05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1253 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

207. mál, Ólafsfjarðarkaupstaður, eignarnám lóðarréttinda

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt að tilhlutun hreppsnefndar Ólafsfjarðarhrepps og fjallar um að taka leigunámi landspildu á landamerkjum Brimness og Hornbrekku.

Nánari atriði þessa máls eru þau, að árið 1896 var „Gudmans Efterfölgere“ á Akureyri leigð landspilda úr Brimnesslandi við landamerki Hornbrekku, 60 faðmar á lengd og 20 faðmar á breidd.

Síðar er þessu breytt í viðbótarsamningi, þannig að 20 X 20 faðmar þessarar lóðar eru teknir af öðrum enda og bætt við hinn. Talið er, að þarna sé heppilegur staður fyrir dráttarbraut.

Hreppsnefnd Ólafsfjarðarhrepps telur nauðsynlegt að fá þessa landspildu, en ókleift hefur reynzt að komast að viðunandi samningum við eigendur. Ég mælist til, að þessu verði flýtt sem auðið er og vísað til 2. umr. og allshn.