12.02.1945
Neðri deild: 127. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (3477)

132. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Hv. flm. hafa nú nokkuð þreytt mælsku sína á að sýna gagnsemi þessa máls. Hv. þm. A-Húnv. kvað þetta mál þrautrætt, og mun það satt vera, að ræður hans taka nú að lýsa nokkrum þrautum, og án þess að ég ætli að leggja nokkurn dóm á ræður þessa þm., sem hann gerði um mínar ræður, er hann sagði, að þær væru ekki einu sinni undanrenna, heldur súr undanrenna, þá hygg ég, að ræður hans séu líkari froðu og flautum, enda oftast skyldastar þess háttar framleiðslu.

Hann sagði, að ekki væri mikils um það vert að fá að selja mjólk, þegar hana skortir, en í öðru orðinu segir hann, að alltaf sé skortur á mjólk. Hver getur nú komið slíku saman, og hvaða heilvita maður getur flutt slíkt? Ég skal leiða hjá mér hótanir þær, sem þessum hv. þm. virðast svo tamar síðan hann varð stuðningsmaður hæstv. ríkisstjórnar, en ég hygg, að enginn muni blikna né blána fyrir hótunum hans, þótt hann sé vikapiltur ríkisstjórnarinnar.

Hann sagði, að þetta yrði lagað og skyldi verða lagað. Það kann að vera, að slík rökfærsla sé góð í fjár- eða hrossaréttum í Austur-Húnavatnssýslu, en hún er ekki talin góð hér á Alþ. — Þá sagði hv. þm., að menn mundu ekki fara að breyta búskapnum úr kjötframleiðslu í mjólkurframleiðslu, meðan engin trygging væri um markað fyrir mjólkina. Ef allir hefðu hugsað svo, þá hefði aldrei orðið mikil mjólkurframleiðsla, og seint hygg ég, að sum mjólkurbúin hefðu verið reist, ef allir hefðu litið svo á. Mér þykir ekki horfa vænlega um afköst nýsköpunarpostulanna, ef þeir ætla að fá allt fyrir fram tryggt. Þeir sögðu í haust, að lítið yrði gert, ef bíða ætti eftir því, að allt bæri sig, en nú vilja þeir engu hætta. Ég er þess fullviss, að framsóknarmenn í Austur-Húnavatnssýslu hugsa ekki þannig,

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á rökstuðning hv. flm., er þeir báru saman fjarlægðirnar. Þeir sögðu, að leiðin austur væri um 200 km. Hér er þó nokkru bætt við. En svo þegar þeir reikna vegalengdirnar úr Húnavatnssýslu og Snæfellsnesi, þá miða þeir við Borgarnes, en ekki Reykjavík, sem auðvitað ætti að gera. En þó að mjólkin væri flutt til Borgarness aðeins úr Austur-Húnavatnssýslu, þá er heiði á milli, sem oft er ófær. En þó að hér þurfi að fara yfir Hellisheiði, sem er mun betri fjallvegur, þá er mjólkurbú hinum megin, svo að þangað má flytja mjólkina, þegar leiðir teppast. En þó að nú þessu sé sleppt, þá var á sínum tíma mjög deilt um það, hvort taka ætti mjólkurbúið í Borgarnesi inn á verðjöfnunarsvæðið, enda einatt miklum örðugleikum bundið að flytja mjólk úr Borgarnesi og ekki hægt að gera það daglega nema með miklum kostnaði. Þeir, sem til þekkja, vita, að sjóleiðin er þeim erfiðleikum bundin, að sjávarföll ráða lendingu, en leiðin fyrir Hvalfjörð löng, og þó mun sú leið líklega verða lausnin í framtíðinni, þar sem hin leiðin getur alltaf teppzt, enda ekki notuð nema í nauðsyn. Ég hef meira að segja heyrt sagt, að sumir hv. þm. kæri sig lítt um að fara þessa leið, eftir að þeir urðu fyrir nokkrum hrakningum, en kjósi heldur landleiðina úr Borgarnesi.

Það er óneitanlega nokkur kaldhæðni örlaganna, að tveir flm. þessa frv., þeir hv. þm. Snæf. og hv. þm. A-Húnv., fluttu hér till. og fengu samþ. á Alþingi í fyrra um að skipa rannsóknarnefnd vegna mjólkurmálanna. Þeir fengu till. samþykkta raunar nokkuð breytta, þar sem taka átti allt þetta mál til rannsóknar og auðvitað okkur alla, sem höfum að því komið að vinna að þessum málum. Þó hefur ekki komið till. frá hv. þm. Snæf. um að setja heildsalana undir rannsókn, en þeir eru uppvísir að því að hafa svikið um máske milljónir króna. Það hefur ekki komið fram hjá honum jafnmikill áhugi í þeim efnum. Það er einkennilegt, að þessi hv. þm., sem mest hefur barizt fyrir því að fá skipaða rannsóknarnefnd og fengið hana skipaða eftir sínu höfði, þannig að hans menn séu í meiri hluta og bændur hafi þar sem minnst að segja, að hann skuli nú, einmitt þegar þessi nefnd situr að störfum, láta það vera sitt fyrsta verk að fara að berjast á móti henni. Þetta sýnir, hvernig hann ætlast til, að nefndin starfi. Nefndarmennirnir eiga að vera eins og þjónar, hvort sem málstaðurinn er réttur eða rangur. Ég verð að segja, að ef slíkur er skilningur hv. þm. Snæf. á málinu og hefur verið þegar hann flutti þessa tillögu, er ég honum mjög þakklátur fyrir, að hann skuli ekki hafa haft hug til að taka sæti í þessari nefnd, eins og flokksbræður hans buðu honum.

Það ætti nú að koma í hlut annarra en minn að verja þessa n., því að hún er skipuð á móti mínum vilja og starfar að óþörfu. Þó skal ég viðurkenna, að hún hefur starfað eins og hún hefur getað til þess að komast að því rétta í málinu og aflað sér þeirra upplýsinga, sem hún hefur getað komizt yfir, og hún hefur ekki látið blekkjast af þeim hleypidómum, sem áður hafa komið fram í þessu máli.

Ég veit ekki til, að nein tilmæli hafi komið frá bændum, sveitum eða héruðum um að taka sig inn í verðjöfnunarsvæði. Sé ég því ekki, hverjir hafa yfir sérstaklega illri meðferð að kvarta í þessum efnum, þar sem engar umsóknir hafa borizt, ekki sízt þegar þess er gætt, að boðizt hefur verið til að taka sveitirnar vestur undir Snæfellsnesi inn á verðjöfnunarsvæði. Þetta er pólitískt mál og er borið fram í blekkingarskyni, án þess að fyrir liggi óskir um það frá hlutaðeigendum að komast inn á verðjöfnunarsvæði.

Ríkisstjórnin var nýlega að ákveða verðjöfnunarsvæði, án þess að spyrja Alþingi. Hún biður ekki einu sinni um álit þess, en þó er þar um 10–20 sinnum meira verðmæti í húfi en hér er um að ræða. Hvers vegna komu þessir menn ekki með það mál inn á Alþ. til þess að láta það skera úr því?

Ég vil að lokum taka það fram, að engri sveit hefur verið neitað um upptöku á verðjöfnunarsvæði, ef hún hefur haft skilyrði til þess að geta notað þá aðstöðu.