09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

27. mál, skipun læknishéraða

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — í tilefni af yfirlýsingum tveggja hv. þm. Austurlands út af rökst. dagskrá, sem fram er komin í þessu máli, vil ég segja það, að þessar yfirlýsingar komu mér mjög á óvart, með tilliti til þess, hvernig þetta mál liggur fyrir.

Hv. 2. þm. S.-M. gat þess í ræðu sinni, að höfuðástæðan til þess, að þetta frv. hefði komið fram hér í þinginu, væri það sérstaka tilfelli, sem skeði á Austurlandi, að læknisbústaðurinn á Brekku í Fljótsdal brann, og sá vilji, sem er á Austurlandi fyrir því að sameina tvö læknishéruð, sem hafa verið á Fljótsdalshéraði, í eitt stórt læknishérað, og hin óhjákvæmilega endurbygging læknisbústaðar handa Héraðinu. Það er rétt, að þetta er höfuðástæðan fyrir því, að þetta frv. kom fram, en fleira liggur þar til grundvallar.

Það hefur verið rætt á Austurlandi í alllangan tíma að breyta læknaskipulaginu í þá átt, sem hér er gert ráð fyrir. Og Héraðsbúar hafa ekki alltaf verið á einu máli um, hvernig þessu væri bezt fyrir komið. Mikill meiri hluti íbúa þessara tveggja læknishéraða hefur áreiðanlega verið þeirrar skoðunar, að heppilegast mundi, að læknisbústaðurinn handa báðum héruðunum væri nálægt Egilsstöðum og væntanlegu þorpi á Fljótsdalshéraði. En hins vegar hefur glögglega komið fram hjá íbúum þeirra tveggja hreppa, sem læknisbústað höfðu áður, íbúanna í Fljótsdalshreppi og Hjaltastaðaþinghá, að þeir eru algerlega andvígir þessari breyt. á skipun læknishéraða þarna. Og það er kunnugt, að nær allir íbúarnir í Fljótsdalshreppi, þar sem læknisbústaðurinn á Brekku var, hafa þegar sent mótmæli hingað til Alþ. gegn því, að þessi breyt. verði gerð, og krafizt þess, að læknisbústaðurinn yrði endurreistur á Brekku. Það er því alveg gefið mál, að ekki er mögulegt að framkvæma þá breyt., sem er nauðsynleg að dómi meiri hl. manna í læknishéruðunum, sem sagt að sameina hin fyrri tvö læknishéruð í eitt með læknisbústað að Egilsstöðum, nema með því að samþ. l. um sameiningu þessara tveggja læknishéraða með læknisbústað á þessum stað. Og vegna þess þóttu mér yfirlýsingar hv. 2, þm. S.–M. (EystJ) og hv. 2. þm. N.--M. (PZ) næsta merkilegar, þegar þeir vilja, - svo mikið nauðsynjamál sem þeir hafa talað um, að þetta mál væri, - vísa málinu frá með rökst. dagskrá og láta málið standa eftir sem áður jafnóleyst. Því að önnur leið yrði þá ekki fyrir ríkisstj. en gefa út brbl., sem ég skil ekki, hvaða ástæða ætti að vera til að láta þurfa að koma til, eins og hér stendur á. Og mér þykir ekki ótrúlegt, að ríkisstj. mundi hika við að gera það, þegar slík óánægja er vitanleg fyrir hendi um sameiningu héraðanna, a.m.k. í tveim hreppum þarna eystra. En ég álít, að stefnt sé í rétta átt með því að sameina þessi tvö læknishéruð í eitt með læknisbústað á Egilsstöðum, og því vil ég fá það samþ., eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Um önnur atriði þessa frv., sem menn greinir á um, skal ég ekki vera margorður. Ég get fyllilega játað, að ýmislegt í þessu frv. hefði ég kosið á annan veg og það allmikið öðruvísi. En ég álít hins vegar, að ýmsar þessar breyt., sem hér er gert ráð fyrir, eigi mikinn rétt á sér og að engin þeirra sé á nokkurn hátt saknæm. Og ég álít, að það sé svo mikil nauðsyn á því að samþ. ákvæði þessa frv. um breyt. á skipun læknishéraða fyrir austan, að ekki sé hikandi við að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Og mig undrar stór. kostlega, að tveir hv. þm. af Austurlandi skuli leggja til, að málið standi áfram óleyst og í sömu vandræðunum og það stendur nú, því að ég tel eðlilegt, ef það verður ekki samþ. fyrir Austurland nú, sem farið er fram á hér í frv., að einhver dráttur verði á því hjá framkvæmdavaldinu að fara að reisa læknisbústað, sem alls ekki hefur verið ákveðið með l. frá Alþ.

