31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég ætlaði ekki að blanda mér í þær miklu umr., sem orðið hafa um þetta mál, því að þótt það að vissu leyti snerti mitt kjördæmi nokkuð mikið, þá hefur mér fundizt, að í því væru ekki mörg atriði, sem væru mjög —stórvægileg fyrir mitt umhverfi. En það er búið að segja svo mörg orð um þetta mál og m.a. víkja að atriðum, sem mér koma við, að ég get ekki með öllu látið umr. afskiptalausar.

Það hefur hvað eftir annað verið vikið að því, að þessi flækja, sem málið virðist nú vera komið í að nokkru leyti, stafi af því, að Eyjafjarðarsýsla taki ekki þátt í byggingu eða rekstri sjúkrahúss á Akureyri. Það hefur verið talað um, að Eyjafjarðarsýsla sé laus við þá kvöð, sem hvílir á flestum sýslufélögum landsins, að leggja eitthvað til sjúkrahúss. Þetta er a.m.k. ekki meira en hálfur sannleikur, ef það er þá það. Til skamms tíma hafa verið tvö sjúkrahús í Eyjafjarðarsýslu, sem hún hefur lagt fé til. Nú er að vísu búið að skilja það sveitarfélag, þar sem annað sjúkrahúsið var, frá sýslunni, sem sé Ólafsfjörð, en það er þó a.m.k. enn ofur lítið sjúkrahús á Dalvík. Það er því alrangt, að Eyjafjarðarsýsla leggi ekkert fram til sjúkrahúsa.

Annars var það svo með þetta sjúkrahús á Akureyri, að fyrst þegar það var stofnað, var það gjöf einstaks manns, en Akureyrarkaupstaður, sem var þá tiltölulega lítill, og Eyjafjarðarsýsla ráku það í félagi. Síðan, með fullu samkomulagi beggja aðila, tók bærinn við rekstri sjúkrahússins, en sýslan varð algerlega fyrir utan hann.

Ég skal ekki segja margt um þá brtt., sem hv. 3. landsk. hefur borið fram á þskj. 961, en ég get ekki fallizt á hana og tek um flest eða allt undir það, sem hv. þm. S.-Þ. hefur um þetta sagt, og skal ég ekki endurtaka það hér, en aðeins bæta því við, að ég sé ekki betur en brtt. miði að því að leggja alveg sérstaka refsingu og fjárútlát, ekki á héraðið, heldur á þá sjúklinga, sem kynnu að vera úr nálægum héruðum, ef ekki er samkomulag um, að þau héruð taki þátt í rekstri sjúkrahússins. En eins og hv. þm. S.-Þ. benti á, þá er það heldur ótiltekið, hvaða héruð þetta eru. Segjum svo, að það mætti leggja þessa refsingu á sjúklinga úr innri hluta Eyjafjarðarsýslu og tveimur hreppum Suður-Þingeyjarsýslu, en það er ómögulegt að skilja till. svo, að það eigi að einskorða við það. Í Eyjafjarðarsýslu eins og hún var fram að síðustu áramótum voru tvö læknishéruð fyrir utan Akureyrarlæknishérað. Þetta á að gilda fyrir sjúklinga úr þeim læknishéruðum og kannske enn fleiri. Þetta er óákveðið allt og laust í reipunum, að því er mér finnst, í þessari brtt. á þskj. 961.

Að hinu leytinu sé ég enga þýðingu í því, þegar einn bær, næststærsti bær landsins, tekur að sér þær skyldur, sem því fylgja að reisa og starfrækja sjúkrahús með stuðningi ríkisins, þó að fleiri aðilar komi þar til, því að ríkissjóður græðir ekkert á því, því að það er ákaflega mikið vafamál, hvort ríkisvaldið sér því fólki, sem í þessum hreppum býr, fyrir læknishjálp á sama hátt og öðrum landsmönnum. Það er talsvert óljóst, hverjar eru skyldur heilbrigðislæknisins á Akureyri. Og ef það skyldi vera svo, að íbúar þessara sveita væru utan allra læknishéraða að nokkru leyti, þá væri minni ástæða til að gera veður út af þessu.

