17.01.1945
Efri deild: 104. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (3824)

248. mál, alþýðutryggingar

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta frv. er einfalt og óbrotið og ekki ástæða til að hafa langar umr. um það, svo að því geti orðið lokið nú. Ég vil taka það fram, að mér finnst ákaflega eðlilegt sjónarmið hv. 3. landsk. Hann vill vernda og halda utan um sitt. Hann vill vera bæði trúr yfir litlu og yfir miklu, þar sem hann er settur yfir allt tryggingarféð. En það er nú venjulega svo, að eftir því sem menn hafa meira undir höndum, því meir vex ágirnd þeirra fyrir sjálfa sig. Og eins býst ég við, að það sé með hv. þm. varðandi sinn sjóð. Hann vill ekki gera neitt, sem veldur því, að hann láti meira af höndum en hann fær.

Það er um þetta mál að segja, að aðeins 3 stofnanir eru alveg hliðstæðar og bankinn, og nú er búið að veita 2 þá undanþágu, sem sú þriðja fer nú fram á að fá. Og hún hefur samþ. sér sömu reglur og sú fyrsta af þessum stofnunum, Landsbankinn, hafði samið fyrir sig. Nú hefur þessi stofnun, sem er Búnaðarbankinn, komið sér upp lífeyrissjóði, sem er 100–120 þús. kr., svo að ekki þarf að óttast, að vandræði séu fyrir hana að sjá fyrir sínum félögum. Þó að þetta verði leyft, er engin hætta á því, að fjórða stofnunin komi á eftir, því að það er ekki til nein önnur hliðstæð stofnun. Það er því ekki hægt að segja, að verið sé að byrja hér á einhverju prinsipi, því að hér er verið að reka endahnútinn á prinsip, sem byrjað var á áður.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væri sennilegt, að þau réttindi, sem farið er fram á hér, fáist á þessu ári við endurskoðun alþýðutrygginganna. En því er þá verið að draga á langinn þessa viðurkenndu sanngirniskröfu? Því má ekki framkvæma þetta strax, úr því að ákveðið er að gera það á annað borð? Ef þessi hv. mþn. á annað borð fer að eiga við þessi mál og telur, að hér sé of langt gengið, þá getur hún girt fyrir, að þessar stofnanir allar sæti þessum kjörum, því að hér er ekki um neina gildru að ræða eða útúrkrók, heldur farin sú beina braut, sem þegar hefur verið mörkuð í þessum efnum. Mér finnst hér vera um fulla sanngirni að ræða, að starfsmenn bankanna njóti sömu aðstöðu í þessum efnum, hvort þeir eru heldur í Landsbankanum, Búnaðarbankanum eða Útvegsbankanum.

Hef ég svo ekkert frekar um þetta að segja.