07.02.1945
Neðri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

264. mál, húsaleiga

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Sá, sem átti að hafa framsögu fyrir þessu máli, er ekki viðstaddur, svo að ég ætla aðeins að skýra frá, að allshn. hefur tekið frv. til athugunar á ný, eins og óskað var við 2. umr. Fjórir nm. hafa mælt með frv. óbreyttu, en einn, hv. 1. þm. Árn., mun vera á móti frv.

Í grg. frv. kemur fram ástæðan fyrir, hvers vegna farið er fram á að setja svona löggjöf. Ég fæ ekki betur séð en efni þessa frv. sé í raun og veru í samræmi við húsaleigul. að því er snertir réttinn til að fá húsnæði rýmt. Svo er einnig það, að húsaleigun. metur þörf ríkissjóðs, svo að ríkisstj. getur ekki sjálf án úrskurðar látið rýma húsnæði, og mér skilst, að það sé ekki óeðlilegt, að ríkisstj. fari fram á. að húsnæði sem þetta sé rýmt, ef það er vitað, að opinberir starfsmenn hér í bæ séu raunverulega húsnæðislausir, en það eru þó embættismennirnir, sem ríkið verður að sjá fyrir húsnæði, enda er það vitað, að ríkið hefur orðið beinlínis að kaupa fasteignir handa embættismönnum, vegna þess að húsnæði ríkisins er bundið. Það er þess vegna að mínu viti eðlilegt, að eins og einstaklingar geta fengið húsnæði rýmt, ef þeir hafa brýna þörf fyrir það sjálfir og nánasta skyldulið þeirra, geti það líka stj., ef hana vantar húsnæði og brýn þörf er að fá það fyrir embættismenn, sem stj. er skylt að sjá fyrir húsnæði, og þá ekki óeðlilegt, að ákvæði séu sett þar um. Mér skilst, að það sé efnislega sami réttur og húsaleigul. veita einstaklingum í slíkum tilfellum. N. hefur, eins og kemur fram í frv., flutt það eftir beiðni hæstv. stj., og hún hefur rætt það á fundum, eins og ég gat um áðan, og fjórir nm. leggja til, að það verði samþ. óbreytt.

Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða það nánar.