09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Bjarni Benediktsson):

Ég skal ekki mæla mörg orð um þetta frv. og allra sízt ræða um innræti landlæknis, sem mér skilst, að hæstv. forsrh. hafi gert að umræðuefni dag eftir dag algerlega að ástæðulausu. En það má í rauninni ekki láta því ómótmælt, sem hv. þm. Barð. sagði áðan, að það væri skylda ríkisstj. að verja alltaf embættismenn, ef að þeim væri fundið og störfum þeirra á Alþ., og það væri með öllu ótækt, að að gerðum embættismanna væri fundið á Alþ. Það er ein af höfuðskyldum Alþ., að höfð sé í frammi réttlát gagnrýni á embættismenn ríkisins, hvort sem það er landlæknir eða einhverjir aðrir, sem í hvert sinn hafa til þess unnið. Að leggja þá skyldu á ríkisstj., að hím í hvert sinn eigi að verja hvaða embættishneyksli, sem átt hefur sér stað, er algerlega fráleitt, og jafnvel þó að ekki sé um embættishneyksli að ræða. Það er mjög miður farið, ef ríkisstj. ætlaði að taka upp þann sið, sem hæstv. forsrh. hefur gert í þessu máli, að telja það vera árás á innræti og æru þeirra embættismanna, sem hlut eiga að máli, þó að fundið sé að gerðum þeirra á hófsamlegan og rökstuddan hátt.