05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (3255)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Magnús Jónsson:

Ég vil aðeins í sambandi við þessar brtt. og ummæli hv. þm. Barð. segja það, að síðari brtt. hans, að l. öðlist þegar gildi, má teljast meinlaus, en líka gagnslaus. Það er mjög fjarri því, að það hafi verið fyrir flaustur eða vangá, að þetta ákvæði er ekki í frv. eins og það er borið fram. Það eru fastar reglur um, hvenær lög skuli öðlast gildi, ef ekkert er fram tekið um það í l. sjálfum, ég má segja, að það sé sex vikum eftir að þau hafa verið birt í stjórnartíðindum. Þetta mál er þess eðlis, að ekkert liggur á upp á dag, að þau öðlist gildi, áður en sá lögmælti tími er kominn, eftir að þau hafa verið birt í stjórnartíðindum.

Um fyrri brtt. er það að segja, að ég sé ekki annað en hún sé gersamlega óþörf, a.m.k. frá sjónarmiði þeirra, sem bera nokkurt traust til veitingarvaldsins. Maður getur skilið þetta sem sneið til ráðh., að hann muni þverskallast við að veita embættið, en til þess tel ég enga ástæðu.

Ég sé því ekki, að nein þörf sé á að samþ. þessa brtt.