24.10.1944
Neðri deild: 70. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (3524)

172. mál, gjaldeyrir til kaupa á framleiðslutækjum

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Það er kunnugt, að íslenzkir bankar eiga nú allmikið fé erlendis í þeim löndum, sem við höfum haft skipti við síðustu ár. Sennilega jafngilda þessar inneignir bankanna nú a. m. k. 540 millj. ísl. kr., en skýrslur um hag bankanna gagnvart útlöndum í byrjun þessa mánaðar liggja ekki fyrir.

Í þessu frv., sem flutt er af mér og hv. 2. þm. S-M., er lagt til, að 85% af þeim fjárhæðum, sem bankarnir áttu inni utanlands 1. þ. m., verði lagt til hliðar eða fært á sérstakan reikning í bókum bankanna og að þennan gjaldeyri megi ekki selja öðrum en þeim, sem nota hann til kaupa á framleiðslutækjum og efni til þeirra gegn sérstökum leyfum viðskiptaráðs. Þær upphæðir, sem þannig yrðu lagðar til hliðar, ef frv. verður samþ., má gera ráð fyrir að jafngildi nálega 460 millj. kr. Eru þá eftir af inneignum bankanna erlendis um 80 millj. kr., sem mætti ráðstafa á annan hátt, m. a. til að ljúka að fullu þeim skuldum, sem landsmenn eiga nú óborgaðar utan lands.

Í grg. fyrir frv. er tekið fram, hvernig flm. ætlast til, að þessum gjaldeyri verði varið. Ef rekstur sjávarútvegsins verður með eðlilegum hætti næstu ár, má gera ráð fyrir, að mestur hluti þessa fjár verði notaður til kaupa á nýjum skipum og efni til skipa og á annan hátt til eflingar sjávarútveginum, svo sem til kaupa á vélum til verksmiðja og frystihúsa, sem vinna úr sjávarafurðum. Nýlega var haldið hér í Reykjavík þing farmanna og fiskimanna og frá því send áskorun til Alþ. um að lögfesta, að varið yrði a. m. k. 300 millj. kr. af inneignunum erlendis til þarfa sjávarútvegsins. Ef þetta frv. verður samþ., ætti að vera tryggt, að unnt verði að selja gjaldeyri, sem nemur þessari fjárhæð í íslenzkum peningum, þeim einstaklingum og félögum, sem vilja leggja fé í útgerð skipa og annað, sem lýtur að eflingu sjávarútvegsins.

Nokkrum hluta af gjaldeyrisinneignunum þarf einnig að verja til kaupa á landbúnaðarvélum, t. d. jarðræktar- og heyvinnuvélum, sem nauðsynlegt er að afla til þess að auka ræktun landsins og koma heyöflun landsmanna í það horf, að heyskapur á óræktuðu landi geti sem fyrst horfið úr sögunni. Það má líka vekja athygli á því, að hér þarf að koma upp áburðarverksmiðju og ýmsum fleiri iðnfyrirtækjum. Allt þetta kostar erlendan gjaldeyri, en þó mun ekki þurfa nema lítið af þeirri heildarupphæð, sem hér um ræðir, til að fullnægja þörfum landbúnaðarins að þessu leyti. Má gera ráð fyrir ýmsum nýjum iðnfyrirtækjum auk þeirra, sem þegar hafa verið nefnd, ekki sízt rafveituframkvæmdum, sem hljóta að hafa í för með sér mikinn efnisinnflutning á næstu árum, og eyðast því vafalaust háar fjárhæðir í erlendri mynt til þeirra hluta.

Það er tvennt til um meðferð þess fjár, sem þjóðin á nú erlendis. Það er hægt að verja mestum hluta inneignanna til eflingar atvinnuvegunum, í þágu sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar á þann hátt, sem stefnt er að með þessu frv. Það má líka nota þær til daglegrar eyðslu og éta þær upp á skömmum tíma. Það er óneitanlega nokkur hætta á, að svo geti farið, ef engar slíkar ráðstafanir verða gerðar í þessum efnum. Það er því miður ástæða til að óttast verðfall á útfluttum afurðum okkar áður en langt um líður eða að það verði samdráttur í útflutningsframleiðslunni, af því að hún ber sig ekki, og þar af leiðandi greiðsluhalli við önnur lönd. Þá er hætta á því, að gjaldeyririnn eyðist á skömmum tíma til kaupa á daglegu brauði handa landsmönnum. Þannig má þetta ekki verða. Þjóðin verður að vinna fyrir sér, en má ekki nota þessar inneignir til daglegrar eyðslu. Við, sem flytjum þetta frv., teljum nauðsynlegt, að reynt verði að hindra það, að inneignirnar eyðist á þennan hátt, og því leyfum við okkur að flytja þetta frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vísa til grg., og vil leyfa mér að mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.