02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (3724)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Bjarni Benediktsson:

Í tilefni þessa frv., sem hér liggur fyrir, hefur mér komið til hugar, að hv. þm. sýnist oft ærið létt um að semja nýja lagabálka, — í raun og veru furðanlega létt um slíkt, vegna þess að mér hefur virzt svo, að það sé oft firna erfitt að koma saman heillegum lagabálkum um vandasöm mál, þannig að allt sé tekið með og að einhverju væri ekki gleymt, sem miklu máli skipti. Reynslan ber því einnig mjög oft vitni, að misjafnlega hefur tekizt, þar sem mjög mikið er um breyt. á nýjum l., vegna þess að ýmsir hafa verið að semja frv. um efni, sem þeir hafa ekki getað athugað til hlítar eða haft yfirlit yfir. Ég set þessar athugasemdir hér fram, vegna þess að mér finnst þessa gæta talsvert í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir. Það er áreiðanlega góð hugmynd, sem vakir fyrir flm. þessa frv., hv. þm. Barð., og það er ástæða til þess að setja nokkuð nánari fyrirmæli um nýbyggingarsjóð, sérstaklega til varna því, að sjóðurinn verði að eyðslueyri; hitt er svo annað mál, að það er alls ekki einfalt, hvernig á að setja þessi fyrirmæli. Ég fyrir mitt leyti hef haft nokkur afskipti af þessu sem formaður nýbyggingarsjóðsstj., og mér hafa verið ljósir þessir ágallar, sem hv. þm. Barð. hyggst nú reyna að bæta úr. Ég hef samt ekki komið auga á einhlítt ráð til þess að bæta úr þessu, og ég verð nú að telja, eftir að hafa athugað frv., eins og það kom frá hv. þm. Barð. og síðan brtt. við það, sem komnar eru frá sjútvn. Ed., að mjög vafasamt er, að það verði til nokkurra bóta, þótt þetta frv. verði samþ. Ég geri ráð fyrir því, — og þó með nokkrum fyrirvara —, að brtt. séu flestar til bóta frá því, sem frv. var í upphafi, en ég á eftir að gera upp huga minn um, hvort ég treysti mér til að greiða atkv. með frv., þótt brtt. verði samþ., enda þótt ég hafi ekkert á móti því, að frv. gangi til 3. umr. til frekari athugunar.

Með þessu frv. er að vísu því meginatriði náð, sem ég tel mjög miklu máli skipta, sem sé að komið verði í veg fyrir, að fé úr nýbyggingarsjóði verði varið til þess að greiða taprekstur. En á móti þessu kemur svo það, að með þessu frv. og þrátt fyrir brtt. sjútvn. er það gert stórum hægara en áður fyrir einstaka útgerðarmenn að losa fé sitt úr nýbyggingarsjóði og afhenda það að vísu öðrum til nýbygginga, en þó svo, að það er engan veginn víst, að meira verði byggt, þrátt fyrir þessa afhendingu, heldur síður en svo. Það er sem sagt gert auðveldara fyrir einstaka útgerðarmenn að koma fé sínu frá nýbyggingum og verja því til einhvers annars, þrátt fyrir þau hlunnindi, sem þeir hafa, vegna þess að þeir hafa lagt fram fé til nýbygginga. Sjóðurinn er til nýbygginga ætlaður, en aftur á móti eru með þessu frv. stórkostlega aukin afskipti ríkisvaldsins og jafnvel umráðaréttur ríkisvaldsins yfir þessu fé, sem er útgerðarmönnum til mikils óhags. Ég verð því að telja það mjög hæpið að samþykkja þá leið, sem hv. þm. Barð. hefur fundið til þess að koma í veg fyrir, að fé úr sjóðnum verði eytt í taprekstur, þar sem hún hefur í för með sér, að einstaklingum er gert auðveldara að koma fé frá nýbyggingum og að ríkisvaldið eða opinber aðili taki að verulegu leyti sjóðinn til umráða. Ég verð ákaflega að draga í efa, að það fái staðizt að leggja þessar hömlur á sjóðina, þá sjóði, sem þegar er búið að mynda. Menn hafa fengið og hafa heimild til þess að leggja þetta fé til hliðar í ákveðnu skyni og með ákveðnum skilyrðum, og ég efast stórlega um, að dómstólarnir teldu það löglega takmörkun á eignarrétti þessara manna, sem hér eiga hlut að máli í þessu frv. Ég sé ekki annað en að það mætti alveg eins takmarka hverjar aðrar eigur, sem einstakir borgarar hafa undir höndum, ef samþykkja á þessa leið. — Þá tel ég það raunar frágangssök fyrir Alþ. afgr. þetta mál ekki fyrr heldur en okkur hefur verið gerð grein fyrir, hvaða breyt. eiga að verða á skattal. Það er alveg ljóst, eins og hv. þm. Barð. tók fram, að það er ætlunin, að skattal. verði breytt, en eins og frv. nú liggur fyrir, þá standa ákvæði skattal. í raun og veru í ósamræmi við fyrirmæli frv., og frsm. hlýtur að gera sér grein fyrir því, að ef hann treystir sér ekki til þess að breyta skattal. vegna setningar þessara l., þá mun það hafa í för með sér deilur, sem hann vill komast hjá í sambandi við afgr. þessa máls, og að málið er ekki eins einfalt og hann hefur talið sér trú um.

