09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

27. mál, skipun læknishéraða

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er ekki ætlun mín að koma með brtt. um að fjölga læknishéruðum,. heldur aðeins að fá leiðrétt viðskipti milli læknishéraða.

Eins og hv. þdm. vita, hefur læknishéruðum nú verið skipað þannig, að nokkuð af umdæmi héraðslæknisins í Stykkishólmi hefur verið tekið og nýtt hérað stofnað. Er það aðeins fjórir hreppar. Aftur er því þannig farið í Dölum, að í því umdæmi eru níu hreppar, og í því eru meira að segja eyjar, sem eru úti á yztu mörkum héraðsins. Er þaðan ekki nema 15 mín. ferð til Stykkishólms, en 60–70 km til Búðardals, vegur þangað ekki bílfær og þar að auki vatnsföll á leiðinni. Nú hefur það verið svo um langan tíma um tvo hreppa, Skarðshrepp og Klofningshrepp, að þótt þeir heyri ekki undir umdæmi læknisins í Stykkishólmi, þá hafa íbúar þeirra einatt vitjað Stykkishólmslæknisins. Hefur hann af góðvilja komið þangað, enda er sjálfsagt að sækja hann fremur, þar sem þangað er ekki nema 1–2 tíma ferð með mótorbáti, en allt að 7 tíma ferð á hestum til Búðardals. — Því er það, að ég fer fram á, að sú leiðrétting verði á ger, að íbúar þessara tveggja hreppa, Skarðshrepps og Klofningshrepps, eigi jöfnum höndum tilkall til læknis í Stykkishólmi. — Þetta er mikil sanngirniskrafa, og jafnvel þótt nú sé í Stykkishólmi gegn læknir, sem jafnan gegnir kalli þessara staða utan síns umdæmis, þá er ekki víst, að þar verði alltaf læknir, sem telur sér það skylt. Þess vegna fer ég fram á, ríkissjóði að kostnaðarlausu, að þessi breyt. verði gerð til öryggis fyrir þá, sem lengst eiga læknis að vitja í þessu stóra læknishéraði, sem nær yfir níu hreppa. — Ég leyfi mér því að afhenda hæstv. forseta skrifl. brtt. um þetta efni.