25.01.1945
Neðri deild: 112. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

214. mál, útsvör

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég get fallizt á brtt. á þskj. 922 og 931, og hygg ég, að þær horfi til bóta. En ég get ekki fallizt á brtt. á þskj. 933, þó að mér virðist sem flm. hennar, að heppilegt sé að hafa gjalddagana sem flesta, með því að setja það ákvæði inn í l., að það skuli vera ákvarðað við 6 mán. greiðslutímabil, hvort sem gjalddagarnir séu tveimur fleiri eða færri. Mér virðist þessi brtt. hv. 4. þm. Reykv. sé heldur spor aftur á bak, og ég fæ ekki skilið, að þessi hv. þm., með þeim mikla áhuga, sem hann hefur fyrir að hafa dagana sem flesta, skuli vilja orða brtt. á þskj. 933 eins og hann gerir. Þá vil ég segja það, að ég tel, að sá varnagli, sem settur var inn í útsvarslöggjöfina 1941, um að ekki mætti krefjast útsvars af manni, ef tekjur hans nægja ekki til lífsframfæris að dómi framfærslunefndar, hafi við mikið að styðjast. Hins vegar virðist mér sú brtt., sem hv. 4. þm. Reykv. flytur á þskj. 933, tölul. 2, stefni nokkuð í aðra átt, þar sem sagt er, að ekki megi ganga lengra í kröfu að innheimta útsvar en svo, að viðkomandi útsvarsgreiðandi hafi nægilegt fé fyrir sig og sína að leggja. Og ef það, að vera í öllum tilfellum á valdi þess, sem skuldar sveitarfélaginu, hvort hann hefur nægilegt fyrir sig og sína að leggja, þá er hætt við, að útsvör innheimtist heldur illa, hvort heldur það væri í Reykjavík eða annars staðar. Mér virðist, að ef hv. 4. þm. Reykv. vill slá varnagla eitthvað líkt því, sem hann kom inn í þessa löggjöf 1941, þá þyrfti hann að orða þessa brtt. nokkuð öðruvísi en hér er gert. Og ég tel, að eins og hún er orðuð af hans hálfu, mundi hún beinlínis geta stefnt sveitarfélögunum í hættu, ef menn eiga einir að dæma um það, hvort þeir hafi nægilegt fé fyrir sig og sína að leggja. (GÞ: Þetta eru bara gamlar útsvarsskuldir.) Ég veit það, en þær eiga rétt á sér eins og aðrar, svo framarlega sem möguleikar eru fyrir hendi að greiða þær. Nú virðist mér, að það sé ekki varlegt af þessum ástæðum, sem ég hef nefnt, að samþ. þessa brtt. frá hv. 4. þm. Reykv., nema hann mundi finna á henni eitthvert annað orðalag, sem ekki beinlínis stefnir sveitarfélögunum í voða, en það er nú svo með sveitarfélögin, að löggjöfin leggur á þau allmiklar kvaðir, bæði um skólahald og ýmislegt, sem þau þurfa að halda uppi í almennings þágu. Og þegar af þessum ástæðum verður að vera nokkurt aðhald í útsvarslöggjöfinni, þannig að sveitarfélögin geti uppfyllt þarfir sinna borgara og staðið við þær skyldur, sem löggjöfin leggur þeim á herðar.