01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Gísli Jónsson:

Ég tel rétt að hreyfa dálítið ummælum um málið á þessu stigi, einkum með tilliti til óska atvmrh. að flýta afgreiðslu málsins, áður en þingi sé slitið.

Ég hef kynnt mér þetta mál, og ég veit, að þótt þetta frv. verði samþ. óbreytt, þá verður það þrætuepli ávallt síðar og það verður sífellt verið að breyta því. Það verður óhjákvæmilegt að samrýma það ýmsum ákvæðum gildandi l., og ég tel, að varla muni fást samkomulag um það á því þ., sem nú er. Því vil ég spyrja hæstv. atvmrh., hvort hann geti ekki sætt sig við, að þessar 5 millj. kr. séu látnar renna í Fiskveiðasjóð til afnota samkv. 6. gr. l. nr. 34 frá 2. apríl 1943. Þar var svo ákveðið, að það fé, sem lagt er þar inn, skyldi notað sem styrkur í þá átt, sem farið er fram á í þessu frv., en í a-lið greinir svo, hvernig veita skuli þau lán. Mér skilst, að með þessum hætti mundi nást sama takmarkið, deilulaust, nema ef Alþ. vildi síðar setja ákvæði um, hvað miklum hluta skyldi útbýtt samkv. a-lið og hvað miklu samkv. b-lið. Þess vegna vildi ég hreyfa þessu hér, áður en málið fer til n.

Ég sé, að mþn. í sjávarútvegsmálum hefur ekki orðið sammála um nein stórmál, og finnst mér þeim mun nauðsynlegra að fara varlega, þar sem n. hefur klofnað í þrennt. Sumir vilja, að fénu verði bara varið til lána. Ég fyrir mitt leyti er því fylgjandi. Það var deilt um, hvort gefa ætti þessar 2 millj. kr., og varð að samkomulagi að nota ekki það fé framvegis sem gjafafé, en að þær 2 millj. kr., sem búið er að lána, verði notaðar til styrkja án eftirkröfu. Ég á erfitt með að skilja, ef nú á að taka þá stefnu að láta féð út sem gjöf, en ekki styrk, þvert ofan í ákvörðun síðasta þings. Ég álít það óhyggilegt af Alþ. að láta út svona mikið fé sem styrk án þess að setja um það nokkrar fastar reglur, ekki sízt á þessum árum, þegar útvegurinn er aðalundirstaðan að tekjum ríkissjóðs.

Þetta mál var nákvæmlega rætt hér sl. ár, og þarf ekki að endurtaka það, sem þá var sagt hér í hv. d. Mér finnst óviðeigandi, að Alþ. kasti frá sér að ákveða, hvort þetta fé sé veitt sem styrkur. Ef það vill halda báðum leiðum opnum til þess annaðhvort að fullnægja því sjónarmiði, sem kom fram í mþn., eða því, sem hér um ræðir, þá ætti að ákveða, hvað mikið er styrkur og hvað mikið lán. Mér finnst hér um of veigamikið atriði að ræða, til þess að Alþ. kasti frá sér að ákveða um það.

Eins og ég sagði áðan, þá vill meiri hl. eða tveir menn í mþn., að allt féð sé veitt sem styrkur, en oddamaðurinn segir ekki, hvorri stefnunni hann er fylgjandi. En mér skilst, að með því að hann hefur tjáð sig fylgjandi meiri hl., sem hallast að styrkveitingum, þá sé hann frekar á því, en þó ekki fastbundinn þeirri skoðun. Þetta vildi ég hafa tekið fram þegar á fyrsta stigi málsins.