Þá vil ég einnig minnast á atriði, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. N.-M. og undraði mig allmikið. Hann vildi færa það fram sem eina höfuðástæðu til þess að standa á móti frv. eins og það nú er orðið, að hér væri hrært saman mjög mismunandi stefnum. Annars vegar væri sú stefna að stækka læknishéruð og hins vegar sú að skipta eldri læknishéruðum og stofna þar með önnur minni. Það er eins og hv. þm. telji það sérstaklega ákjósanlegt, að saman sé steypt tveim læknishéruðum, eins og ákveðið er á Austurlandi, með sérstöku tilliti til þess, að aðeins einn læknir verði þar, sem tveir áttu að vera samkv. l. En ég er viss um, að Austfirðingar hafa ekki ætlazt til þessa, heldur er ég viss um, að menn þar gera sér fastlega vonir um, að í héraðinu verði tveir læknar, en ekki einn. En hins vegar hefur ekki fengizt hér fram vilji til þess að ákveða það alveg skýlaust, að í þessu stóra héraði þarna austur frá ættu að vera tveir héraðslæknar. Ég hef ekki séð mér fært að flytja um þetta brtt. Hins vegar hef ég nokkuð beitt mér fyrir því, að ákvæði væru sett í frv., .sem tryggðu það betur en gert var í upphaflega frv., að þó að í þessu héraði væri ákveðinn einn héraðslæknir, þá væri ákveðið í l., að það sæti fyrir um að fá að njóta væntanlegs aðstoðarlæknis. En ég geri mér ljóst, að það er hætta á því, að héraðslæknir noti sér ekki þá aðstöðu að fá sér aðstoðarlækni, og eins er hætta á hinu, að enginn aðstoðarlæknir fáist.

Ég mótmæli því, að það hafi verið meiningin með sameiningu þessara tveggja héraða á Austurlandi í eitt, með einum læknisbústað, að hafa þar aðeins einn lækni í þessu umdæmi, þar sem áður áttu að vera tveir læknar samkvæmt l. Ég tel mig alls ekki fulldómbæran um það, hversu réttlátar séu aðrar breyt. í þessu frv. um skiptingu einstakra læknishéraða, en sýnist þó, að ýmis veigamikil rök standi að þeim breyt., sem ráðgerðar eru. En ég tel fullkomlega þörf á að samþ. frv. eins og það er nú til þess að fá það fram, sem ég tel mikilvægast í frv., að ákveða læknisbústað fyrir austan, svo að hægt sé að hefja framkvæmdir um bygging hans nú þegar í sumar. Auk þess er svo hitt, að hér er fram komin þáltill., sem stefnir í þá átt, að fram eigi að fara athugun á læknishéraðaskipulaginu í heild, og býst ég við — ef það sýndi sig, að einhverjar þær breyt., sem hér væru samþ., á einhvern hátt kynnu að koma í bág við hagsmuni héraða, — að breytt yrði til aftur. En ég segi fyrir mig, að ég hræðist það ekki á nokkurn hátt, þó að þessar breyt. á frv. væru samþ.