15.09.1944
Efri deild: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (3262)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Út af þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. Barð. bar fram, vil ég taka þetta fram. Viðkomandi 2. gr. frv., um tilnefningu í beitunefnd, er það að segja, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, að þeir aðilar, sem hér hafa verið nefndir, eru valdir með það fyrir augum að vera umbjóðendur þeirra aðila, sem þar eiga mest réttar að gæta. Annars vegar er Fiskifélag Íslands og Alþýðusambandið, með það fyrir augum, að Fiskifélagið mætti skoða sem umbjóðanda sjómanna og útgerðarmanna, og Alþýðusambandið sem umbjóðanda manna, sem vissulega hafa hér síns réttar að gæta, og fiskimanna almennt. Hins vegar er nefndin skipuð eftir tilnefningu Sambands íslenzkra samvinnufélaga og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna. Í þessum tveimur stofnunum eru flest eða öll hraðfrystihús í landinu, sem líklegt er, að taka mundu þátt í að framleiða beitu. Með þeirri till. var leitazt við að gefa báðum aðilum, notendum og framleiðendum, nokkuð jafna aðstöðu í þeirri von, að með því móti næðist gott samstarf milli nefndra aðila. Ef hv. deild þykir Fisksölusambandið réttari aðili en annarhvor forsvarsaðili þeirra, sem nota beituna, hef ég út af fyrir mig ekki mikið um það að segja. En mér þykir vafasamt, að komið geti til mála að taka það í staðinn fyrir Fiskifélag Íslands, því að Fiskifélagið er orðið þess eðlis, að mér finnst sjálfsagður hlutur, að það fái fulltrúa í nefndinni. Og eins og hv. þm. tók fram, er Fisksölusambandið sem stendur umfangslítil starfsemi, sökum þess, hve lítið hefur verið um sölu á saltfiski. Finnst mér því ekki hlýða að taka Fisksölusambandið upp í staðinn fyrir annan þeirra aðila, sem nefndir eru í frv. — Í sambandi við hina fyrirspurnina, hvort ég telji ástæðu til að leggja sérstakar skyldur á þau frystihús, sem hafa fengið styrk, vil ég taka þetta fram. Það eru nú svo að segja öll frystihús í landinu, sem hafa fengið opinbera aðstoð, sum beinan styrk, sem veittur var til kjötfrystingar á byrjunarárum kjötfrystihúsanna, og hafa svo síðan fengið lán, sem hefur verið mikil hjálp til að koma þeim upp, og sama máli gegnir um þau frystihús, sem byggð hafa verið síðan. Þessi styrkur var veittur til þess að hraðfrystihúsin gætu annað því að frysta kjöt til útflutnings og innanlandssölu, og ég held, að þau hafi öll innt af hendi þær skyldur, sem þeim voru lagðar á herðar með þessum styrk. Ég tel þess vegna því fara mjög fjarri, að það sé rétt að leggja á þau sérstakar skyldur, því að með því móti gæti svo farið í sumum tilfellum, að þau gætu ekki uppfyllt þær skyldur, sem upphaflega voru lagðar þeim á herðar, þ. e. að frysta kjöt. Tel ég þessa leið því mjög vafasama og tæplega færa.