28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í C-deild Alþingistíðinda. (3073)

135. mál, loftferðir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Það er ekki langt mál, sem ég þarf að segja hér í viðbót við það, sem ég hef þegar tekið fram út af þessu frv. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að gera lítils háttar aths. við ræðu hæstv. atvmrh.

Ég vil þá byrja á því að viðurkenna, að það var rétt aths. hjá hæstv. ráðh., að mér var ekki hugfast, þegar ég ræddi frv. við fyrri hluta þessarar umr., að Flugfélag Íslands hefði áður starfað undir öðru nafni. Ég er vissulega fús til að viðurkenna, að þeir, sem stóðu upphaflega að Flugfélagi Íslands, sem hét í fyrstu Flugfélag Akureyrar, hafa unnið þarft verk með því að koma því á fót, en nafnið Flugfélag Íslands hefur félagið haft aðeins nú í 2–3 ár, og var það nafn mér munntamara.

Að öðru leyti er það sitthvað, sem þarf athugunar við, m. a. það, sem hæstv. ráðh. tíundar af flugvélum hjá h/f Loftleiðum. Hann sagði, að það ætti til eina litla flugvél, en það er ekki rétt, því að fyrst og fremst á félagið hér tvær vélar. Önnur varð fyrir áfalli á Miklavatni, en það er verið að undirbúa viðgerð á henni, og er talið, að sú viðgerð muni takast. Þá á félagið tvær vélar hér, en svo hefur það fest kaup á allstórri vél, sem tekur 8 farþega, í Ameríku, og trúi ég, að hún bíði þar byrjar nú til að komast til Íslands.

Þegar tíunduð er flugvélaeign Flugfélags Íslands, hefur verið sagt, að það félag ætti 4 vélar, og er þá talinn með nýi flugbáturinn, sem einnig bíður byrjar í Ameríku. Það er þá ekki svo ólíkt ástatt hjá þessum tveim fél., og ég verð að segja, með fullri virðingu fyrir Flugfélagi Íslands, að það er myndarlega af stað farið hjá h/f Loftleiðum, að eiga 3 vélar eftir 8 mán. starf, borið saman við það, að Flugfélag Íslands á 4 vélar eftir 6 ára starf. Þetta bendir í þá átt, að það hafi ekki verið rétt að ganga framhjá h/f Loftleiðum, þegar þetta frv. var samið.

Hæstv. ráðh. tók það fram, að tilætlunin væri að leyfa h/f Loftleiðum að renna inn í Flugfélag Íslands. Það er út af fyrir sig gott að heyra, en hæstv. ráðh. verður að hafa mig og fleiri þm. afsakaða, þar sem við höfum frv. hér fyrir framan okkur, en í því er ekki gert ráð fyrir öðru en að ríkissjóður leggi fram 1½ millj. kr. í Flugfélag Íslands og því sé síðan falinn einkarekstur á flugferðum. Hvað svo kann að vera ætlun ráðh. eða annarra, kemur ekki málinu við, ef ekkert liggur fyrir um það í skjölum. Og þó að þetta sé nú ætlun ráðh., þá rís upp spurningin: Með hvaða kjörum? Ég minntist á það í minni fyrri ræðu, að ekki væri vert að fara út í það mál, en nú hefur hæstv. ráðh. gefið tilefni til þess, að ég gerði það. Hvers konar tilraunir hafa verið gerðar til að ná samstarfi? Jú, h/f Loftleiðir bauðst til að afhenda Flugfélagi Íslands fyrstu vélina við kostnaðarverði gegn því, að þeir 3 félagarnir væru ráðnir sem flugmenn með lágmarkskaupi, en að því var ekki gengið. Það var gefinn kostur á að taka einn þeirra, og síðan var horfið frá því aftur, svo að þessi tilraun var ekki slík, að hægt væri fyrir h/f Loftleiðir að ganga að kostunum. Ef ætlað er að ná samstarfi við h/f Loftleiðir og halda áfram að bjóða svipuð kjör, er það ekki vænlegt til árangurs, en þá er líka frv. stj. svo útbúið, að það meinar h/f Loftleiðum í rauninni allt annað en að gefast upp.

