29.09.1944
Neðri deild: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

128. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. er samið af mþn. búnaðarþings og er flutt hér fyrir tilstilli n. Eins og hv. þm. er kunnugt, lá fyrir á síðasta þ. till. um stofnun ferðasjóðs fyrir íslenzka bændur, og var það mál vakið hér í tilefni af orlofsl., sem samþ. voru um svipað leyti. Þegar svo var komið, að slík l. voru til, sem tryggðu mönnum orlof og tækifæri að ferðast um landið, þótti mönnum ranglátt að láta hlut bænda liggja eftir og gefa þeim ekki kost á hinu sama. Meðferð þessa máls hér á Alþ. var sú, að það var hvað eftir annað hrakið milli d. og síðan fellt.

Urðu töluverðar umr. um málið meðal bænda, og kom þá í ljós, að enginn sérstakur áhugi var á því að samþ. þetta frv., meðfram af því, að þeim þótti verkefni þessa sjóðs of veigalítið, fremur en af hinu, að þeir teldu eftir að leggja á sig gjöld þau, er fyrirhuguð voru. Og þegar farið var að ræða málið á breiðari grundvelli, kom fram till. í mþn. um að halda hugmyndinni um tekjuöflun áfram og færa út verkefni sjóðsins. Eins og kunnugt er, hefur um langt skeið verið greitt útflutningsgjald af sjávar- og landbúnaðarafurðum. En fyrir nokkrum árum var gjaldið af landbúnaðarafurðum fellt úr gildi, meðfram vegna þess, að ósamræmi var talið að hafa slíkt gjald á útfluttum vörum, en ekki þeim, sem seldar eru á innlendum markaði, því að margir töldu, að innlendi markaðurinn væri betri en hinn erlendi. Hins vegar er útflutningsgjald af fiski enn í gildi, og rennur 13/4% af verði útfluttra sjávarafurða í fiskveiðasjóð og er varið til eflingar sjávarútvegsmálum þjóðarinnar. Þetta gjald, sem hér er farið fram á, er hliðstætt því, þó með þeim breytingum, að lagt er til, að það falli á allar innlendar landbúnaðarafurðir, en er lægra, ekki nema 1/2% af heildsöluverði afurðanna. Ætlazt er til, að gjaldi því, sem mynda á búnaðarmálasjóðinn, verði hægt að verja til framfara íslenzka landbúnaðinum. Það orkar ekki tvímælis, að verkefnin eru margþætt og mikil, og þótt Búnaðarfélag Íslands hafi til umráða allmikið fé, er ríkið leggur því til, er því mjög markaður bás miðað við þau verkefni, er ríkið fær því í hendur, og þess ber að gæta, að atvmrh. getur ráðið, hvernig þessu fé er varið, því að honum ber að samþ. útgjaldaáætlun félagsins. Hins vegar eru mörg verkefni, sem Búnaðarfél. hefur löngun til að styrkja meðal ísl. bænda og ekki er hægt að sinna, vegna þess hve fjárhagur er þröngur. T.d. má nefna húsbyggingu félagsins, þar sem hús þess er orðið gamalt, svo að segja má, að starfsemi fél. sé upp úr því vaxin. Félaginu er nauðsynlegt að eiga myndarlega byggingu til starfsemi sinnar. Sömuleiðis er uppi áhugi um að koma fyrir í þeirri sömu byggingu gistiheimili fyrri sveitafólk, þar sem það gæti átt sér samastað, er það er hér á ferð. Æskilegast væri, að þetta stæði í sem nánustu sambandi við þær stofnanir, sem fjalla mest um mál bænda, eins og t.d. Búnaðarfél. og Búnaðarbankann. Nú stendur fyrir dyrum, að Búnaðarbankinn reisi hús hér í bænum, og rætt hefur verið um að koma fyrir í því húsi bæði skrifstofu félagsins og gisti- og greiðasölu fyrir bændur, sem eru hér á ferð. Því er ekki að neita, að á undanförnum árum hefur mjög verið eftir því spurt, hvort félagið veitti nokkurn styrk til kynnisferða bænda. Slíkar kynnisferðir hafa komizt á í ýmsum landshlutum og hafa þar notið nokkurs styrks, en félagið hefur hvergi nærri getað uppfyllt þær óskir, er fram hafa komið, svo þröngur stakkur sem því er skorinn í þessum efnum. í frv., sem ég nefndi í upphafi, var gert ráð fyrir, að úr ferðasjóði skyldi veitt fé til einyrkja bænda, sem venjulega sitja á hakanum, þegar slíkar ferðir eru farnar, vegna skorts á vinnukrafti. Ætlazt var til, að þessir bændur yrðu styrktir til að fá sér hjálp á heimilið, meðan þeir væru í ferðinni. Einnig má minna á það, að þótt Búnaðarfél. hafi með höndum framkvæmdir fyrir ríkið og ríkinu beri að kosta þá starfsemi og geri það, þá hefur fél. á ýmsan hátt fært út verksvið sitt fram yfir bein fyrirmæli og tekið að sér meira og meira af ýmiss konar sérstakri starfsemi. En sumt af verkefnum fél. er þess eðlis, að fé til þeirra á að koma frá bændum sjálfum, og er það ekki nema réttmætt, enda bændastéttinni það metnaðarmál. að félagsstarfsemi hennar standi á eigin fótum.

Ég skal geta þess, að frv. hefur verið sent öllum búnaðarsamböndum landsins til umsagnar, og hafa komið jákvæð svör frá öllum nema einu og meðmæli með því, að frv. verði flutt á Alþ.

Skal ég svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en óska þess, að frv. verði vísað til landbn. að umr. lokinni.