Mér finnst ákaflega óbilgjarnt gagnvart Akureyrarkaupstað, sem er að reisa sjúkrahús með ærnum kostnaði, — en ég skal þó taka fram, að með frjálsum samskotum hafa íbúar sveitanna í grennd lagt fram nú þegar stórfé til byggingarinnar, — ef það ætti að verða skilyrði fyrir þeim réttindum, sem frv. fjallar um, að nærliggjandi héruð vildu taka á sig fjárhagslegar kvaðir, því að það hlýtur að fara eftir þeirra eigin geðþekkni og vilja, hvort þau vilja taka þessar kvaðir á sig, og ef þau neita, þá á Akureyrarbær að líða fyrir það.

Ég verð að segja, að ég er ekki ánægður með þetta frv., jafnvel þótt á því yrðu gerðar þær breyt., sem fyrir liggja og ég get fallizt á. Ég álít, að það hefði verið að ýmsu leyti eðlilegasta lausnin á málinu að samþ. það frv., sem hv. þm. Ak. bar fram í Nd. snemma á þinginu um það, að ríkið reisti og ræki sjúkrahús á Akureyri. Ég hygg, að ekki sé hægt að benda á höfuðstað hinna fjórðunganna, sem sé jafnréttnefndur höfuðstaður þess fjórðungs eins og Akureyri er höfuðstaður Norðurlands. Ef við tökum Vesturland, hver er þá höfuðstaður þess fjórðungs? Ísafjörður? Ég hygg, að hann geti ekki talizt nema höfuðstaður Vestfjarðakjálkans. Stykkishólmur getur miklu fremur heitið höfuðstaður Breiðafjarðar. Sama er með Austurland. Hver er nú höfuðstaður Austurlands? Er það Seyðisfjörður, Reyðarfjörður eða jafnvel Egilsstaðir? En það orkar ekki tvímælis, að Akureyri er höfuðstaður Norðurlands, og Akureyri er langsamlega stærsti kaupstaður landsins næst á eftir Reykjavík, svo að mér hefði fundizt það vera sanngjörn lausn á þessu máli, að frv. hv. þm. Ak. hefði verið samþ. í aðalatriðunum. Nú mun ekki kostur á því, og þá verð ég að segja, að ef þetta frv. verður samþ., sem ég hef ekki á móti, að sé gert, þá álít ég óhjákvæmilegt að gera þá breyt., sem hv. 4. landsk. stingur upp á á þskj. 874, því að með henni eru settar skorður við því, að heilbrigðisstjórnin. sem ef til vill er ekki þessu máli of velviljuð, — og það má alltaf búast við því —, geti sett þau skilyrði og kröfur, sem kaupstaðurinn getur ekki með nokkru móti fullnægt. En að hinu leytinu fyndist mér, að það væri líka sanngjarnt, að það, hvort nærliggjandi sveitir taka þátt í þessu, sé undir samþykki þeirra sjálfra komið, og þess vegna er ég í raun og veru einnig meðmæltur brtt. hv. þm. S.-Þ. á þskj. 955, og ég vildi helzt taka undir það, sem hv. þm. Barð. sagði nú síðast, en hann óskaði eftir því, að málinu væri frestað til frekari athugunar, og þá vildi ég fyrir mitt leyti gjarnan óska eftir því. að reynt yrði að bræða þessar till. saman. Efnislega geta þær staðizt báðar, en eins og þær eru bornar fram. geta þær ekki orðið samþ. báðar að forminu til. Ég vil langhelzt og álít sanngjarnast að leysa málið þannig, að efni þeirra beggja sé tekið upp í frv., að heilbrigðisstj. gæti ekki sett þessi skilyrði nema því aðeins, að það hérað, þar sem fjórðungssjúkrahús á að reisa, óskaði þess, og ekki væri heldur hægt að leggja þessar kvaðir á nærliggjandi sveitir, nema þær samþ. Að vísu er það ekki hægt hvort sem er, en ég held, að það mundi ekki valda skaða, þó að það væri beinlínis tekið fram í l. Ég vil því gjarnan mæla með því, að þetta frv. væri tekið út af dagskrá, og það væri æskilegt, ef n., sem hefur haft málið til meðferðar, vildi athuga þá leið að steypa saman brtt. á þskj. 874 og 955.