22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég átti satt að segja ekki von á þessum miklu umr. um svo ómerkilegt mál. (JJ: Alveg rétt; ómerkilegt mál!) Já, það má segja, fremur ómerkilegt mál.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Barð. sagði um sjúkraskýli í fámennum læknishéruðum, vil ég segja það, að mér er auðvitað ekki kunnugt álit n. hér um, en ég býst við, að hún sé þessu andvig sökum þess, að þá félli niður ákvæðið um 2/5. Þá spurði hv. þm. Barð., hvort ákvæði frv. væru nægilega skýr. Það er ekki á valdi n. að kveða skýrara á hér um, það heyrir að sjálfsögðu undir heilbrigðisstjórnina. Um rekstur sjúkrahúsanna er það að segja, að ríkið styður þau án tillits til þess, hversu þau bera sig. Enn fremur spurði þm. Barð. um, hversu yrði háttað með útlendinga. Ég hygg, að þeir verði látnir sæta sömu kjörum og utanhéraðsmenn, en væri um halla eða vanskil að ræða, mundi ríkissjóður bera þann halla. Annars mun það vera venja, að hafður sé hærri taxti fyrir útlendinga en aðra, enda mun það hafa verið svo t.d. í Vestmannaeyjum og Seyðisfirði, að fremur mun hafa verið gróði að útlendingum. Ég skal bera þessi atriði fram í n. Það, sem ég hef hér sagt. er einungis mín skoðun.

Hv. þm. S.-Þ. var ekki eins ákveðinn sem fyrr í, að verið væri að níðast á Akureyringum með frv. (JJ: Ég rökstuddi það að nýju.) Það var þá einkennilegur rökstuðningur og fær ekki stuðning frá Akureyringum sjálfum. Því að hér liggur fyrir skeyti, þar sem þeir óska eftir, að frv. nái fram að ganga, ef úr því er fellt ákvæði landlæknis, um, að nálæg héruð verði í félagi, og er það eðlilegt. Ég sagði hér í ræðu um daginn, að margt mælti með því, að sjúkrahús séu rekin af ríkissjóði, en sem stendur kallar svo margt að í heilbrigðismálunum, að hann getur ekki ráðizt í að byggja spítala á Akureyri. Það verður hér sem oftar heppilegra, að ríkissjóður og héruðin taki höndum saman. Viðvíkjandi læknisbústaðnum á Fljótsdalshéraði, þá er sú leið til, sem háttv. þm. S.-Þ. þekkir mjög vel, já, mjög vel, að fá frávik frá l. um það tilfelli.

Ég veit ekki betur en mörg læknishéruð standi saman, eins og er, að rekstri sjúkrahúsa og skóla. En ef annar aðilinn tekur nauðugur upp slíka samvinnu, þá getur sambúðin orðið erfið. Og í þessu tilfelli getur orðið um það að ræða samkvæmt upplýsingum hv. 4. landsk. Háttv. þm. S.-Þ. kveður legudaga Reykvíkinga á Akureyri vera um 1500. Þetta er sjálfsagt rétt. En ef til vill er það af því, að þar er sá maður, sem færastur er hér á landi í aðgerðum á berklasjúklingum. Þó hygg ég, að legudagar Akureyringa í Reykjavík séu ekki færri.

Fólk er nokkuð á ferð og flugi í þessum erindum, og þýðir ekki um það að sakast. Ég sé ekki ástæðu til að víkja frá frv. í þessum atriðum, en till. háttv. 4. landsk. skal verða athuguð af nefndinni.