaflega hræddur við frv., sem ég hygg, að hæstv. ráðh. sé að spekúlera í að koma inn á næsta þ., um að auka skólaþvingun á börnum í landinu. Og það, sem eru erfiðleikar með heimavistarskóla fyrir börn, t. d. þegar þau koma 7 ára í skólana, er það, að ekki verði allir kennararnir nógu vel starfinu vaxnir. Kennarastéttin er stór stétt manna, sem eru eins og fólk flest, hvorki verri né betri en í öðrum stofnunum. Í svona stórri stétt með um 500 manns er margt af góðu fólki. En mjög margir eru þarna ekki nema vegna atvinnu. Þeir gætu alveg eins setið á skrifstofu eða fiskað eða þ. u. l. Það, sem hættulegast er við svona kerfi, er það, að nú er fjölgað heimavistarskólum langt fram yfir það, sem nokkur trygging er fyrir, að fáist verulega hæfir menn til að stjórna, af því að það er ákaflega erfitt að taka að sér börn á skólaaldri, sem tekin eru frá foreldrum sínum. Og svo kemur enn spursmál. Hve lengi eiga þau að vera á heimavistarskólanum? T. d. er mér kunnugt um það frá dugandi bændum á Suðurlandi, sem nú verða að hafa börn 4 mánuði á ári á heimavistarskóla, að þeim finnst þessi tími hafa slitið þessi börn frá heimilunum og daglegum störfum þar og breytt þeim á þann hátt, sem síður skyldi, og þannig hefur slitnað sá eðlilegi þráður, sem í uppeldinu var snúinn úr íslenzku sveitalífi. Og það vofir yfir, að stefnan í fræðslumálunum fari dýpra og dýpra í þann farveg að breyta því uppeldi, sem í gegnum þúsund ár hefur miðazt við það, að börnin hefðu á heimilunum umgengni við fullorðna fólkið í heimilislífi og störfum. Og viðkomandi þessu uppeldi eru margir sammála um, að það hafi eitthvað við sig, sem ekki megi missast.

Nú hafa jafnvel heimavistarskólarnir mikla erfiðleika af því, að það er ekki nóg að hafa sæmilega kennara til þess að stjórna þeim, heldur þarf meira en það. Og ég vil taka eitt dæmi, sem ég veit, að hv. 4. landsk. þm. er vel kunnugt. Það er dæmi um fórnfýsi hjá fólki, sem er í þéttbýli, sem er að reyna að búa venjulegum börnum sumardvalarstað. Konur á Siglufirði höfðu miklar framkvæmdir, fjársöfnun o. þ. u. l., til þess að koma upp sumarhæli fyrir börn frá Siglufirði í Fljótum í sambandi við barnaskóla. Þeir þurftu að byggja barnaskóla við jarðhita í Fljótum, og svo skyldu siglfirzk börn vera þar á sumrin. Þetta er vel og skynsamlega útreiknað, að hafa svo Fljótabörn þarna í skóla að vetrinum. Þarna er fastur kennari. Svo kemur sumarið, og þá verður niðurstaðan, að það er varla hægt að fá mann til að stýra þessu barnaheimili. Þessi kennari, sem þarna er að vetrinum, vill ekki taka að sér þessi börn, sem þarna eiga að vera yfir sumarið. Og ef tekinn væri annar kennari frá Siglufirði til að annast þetta að sumrinu, þá er hinn kennarinn fyrir, og hann er húsbóndinn á heimilinu. Niðurstaðan er sú, að þetta ágæta plan kvennanna á Siglufirði er óleyst enn. Það hefur ekki enn tekizt að fá eðlilega forstöðu fyrir þessu fyrirtæki þeirra né heldur eðlileg vinnubrögð um það.

Ég er efnislega samdóma hv. 4. landsk. þm. um grundvallarhugsun hans í þessu efni og vil því segja, að það er ómögulegt að reka þessi heimili, sem fyrir mönnum vakir að koma upp, öðruvísi en helzt að hafa þau þar, sem mætast land og sjór, og þar, sem hægt er að láta unglingana sýsla við mjög fjölbreyttan búskap, þar sem eru allar tegundir af skepnum til að annast og líka hægt að nota báta við einhvers konar veiði, þar sem unglingar geta verið uppteknir fyrst og fremst við líkamleg störf af því tagi, sem alltaf hafa verið stunduð hjá okkur í þúsund ár og hafa verið aðaluppeldismeðal heimilanna, vinna við störf til lands og sjávar. En ég veit, að það er ekki hv. 4. landsk. þm. að kenna, þó að enginn af þessum mönnum, sem við þessi mál hafa verið riðnir, svo sem Símon Jóh. Ágústsson, Sigurður Thorlacius og fleiri, — enginn þessara manna hefur látið heyra frá sér eitt orð um það, hvernig á að koma þessu fyrir, af því að þeir fikta við hluti, sem þarf að gera, en þeir vilja leysa eftir pappírsreglum og pappírsanda. — Og nú get ég sagt hv. d. frá einu dæmi af mörgum af þessum tilraunum, sem gerðar voru í beztu meiningu, meðan verið var að flytja börn úr Reykjavík af ótta við loftárásir. Í einu skólahúsi í sveit voru 100 börn úr Reykjavík. Þangað voru valdir mjög góðir kennarar. Einn kennari norðlenzkur starfaði við þetta, sem ég hafði kynnzt fyrir löngu og vissi, að var úrvalskennari í sínum skóla. — Og niðurstaðan var, að þessi 100 börn höfðu nóg að éta, góð rúm, nóg loft, en þetta var eins og eitt refahreiður. Börnin komu hvert úr sínu horni, og þau höfðu ekkert að gera. Strákarnir voru látnir vera við jarðrækt og málamynda vegagerð. Og þessir kennarar voru mest hræddir um, að strákarnir settu spaðana hver í hausinn á öðrum og dræpu þá. Þetta var af því, að 100 meira og minna óþæg börn voru sett þarna niður tiltölulega undirbúningslaust. Þó að mjög prýðilegir kennarar væru við þetta hafðir, þá höfðu þeir enga undirstöðu til þess. Ég hygg, að það sé sízt betra að hafa stráka á slíkum stöðum en á götunum í Reykjavík, svo lítið sem það er eftirsóknarvert.

