31.01.1945
Neðri deild: 116. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

264. mál, húsaleiga

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. — Mér þykir rétt, þar sem nokkuð hefur verið deilt um það, hvort frv. þetta felur í sér brot á núgildandi reglum um húsaleigu eða gengur lengra en þær heimila, að láta í ljós skoðun mína um þetta efni.

Það er þá í fyrsta lagi réttur hins opinbera meðal borgaranna eða gagnvart þeim. Það hefur komið fram hér í þessum umr., að ekki þætti tilhlýðilegt, að ríkið hefði meiri rétt en einstaklingurinn. Það kann að vera hart, ef einstaklingurinn verður að þoka fyrir þjóðfélagsheildinni, eins og virðist koma fram hér. Þótt svo væri, að þjóðfélagið verði að ganga á rétt einstaklingsins, getur það verið nauðsynlegt og sjálfsagt. Það er víða talið sjálfsagt, að ef hagsmunir ríkisins og einstaklingsins rekast á, verði hagsmunir einstaklingsins að víkja.

Ég tel, að þetta geti verið svo mikilsvarðandi, að þessi grundvallarregla hljóti að gilda.

Með þessu frv. er farið fram á, að svo verði hliðrað til, að ríkið geti tekið þetta húsnæði til alþjóðarþarfa, og getur því verið mikilsvert að hafa slíkt ákvæði í l. Ég tel, að grundvallarreglan hljóti að vera sú, að þarfir þjóðarheildarinnar gangi fyrir hagsmunum einstaklingsins. Hér er ekki verið að tala um neitt, sem ekki er öðrum leyft. Hver einstaklingur hefur rétt til að rýma húsnæði, ef hann sjálfur eða hans tilteknir vandamenn þurfa á að halda, og er það skv. 3. gr. gildandi húsaleigul. Alþ. hefur leyft sér að gera undantekningu þar, sem opinberir starfsmenn eiga í hlut og þingmenn utan af landi, sem kæmu til bæjarins til þingsetu. Og þessi málsgr. var sett inn af alþm. út úr nauðsyn. Þeir vissu ekki, hvar þeir ættu höfði sínu að að halla, og tóku það ráð að setja þessa undantekningu inn í l. Nú er, eins og hæstv. félmrh. tók fram, ekki farið þann veg að, heldur er þetta, sem í þessu frv. er ætlað að lögleiða, svo til komið og þannig orðað hér, enda tilgangurinn sá, að ríkið sem eigandi fái í fyrsta lagi þann rétt, sem einstaklingar hafa, að nota sitt hús sem sína eign, ef það sjálft þarf á því að halda. Og þann rétt eiga einstaklingar. En nú hefur það komið til, þótt hér yrði skákað þannig til, sem í frv. er gert ráð fyrir, að ríkið mundi ef til vill ekki ætla að nota sér þetta húsnæði til íbúðar. Það stendur að vísu hér í till. „eða ef brýn þörf er fyrir húsnæðið vegna skrifstofuhalds.“ Það hefur verið vitnað í einstakling, sem býr á Gimli. En þar er líka opinber rekstur, það er hin alkunna matsala. Því að þetta mál mun vera til komið út af því húsi m.a. Svo að niðurstaðan ætti að verða sú, að skrifstofuhaldið ræki út matsöluna, þannig að skrifstofuhaldið fengi sama rétt og þeir, sem þurfa að búa þar af hálfu eiganda og eru því eins nákomnir og skyldmenni eigendum, sem eftir húsaleigul. hafa rétt til að rýma fyrir þeim skyldmennum. Að dómi húsaleigul. er skrifstofuhald ekki verra en matsala. Hér er því ekki um að tala, hvorki eftir grundvallarreglum l., ákvæðum húsaleigul. né eftir eðli málsins, að neitt sé gert, sem óhæfa sé. Hitt getur verið álitamál í hverju tilfelli, hvort það opinbera á að fást við þetta. En það, sem í þessu frv. er farið fram á, er alveg eins og með hv. þm., sem leyfðu sér að samþ. annað hliðstætt þessu, nefnilega að þeir skyldu ganga fyrir öllum öðrum eftir ákvæðum húsaleigul. um að komast inn í íbúðir.

Þessi orð vil ég láta falla hér, þó að brtt. eigi eftir að fara aftur til athugunar í n. fyrir 3. umr. En málið hefur ekki farið til n.. af því að það er að nafninu til flutt af n. En ég beini því til hæstv. forseta að hann stilli svo til, að hv. allshn. vildi athuga þetta mál. Því að mér skilst, að það hafi ekki verið athugað í n. Og þá erum við sammála svo langt, að málið fari til nýrrar athugunar. Og það er þannig, að það er rétt að hafa á því góða athugun.

En að síðustu vil ég benda á, að viðbótin í brtt., sem brtt. er víst gerð til að koma á framfæri, að ríkisstj. sé skylt að sjá leigutaka fyrir jafngildu húsnæði að dómi húsaleigun. í sama kaupstað eða hreppi. þessi viðbót er nokkuð, sem er alveg nýtt. Og það er ekki samkv. því, sem hv. þm. A.-Sk. vitnaði í í 4. gr. l., því að þar er talað um sérstök tilvik, sem sé, hvort íbúðarherbergi megi taka til annarra nota en íbúðar, með því að húsaleigun. getur veitt leyfi til þess, með því skilyrði, að húseigandi sjái um jafnmikla aukningu á húsnæði til íbúðar annars staðar í hlutaðeigandi kaupstað, kauptúni eða sveit.

Ég þykist hafa sýnt fram á, að þessu er ekki svo einfaldlega farið, heldur muni vera nauðsyn á. að þetta sé athugað betur.