18.10.1944
Neðri deild: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (3518)

160. mál, launa- og kaupgjaldsgreiðslur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Hv. 2. landsk. þm. (ÞG) sagði, að þetta frv. væri flutt af framsóknarmönnum til þess að koma í veg fyrir stjórnarsamvinnu, og má segja, að allur málflutningur hans væri eftir þessu. Allir vita, að flm. er ekki í Framsfl. (ÞG: Með annan fótinn.) Ég verð að segja, að það er hæpinn málstaður hjá stétt, sem þarf að nota slíkan málsvara. Ræða þm. var frá upphafi eintómar fullyrðingar, eins og t. d. það, að af minnstu viti, minnstum rökum og verstum málstað væri frv. flutt.

Aðeins eitt ræddi þm. af viti. Hann minntist á, að tekið væri fram í grg., að allir ættu að leggja fram sinn skerf, og kallaði eftir skerf þeirra, sem helzt gætu látið hann. Ég er honum sammála í því, að frv. gengur of skammt. Ég vil bjóða hv. þm. mína aðstoð, ef hann vill fullkomna frv. og bæta t. d. inn í það miklum eignarskatti frá þeim, sem mest hafa grætt á stríðinu. Ef frv. væri fullkomnað á þennan hátt með aðstoð okkar beggja, og það vona ég, að hv. flm. hafi ekki á móti, þá væri allt eins og hv. þm. telur, að eigi að vera.

Það er misskilningur hjá honum, að við eigum að hætta að ræða þetta vandamál. Látum frv. fara til n., og þá getum við undirbúið brtt., þar sem enn aðrir aðilar kæmu til greina að færa fórnir, eins og sjálfsagt er.

Hv. þm. vildi gera lítið úr boði bænda og sagði, að hjá þeim lægju hrein búhyggindi til grundvallar. Það er alveg rétt. Það eru búhyggindi af öllum að slá nú af sínum kröfum til að bjarga atvinnulífinu í landinu. Ef það eru búhyggindi af bændum, þá eru það búhyggindi fyrir okkur öll.