Mér sýnist þess vegna, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, gangi á pappírnum út á það að veita n., sem kosnar yrðu af tilviljun og án undirbúnings, í kaupstöðum og kauptúnum töluvert vald til þess að reka nefið inn í heimilin, en engin úrræði eða býsna lítil. Og þeir, sem fyrir þessu gangast, vita alls ekkert um það, hvernig eigi að koma þessum heimilum fyrir. Og eins og tekið var fram af hv. 6. þm. Reykv., var eðlilegt að búa þetta út þannig, að láta þjóðina, gegnum blaðagreinar og útvarp o. þ. l., vita, hvað til stæði að gera. Það er ekki fært að ætla að stjórna landinu þannig að koma með ný system og demba yfir fólkið án undirbúnings. Og ég vil í þessu sambandi víkja því að hv. 4. landsk. þm., sem er Eyfirðingur, að í hans héraði, þar sem er margt um að tala af góðum fordæmum, þar veit hann, sem ég býst við, að margir viti, að fyrsta stóra mjólkurbúið á landinu kom. Það kom á Akureyri og gerðist þannig, að einn ungur og efnilegur Eyfirðingur, Jónas Kristjánsson, fann löngun hjá sér til þess að leysa það spursmál. Og hann talaði um þetta við áhugasama menn, sem varð til þess, að hann var í öðrum löndum í þrjú ár til að fullnuma sig, en stóð á meðan í sambandi við bændur heima. Þegar hann kom heim, var fengið hús, settar upp vélar til mjólkurhreinsunar og vinnslu, ekki kannske af stærstu gerð. En samt sem áður varð það þannig, að Eyfirðingar leystu þetta mál án hjálpar annars staðar að, sköffuðu byggingar, vélarnar og manninn í þetta. Síðan hefur þetta gengið mjög vel. Svo var þetta gert miklu stærra síðar. — Annað dæmi er svo héðan að sunnan. Þegar sást, að þetta gekk ve á Akureyri, var sett upp mjólkurbú í Ölfusinu og annað við Ölfusárbrú. Þar var nóga mjólk um að ræða. Ráðizt var í að drífa upp þetta hús þarna. En ýmis vansmíði voru á þessu. Þeir urðu að hafa við þetta danska og norska menn, sem voru sæmilegir menn. Þetta stóð í nokkur ár, en á endanum gafst það upp. Þarna vantaði grundvöllinn, því að ekkert samband var á milli fólksins og þessa fyrirtækis. Þetta var eins og dottið af himnum ofan á fólkið. — Svo er verið að setja verksmiðju í þetta hús, til þess að gera eitthvað við það. — Ég hygg, að þessi tvö dæmi séu nokkuð táknræn. Í Eyjafirði var byrjað með því að rannsaka, hvað gera skyldi í málinu, síðan útvegað hús og kunnáttumaður innlendur, sem í þrjú ár var að fullnuma sig til að takast stjórn fyrirtækisins á hendur, og á meðan var unnið heima, og þegar maðurinn kom, voru settar upp vélar og fyrirtækinu hrint af stað vel undirbúnu.

Mér finnst eðlilegt, þegar talað er um Reykjavík í sambandi við það mál, sem fyrir liggur til umr., þar sem fólkið er flest hér saman komið og yfirleitt mæðir mest á hér í þessum efnum, þá finnst mér ekki nema eðlilegt, þó að borgarstjórinn hiki við að setja upp svona stofnun, af því að hann veit, að þetta er að verulegu leyti fálm, ef þessu er allt í einu kastað framan í hann. Ég hygg því, að réttast væri að athuga betur, hvernig þetta á að vera, svo sem hvað börnin eru mörg, sem þessa eiga að njóta, og hvernig hugsað er að stjórna þessum heimilum barna, sem um er að ræða í frv. Og svo ætti að reyna að freista þess að ala upp dugandi starfsmenn til þess að standa fyrir þessu. Þetta vonast ég til, að hv. 4. landsk. þm. geti átt þátt í að leiðrétta. Ef til vill þarf þetta ekki að vera í hans kjördæmi. En ef þetta á að lánast, þá þarf fyrst að vita, hvað á að gerast, og það þarf að ala upp til þess menn.