Nú er að vísu aðstaða Eimskipafélags Íslands ekki hin sama. Það hefur ekki lagt fram fé til að kaupa flugvélar, en Eimskipafél., sem hefur um fjórðung aldar annazt mesta fólksflutninga hér á landi og milli Íslands og útlanda, hefur ákveðið að efna til aukafundar 11. nóv. næstk., og sá fundur á að fjalla um þá hugmynd, að Eimskipafél. taki að sér flutninga í lofti líka. Það er eðlilegt, að fél. detti þetta í hug, því að fordæmin eru fyrir því, að stór flutningafélög hallast að því að taka flugtæknina í þjónustu sína. Ég hef heyrt talað um, að Cunard-línan o. fl. hafi þetta í ráðum, og fyrir stríð var talað um það, að gufuskipalína í Gautaborg ætlaði að bæta flugsamgöngum við starfsemi sína.

Að öllu þessu athuguðu virðist mér frv, í fyrsta lagi óframbærilegt, og í öðru lagi hlýtur það að taka miklum stakkaskiptum hér á Alþ., ef Alþ. á ekki að ganga inn á einstrengingslega einokunarbraut, eins og hæstv. ríkisstj.

Hæstv. ráðh. sagði, að engu þyrfti að leyna í þessu sambandi. Ég vona það líka, enda væri undarlegt, ef svo væri. En mér finnst ástæða til að spyrja hæstv. ráðh., sem engu vill leyna, um ástæðuna fyrir því, að hann neitaði h/f Loftleiðum um meðmæli ríkisstj. í sumar, þegar sendiherra Íslands í Washington var fyrir beiðni h/f Loftleiða búinn að fá ádrátt hjá Bandaríkjastjórn um kaup á þessari nýju flugvél. Sendiherrann óskaði, að ríkisstj. gæfi sín meðmæli, en hæstv. ráðh. neitaði og bar fyrir sig, að hann vissi ekki, hvort fél. hefði nægilegt fjármagn. Formaður fél. skýrði mér frá þessu. Það væri fróðlegt að vita, af hvaða ástæðum ríkisstj. lands, sem er eins þurfandi fyrir samgöngur og við, neitar hlutafélagi, sem búið er að stofna með fleiri hundruð þús. kr. hlutafé, um meðmæli til annarrar ríkisstj., sem getur ákveðið, hvort verða skuli af kaupum og sölu eða ekki, og það á tímum, þegar öllum er ljós nauðsynin á góðum flugvélurn. Það lukkaðist engu að síður að útvega flugvélina fyrir meðmæli viðskiptaráðs.

Ég get svo látið útrætt um þetta. Ég þykist vita, að í sjálfu sér beri ekki mikið á milli yfirleitt um nauðsyn þess að hafa aðstöðuna sem bezta til flugsamgangna hér, en þegar verið er að koma á ákveðnu skipulagi í þessum málum, þá er ófært, ef með lagaákvæðum á að bægja öðrum aðilanum frá, en hlaða undir hinn, bæði með framlögum úr ríkissjóði og veitingu einkaréttar.

Flugmenn h/f Loftleiða hafa sýnt, að þeir eru starfi sínu vaxnir. Þeir sýndu það í síldarleitinni, og í sumar, þegar þeir voru til knúnir af yfirvöldum landsins til þess að fljúga í allt að ófæru flugveðri yfir háfjöllin í sjóflugvél til að sækja sjúkling, tel ég, að þeir hafi sýnt, að þeir eru dugandi menn. Enn fremur er félagið stofnað samkv. l. og er tiltölulega öflugt fjárhagslega. Hvað felst þá á bak við neitun hæstv. ráðh. um meðmæli, sem honum hefði átt að vera ljúft að veita?

Ég held ég verði að treysta n. til að afla sér allra upplýsinga. Flugfélag Íslands er góðra gjalda vert, en h/f Loftleiðir eru líka þeirra gjalda vert, að það má ekki drepa það með þögninni. Eimskipafélag Íslands, sem sýnt hefur mikinn áhuga á flugmálunum, er líka aðili, sem nauðsynlegt er að kveðja til ráða.