Í einstökum gr. frv. eru líka ákaflega mörg vandamál og óaðgengileg atriði. Það er ekki eins einfalt og menn halda að framfylgja ákvæðum 5. gr., eins og hún á að vera samkv. brtt. sjútvn.

Tökum t. d. fyrirtæki, sem eiga bæði síldarverksmiðjur og togara. Hvaðan kemur gróði þessara fyrirtækja? Nú verja fyrirtæki nýbyggingarsjóðsfé sínu til byggingar vélbáta. Hvaða stjórnarvöld eiga að skera úr um, hvaðan gróðinn er kominn? Um þetta eru engar leiðbeiningar í frv.

Yfirleitt er það svo, að útgerðarfélög reka ekki eingöngu útgerð með skipum einum. Það verður að hafa margs konar atvinnurekstur í sambandi þar við. Það verður því að taka fram, hvort t. d er heimilt að reisa frystihús og þess háttar fyrir fé úr sjóðnum, en mér er hulin ráðgáta, eftir hvaða reglum n. hugsar sér að láta skrá þetta á bréfin.

Ef 4. gr. verður samþ., verða útgerðarfélög, sem fé eiga í sjóðnum, að skuldbinda sig til að fara með féð eins og ákveðið er þar. Féð er að verulegu leyti arðlaust. Nú er það vitað, að mörg af útgerðarfélögunum hafa keypt skuldabréf sveitarsjóða, sem eru eins trygg og ríkisskuldabréf. Er þá ætlunin, að þessi félög geymi fé sitt með þessu móti? Úr því þarf að fá skorið. Orðalag 4. gr. verður ekki skilið á annan veg en að sjóðsstjórnin geti lagt eigendum fjárins skyldur á herðar. Eins og stendur í gr., er sjóðsstjórninni heimilt að verja fé úr sjóðnum. Eftir máli hv. frsm. ættu ekki að vera vandkvæði á að breyta þessu.

Það er lagt mjög mikið vald í hendur sjóðsstjórninni, þar sem segir: „Þó er sjóðsstjórninni heimilt, ef það að hennar dómi þykir hagkvæmara fyrir afkomu sjávarútvegsins, að verja fé úr sjóðnum til kaupa á góðum, nýlegum skipum frá útlöndum og einnig að flytja greiðslur á milli flokka.“

Þarna er sjóðsstjórninni sett í sjálfsvald að brjóta niður það, sem vinna á með 3. og upphafi 5. gr. Ég vil vekja athygli hv. frsm. og annarra hv. dm. á, að samkvæmt þessu eiga eigendur fjárins ekki að hafa vit á því, hvað hagkvæmast er, en stjórn sjóðsins á að skera úr um, hvað einstaklingunum er hagkvæmast í þessu efni. En eftir hvaða reglum á að skera úr um þetta? Höfum við betri skilyrði til að dæma um, hvaða atvinnutæki eru hagkvæmust, en eigendur fjárins? Eigendur fjárins ættu að skera úr um, hvort heldur t. d. ætti að byggja togara eða vélbát. Mig skortir sannfæringu fyrir því, hvort hyggilegra er að láta stjórnina eða einstaklinga skera úr um þetta.

Annars er flokkaskiptingin góðra gjalda verð og ætti að koma í veg fyrir, að fé safnaðist á fárra manna hendur. En ég er enn sömu skoðunar og í upphafi, að frv. hjálpi mönnum til að draga fé frá nýbyggingunum. Það má að vísu segja, eins og sagt var við mig á fundi sjútvn., að þetta stuðlaði að því, að nýbyggingarsjóðunum yrði til einhverra hluta varið. Nú væru þeir svo litlir, að þeir kæmu ekki að neinu haldi. Skip á að fæða af sér skip með tímanum. Ég er sannfærður um, að sjóðirnir sópast á fárra hendur og verði ekki notaðir til að byggja ný skip. Nýbyggingarsjóðirnir verða ekki til annars en að útvega útgerðarmönnum skattahlunnindi og að ekki yrðu þá byggð fleiri skip. Það yrði farið í kringum ákvæði þessara l. með ýmsu móti. Þá verður árangurinn öfugur. Það verður því skárra af tvennu illu að láta l. óbreytt, úr því að ekki hefur tekizt að komast hjá þeim göllum, sem eru á þeim nú.

Ég vil beina því til hv. dm., hvort ekki væri rétt að vísa frv. til ríkisstj. til athugunar og að hún reyndi að ráða bót á þeim ákvæðum nýbyggingarsjóðsl., sem ekki eru góð.

Ég hef ekkert á móti því, að frv. fari til 3. umr., en mun þá ef til vill bera fram till. um að afgreiða það með rökstuddri dagskrá.