Þá finnst mér í 5. gr. gæta misræmis og ekki sé hægt að framkvæma ákvæði hennar, svo að til gagns sé. Þar stendur, að það megi aðeins lána gegn 2. og 3. veðrétti, svo að auðséð er, að ætlazt er til, að Fiskveiðasjóður láni áfram með 1. veðrétti. Fiskveiðasjóður má lána allt að 50–60% út á 1. veðrétt. Nú væri hægt að fá þannig 150 þús. kr. út á 1. veðrétt eða 1500 kr. á smálest á 10 smálesta bát. En samkv. þessu frv. má ekki lána úr framkvæmdasjóði meira en svo, að lánið verði - með lánum gegn 1. veðrétti — meira en 100 þús. kr. Það má því ekki láta l. verða svona, því að þau mundu verka þannig, að ekki yrði hægt fyrir nokkurn vélskipseiganda að taka lán hjá þessari nýju lánsstofnun. Það er bezt að ganga þannig frá því, að það geti náð tilgangi sínum, en þessar staðreyndir, sem ég hef bent á, stangist ekki á, eða m.ö.o. að veita þetta sem styrk, en ekki lán.

Í sambandi við 2. gr., þar sem sagt er, að stj. þurfi að samþ. val og kaup á vélum skipsins, þá tel ég það ákvæði hæpið. Við höfum fengið reynslu í því undanfarin ár, hversu erfitt er að sækja undir slíka aðila, sem veitt er það vald, sem stj. er veitt með þessu ákvæði. Þetta mundi skapa meira öngþveiti fyrir útveginn en svipað fyrirkomulag fyrir bílaeigendur gerði á sínum tíma. Það þarf ekki að segja mér, að þeir ráðh. í núv. stj., sem koma til með að fara með þessi mál og fylgja Framsfl., muni ekki hlúa að sínum mönnum á þessu sviði eins og öðrum. Ég tel óheppilegt að blanda pólitík í þessi mál. — Þá tel ég, að verði ákvæðin í 2. gr. látin halda sér, muni engar stofnanir vilja lána fé út á þessa báta nema sú stofnun, sem hér um ræðir.

Annað, sem ég tel óviðunandi, er það, að verði viðkomandi maður gjaldþrota, er ekki hægt að selja skipið nema með leyfi ráðh., sem setur upp, að ákveðin upphæð sé talin gildandi. — Þetta tel ég mjög varhugavert. Þessi ákvæði mundu hvorki gera skipið veðhæft né eigandi. Slíkt ákvæði er bókstaflega ógerlegt að eiga yfir höfði sér í rekstri skipsins, og sá tilgangur, sem l. hafa, mundi ekki nást.

Þá tel ég óheppilegt að skipta þessari hjálp í svo marga staði. Mér finnst eðlilegt að hafa allt féð hjá Fiskveiðasjóði. Menn, sem skulda slík lán, munu heldur vilja, að þau séu á sem fæstum stöðum.

Ég efa, að 12. gr. sé lögleg, en auk þess er óviðkunnanlegt, að með þessum l. sé gerð breyt. á öðrum l., án þess að tekið sé fram, að svo sé. En 12. gr. er breyt. á l. nr. 34 frá 1943 — og það svo stórvægileg, að ég efast um, að þær breyt. hefðu náð fram að ganga, ef þær hefðu verið bornar fram sem brtt. við þau l. Þessu hefur verið laumað hér inn, en e.t.v. án þess að viðkomandi menn hafi gert sér það ljóst.

Ég skil ekki, hvers vegna þeir, sem eiga eftir að taka lán, eiga að sæta miklu óhagstæðari kjörum en þeir, sem þegar hafa tekið sín lán. Það er þegar búið að veita 1300 þús. kr., en 700 þús. eru óveittar. Ég skil ekki, hvers vegna þeir, sem eiga eftir að taka þessar 700 þús. kr., eiga að sæta verri kjörum en hinir. Úr lánadeild er búið að lána aðeins 600 þús. kr., og sýnir þetta, að þriðji hver maður hefur heldur óskað að fá lán til lengri tíma en styrk. Þetta vil ég benda á þegar við 1. umr. í þessari hv. d. og vil, að hæstv. atvmrh. segi, hvort hann sjái sé ekki fært að mæla með því, að fénu verði veitt í Fiskveiðasjóð. En ég hygg, að það þurfi að athuga allar þessar reglur miklu betur en kemur fram hér í þessu frv.